06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Eins og háttv. þingdeildarmönnum er kunnugt, þá var sambandslaganefndinni falið að íhuga frumv. um breytingar á stjórnarskránni. Nefndin leggur til, að málið sé ekki afgreitt á þessu þingi, heldur samþykt þingsályktunartillaga þess efnis, að skora á stjórnina að búa málið undir, og leggja það síðan fyrir næsta þing. Ástæður nefndarinnar til þess að leggja þetta til, eru þær, að það væri óviðfeldið, að þingið samþykti breytingu á stjórnarskránni, sem er samtvinnuð sambandslagafrv., þar sem nauðalitlar líkur eru til þess, að það nái fram að ganga, og yrði þá samþykt stjórnarskrár-frumvarpsins þýðingarlaus, frumv. sjálffallið. Að samþykkja breytingar á stjórnarskránni að þessu sinni, væri því að eins til þess, að stofna til þingrofs og nýrra kosninga, án þess til nokkurs árangurs leiddi.

Að þessu sinni telur nefndin því réttast, að málið sé afgreitt með þingsályktun, sem fyr segir, en telur heppilegt, að stjórninni sé gefin bending um nokkur helztu atriðin, sem stjórnarskrárbreytingafrumvarp, er hún leggur fyrir næsta þing ætti að hafa inni að halda. Í þingsályktunartillögunni er fyrst bent á, að í frumv. ætti að vera ákvæði þess efnis, að heimilt sé að fjölga ráðherrum. Ef þeir eru fleiri en einn, þá er síður hætt við því, en meðan ráðherra er að eins einn, að gerðar verði fljótfærnislegar ráðstafanir, og ábyrgðin skiftist þá og á fleiri. Ef ráðherrar væru t. d. þrír, þá er og enginn vafi á því, að verkaskiftingin milli þeirra leiddi til þess, að atvinnumáfum o. fl. yrði að mun betur sint en nú, er allur undirbúningur þingmála hvílir að eins á einum ráðherra, eða byggist að minsta kosti einungis á tillögum hans og vilja.

Kostnaðurinn, sem leiddi af þessu fyrirkomulagi, þyrfti ekki að verða afarmikill, því auðvitað yrðu þeir hver um sig að hafa minni laun en hinn núverandi ráðherra hefir.

Þá er annað atriðið, og er það afnám konungkjörinna alþingismanna. Þjóðin telur það óþarft og óeðlilegt, að konungkjörnir þingmenn séu, og enga hættu á því, að þinginu veljist eigi nógu hæfir starfskraftar, eins og nú er komið menningarástandinu, hvað sem áður kann að hafa verið, og þýðir eigi að fara um þetta frekari orðum.

Þá kemur þriðja atriðið, er fer í þá átt, að konur fái kosningarrétt og kjörgengi til alþingis, sem og að rýmkað verði að öðru leyti um kosningarréttinn, og mun það tæpast verða að ágreiningi.

Þá er fjórða atriðið, að gera megi þá breytingu með almennum lögum, að ríki og kirkja verði skilið, enda hafa ýmsar raddir heyrst hjá þjóð vorri í þá átt.

En nefndin hefir, eins og þingsályktunartillagan ber með sér, eigi ætlað sér annað, en að benda á það helzta, og því als eigi minst á sumt, t. d. hvort heppilegra væri að þingið sé tvískift sem nú, eða myndi að eins eina málstofu, og það og fleira er þá búist við að stjórnin íhugi, áður en næsta alþingi fjallar um málið.

Eg þarf svo ekki að mæla með þessari þingsályktunartillögu, eða ræða hana frekar, en vænti þess, að stjórnin sinni henni, nái hún, sem eg tel víst, samþykki þingdeildarinnar.