06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Pétur Jónsson:

Eg get tekið undir það með háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.), að hin háttv. nefnd hefir ekki unnið að þessu máli eins og æskilegt hefði verið og búast mátti við. Það er auðvitað rétt hjá nefndinni, að frumvarp þetta getur ekki gengið fram í því horfi, sem það hafði af stjórnarinnar hálfu, eftir að sambandsmálið nú er komið í það horf, að ekki getur verið neins framgangs að vænta um það — því hefir sem sé verið teflt til ónýtingar.

Eg verð nú samt að halda því fram, að það stingi nokkuð í stúf um framkomu hins háttv. framsm. (Sk. Th.) og þeirra manna, sem honum fylgdu 1907 í þessu máli. Þá voru þeir ákafir í því að knýja fram stjórnarskrárbreytingar, og töldu, að sumar þeirra þyldu enga bið. Nú er þeim ætlað það að bíða fram í óvissuna. — Þá var alveg sjálfsagt að bíða; þá var rísandi von um það, að lagður yrði annar betri grundvöllur undir sambandið milli Íslands og Danmerkur en var og er, og á þeim væntanlega grundvelli var nauðsynlegt að geta bygt rækilega endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Þá var því ekki ástæða til þess að hraða þessu máli. Nú er hnignandi von um það, að sá grundvöllur komist á, eftir því sem horfur eru á um sambandsmálið, bæði samkvæmt skýrslum ráðherra og forsetanna af málaleitun þeirra við Dani og öðrum líkum. — Það gæti því orðið langur tími, ef bíða ætti eftir því með stjórnarskrárbreytingar.

Eg hygg, að 1907 hafi öllum komið saman um það, að breytingar þær á stjórnarskránni, sem nefndar hafa verið, væru alveg nauðsynlegar.

En þeim mun meiri furða er það, að hinum háttv. meiri hluta virðist nú ekki framar ant um það mál. — Það er þessi hvarflandi, sem endurtekst svo oft í því er stjórnarbótarmál vort snertir. Það vantar ekki stór orð í köflum; menn tala um það, að þessu og þessu beri að fylgja hiklaust og röggsamlega fram o. s. frv., en svo þegar til kastanna kemur, þá kemur svignunin, og þeir sem ákafastir voru verða nú linastir. Í þessu kemur fram svo mikill skortur á þrautseigju og staðfestu, að það horfir eigi vel við, að leggja út í langsama baráttu fyrir sjálfstæðismálinu með slíkt hverflyndi í blóðinu, og þá er heldur ekki mikils sigurs að vænta í baráttunni.

En sleppum nú því, þó þetta frv. gæti ekki náð fram að ganga nú — af einhverjum ástæðum, — þá var það þó annað, sem nefndin gat gert og átti að gera: Hún átti að ræða málið í einstökum atriðum, sem ekki komu sambandsmálinu við, og koma með tillögur sínar rökstuddar í nefndaráliti og leggja þannig málið til hæfis fyrir umræður milla þinga. Það mundi hafa verið mikil fyrirgreiðsla.

Nefndin hefir haft þetta mál með höndum í eins langan tíma og milliþinganefndir hafa venjulega haft; hún hefði því haft tækifæri til þess, að leggja fram rökstutt álit í málinu, enda þótt ekki væri ætlast til þess, að það yrði samþykt í frumvarpsformi nú.

Það hefir verið minst á nokkur atriði (háttv. 1. þingm. S.-Múl. (J. J.) nefndi ýms ágreiningsatriði), sem hefði mátt taka með og mestan undirbúning hefðu þurft.

Hæstv. ráðherra (B. J.) mintist á það, meðan hann átti sæti hér sem þingm. Barðstrendinga, að æskilegt gæti verið, að breyta til um skipun þingsins, og mælti með einskiftu þingi.

Um þetta atriði hefði nefndin átt að láta í ljósi álit sitt, því að það er mikilsvert atriði.

Enn fleira hefði mátt koma til greina, og eg get ekki annað en lýst óánægju minni yfir störfum hinnar háttvirtu nefndar í þessu máli.