06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. ÓL.) hefir nú svarað hinum háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) að nokkuru, og þarf eg því að eins fáu við að bæta. Hann skoraði á mig, að gera grein fyrir því, hvernig stæði á drætti þeim, er hefði orðið á meðferð málsins í nefndinni. Eg þóttist hafa gert það í fyrri ræðu minni, en skal þó víkja fám orðum að því aftur. Nefndinni þótti þýðingarlaust, og að eins tvíverknaður, að samþykkja nú stjórnarskrárbreytingar sem samtvinnaðar væru sambandsmálinu, þar sem ekki væri von um að fá sambandsmálið leitt til lykta, slæmur þröskuldur að líkindum á vegi þess, er til Danmerkur kemur. En á hinn bóginn vildi meiri hlutinn láta sambandsmálið ná fram að ganga, til þess að Danir fengju séð kröfur vorar ótvírætt. Það er ekki rétt af hinum háttv. þm. að kalla þetta leikaraskap, þvert á móti er þetta alvörumál. Það er satt hjá hinum háttv. þm., að tíminn hefði verið nægur til þess að útkljá stjórnarskrármálið á þessu þingi, en það hefði einmitt verið leikaraskapur að eyða tíma þingsins, til þess að ræða stjórnarskrármálið, eins og nú standa sakir, að því er til sambandsmálsins kemur, sem ekki verður vitað um, hversu reiðir af. En samþykt þingsályktunartillaga hefir mikið að segja, því að þjóðin á þess þá von, að málið verði tekið fyrir á næsta þingi, og gefst kostur á að láta í ljósi skoðun sína á einstökum atriðum þess; það verður rætt í blöðum og á þingmálafundum, og stjórnin getur þá haft það til hliðsjónar við undirbúninginn.

Að stjórnin muni ekki sinna þessari þingsályktunartillögu, eru getsakir í garð stjórnarinnar, sem eg get hjá mér leitt. En á annað benda þó ummæli hæstv. ráðherra (B. J.) ný skeð, þegar stjórn Kvenfélagsins leitaði til hans, til að ýta undir, að flýtt væri fyrir kosningarrétti kvenna, því að þá ráðgerði hann að leggja stjórnarskrárfrv. fyrir næsta þing.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) talaði um það, að eg hefði á þingi 1907 lagt fram frumv. um breytingar á stjórnarskránni, og væri eg því nú í mótsögn við sjálfan mig. En málið horfir nú öðru vísi við en þá. — Þá var ekki að ræða um stjórnarskrárbreytingar, miðaðar við sambandsmálið, eins og nú, og þótt leiðinlegt sé, að láta málið bíða næsta þings, þá verður svo að vera, vegna þess, hve þessi mál eru samtvinnuð.

Vér vitum og allir vel, að fráfarandi stjórn lét sér ekkert ant um, að koma á breytingum á stjórnarskránni meðan hún sat að völdum. — En nú vil eg spyrja hinn háttv. 1. þm. S,-Múl. (J. J.), hvers vegna bráð-liggur honum svo á þessum breytingum, hversvegna vill hann nú hafa nýjar kosningar? Til þessa gefur framkoma hans og flokks þess, er hann telst til árið 1907 mér fylstu ástæðu til að spyrja. — Að eg á þingi árið 1907 hafi talið stjórnarskrárbreytingar geta miðað til styrktar sambandsmálinu, ef ákvæðinu um ríkisráðið væri kipt burt, mun rétt hermt, þótt eg muni það ekki nú; enda tel eg lítinn vafa á því, að hefði svo verið gert, þá værum vér nú lausir við ríkisráðs-ákvæðið, eftir undirtektum Dana í millilanda-nefndinni, að því er til þess atriðis kemur.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) spurði, hvers vegna ekki hefði verið tekið upp í þingsályktunartill., að nema burt úr stjórnarskránni ríkisráðs-ákvæðið. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. ÓL.) hefir nú svarað þessu frá sínu sjónarmiði. En fyrir mína hönd og nefndarinnar, skal eg svara því, að það var ekki meiningin að telja upp öll einstök atriði, sem breyta þurfti. Það má því ekkert byggja á því, þótt svo væri eigi gert, að því er skoðun mína eða einstakra nefndarmanna um það atriði snertir. — Það atriði, meðal annara, er stjórninni þá ætlað að taka til íhugunar.

Það er rétt hermt hjá háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.), að eg hafi á þingi 1907 tekið fram, að áríðandi væri að veita konum sem fyrst kosningarrétt, og sömu skoðunar er eg enn, þó að atvikin neyði til að fresta því, með því að eigi færi vel á því — þótt vonlítið sé um fullnaðar-framgang sambandsmálsins — að samþykkja nú stjórnarskrárbreytingu, er gerði ráð fyrir, að Danir sinni að engu kröfum vorum í sambandsmálinu. — Biðin verður og að líkindum ekki löng, ef þingsál.till. verður samþykt, að eins í 2 ár, eða þar um.

Viðvíkjandi störfum nefndarinnar, skal eg geta þess, að eg varð ekki formaður, fyr en hæstv. ráðherra fór utan, og réð því engu um þau fremur en hver einstakur nefndarmaður. — Eg ympraði á því, þegar á fyrsta nefndarfundi, að nefndin skildi, meiri og minni hlutann, að því er til sambandsmálsins kemur, án þess að eyða tímanum í þýðingarlaust hjal; þá mundi hafa unnist meiri tími til þess að íhuga breytingar á stjórnarskrárfrv.; en væntanlega hefir næsta þing nægan tíma til undirbúnings, og mun þá frv. að öllum líkindum verða fremur að skapi meiri hlutans, heldur en frumv. það, er fráfarandi stjórn lagði fyrir alþingi að þessu sinni.