19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Mér virðist sem þessi umræða hnigi að einstökum atriðum málsins, þeim er fremur heyra til 2. umr. Úr því að svo er, vona eg, að mér verði til afsökunar virt, þó að eg fari nokkuð inn á einstök atriði.

Það hefir verið vikið hér að tvískiftingu þingsins, að hún væri óþörf. Eg vil leyfa mér að minna á það, að tvískiftingin er ekki stjórninni að kenna, heldur er hún sprottin beint af ráðstöfun þingsins sjálfs. Ef eg man rétt, var það þáverandi 1. þm. Húnv., sem bar fram till. um það og hafði hana fram með fylgi mikils meiri hluta þingsins. Tvískifting þingsins er því jafneðlileg nú sem þá.

Talað hefir verið um það, hvort veita skyldi konum kosningarrétt og kjörgengi með lögum eða í stjórnarskránni. Mér er nokkuð sama um það, á hvorn háttinn það verður gert. Eg hefi alla tíð verið þeirrar skoðunar, að hver vera í manns mynd ætti heimtingu á þessum mannlega rétti, og tel sjálfsagt, að þessu verði breytt innan fárra ára.

Það er eitt atriði, sem ekki hefir verið á vikið og ráðh. hefði gjarnan mátt leggja til að breyta með þessu stjórnarskrárfrumv., en það er aldurstakmark fyrir kosningarrétti. Það er líklegt, að lögaldurstakmark verði sett 21 ár innan skamms tíma. Nú er bæði í stjórnarskránni og stjórnarskrárfrv. þessu kosningarréttur miðaður við 25 ára aldur. Ef lögaldurstakmarki yrði breytt, og gert 21 ár, færi því svo, að lögfullveðja menn yrðu að bíða kosningarréttarins í 4 ár. Þess vegna væri viðkunnanlegra, að sett væri í stjórnarskrána, að kosningarrétt hefðu þeir, sem til lögaldurs væru komnir. Með þeim hætti yrði komist hjá nýrri stjórnarskrárbreytingu, þegar lögaldurstakmarkið væri fært niður, og væri því bezt að breyta þessu nú þegar er stjórnarskrárbreyting gagngerð stendur fyrir dyrum.

Virðulegur þm. Barð. (B. J.) talaði um það, að til þess að ná kosningu til efri deildar eftir frv. þessu, þyrftu menn að vera þjóðkunnir og að ekki mundi ætíð saman fara, að þeir hinir sömu væru góðkunnir. Eg er honum samdóma um það. En ef sá hinn sami maður hefir með sér tólfta hluta kjósanda, hefir enginn rétt til að hamla þeim frá að kjósa hann, því að kosningalögin heimila kjósendum að fá þann fulltrúa, sem þeir vilja, ef hann skortir ekki almenn kjörgengisskilyrði. Og kjósendur eiga einmitt að fá þann fulltrúa, sem þeir óska, þeir eru hvorki verðir verra né betra.

Mig furðaði á því að heyra af munni virðulegs þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að sambandslagafrv. ætti ekki að ganga í gegn á þessu þingi, það því fremur sem mér skildist á virðulegum þm. Barð. (B. J.), að stjórnarskrárfrv. mundi heldur ekki fá framgang fyr en eftir 8—10 ár. Eg bjóst við, að meiri hlutinn, sem nú er á þingi, mundi hraða sem mest stjórnarskrárbreytingum; svo mikið kapp lagði sá flokkur á það mál á síðastliðnu þingi, en flokkurinn er hinn sami, þó að um suma menn hafi skipt. En þá sagði virðulegur þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að ekki mætti bíða einu sinni tvö ár eftir stjórnarskrárbreytingum; svo brýn væri lífsnauðsyn þjóðarinnar á að fá þeim þegar í stað framgengt. Og þetta undirskrifaði hver einasti flokksmaður hans í Nd. þá. Það er því undarlegt að vilja bíða með þær breytingar nú. (Björn Jónsson: Eg sagði, ef stjórnarskrárbreytingar ættu að bíða sambandslagafrumv.). Það ætti þá því fremur að vera hvöt til að hraða breytingum á stjórnarskránni, ef svo er, að sambandslagafrv. sé ráðinn dauðadómur hjá meiri hluta þingsins.