11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

56. mál, byggingarsjóður

Jón Þorkelsson:

Það var hér fyrir deildinni í gær frv. til laga um sölu á jörðunum Lambhaga og Hólmi í Mosfellssveit. Sem ástæðu gegn því frv. var því haldið fram, að þetta væru dýrar jarðir og kynnu að verða enn dýrari í framtíðinni og ennfremur að þær lægju nálægt höfuðstaðnum og gæti því sala þeirra haft áhrif á verð jarða hér í grend og jafnvel á söluverð lóðarbletta í Reykjavík. Af þessum ástæðum var frv. styttur aldur. — Hafi þetta verið með rökum gert, og ef nokkur samkvæmni er í gerðum manna hér á þinginu, þá ætti frv. það, sem nú liggur fyrir þinginu, og samþ. hefir verið í Ed., ekki að eiga langan aldur, því það má með óhrekjandi sannindum einmitt færa sömu ástæðurnar gegn því, og þær, sem haldið var frammi gegn frv. í gær.

Á þingmálafundi, sem haldinn var hér í Reykjavík, var samþykt með meginþorra atkvæða, að frv. þetta mætti ekki ná fram að ganga, vegna þess að ef landssjóður gengur á undan í því efni að lækka verð lóða sinna, þá muni allar lóðir falla mjög í Reykjavík, og það kemur öllum íbúum Reykjavíkur meira en lítið við, ekki einasta »lóðaspekúlöntum«, heldur öllum, sem hér eiga kofa yfir sig, því að flestum húsum hér er þannig háttað, að þeim fylgir stærri eða minni blettur, sem gæti verið hússtæði og sem margir hafa hugsað sér að selja og hafa hagnað af, og margur mun hafa treyst því, þegar hann réðist í byggingar eða húsakaup.

Frv. þetta er því skaðræði fyrir þennan bæ. Ed. hefir að vísu fært verðið nokkuð upp frá því, sem stjórnarfrv. fór fram á, eða 2,50 kr. ? al., sem þar var minsta verð. Ed. hefir fundið að hér var of langt farið, og því fært það upp í 3 kr. ? al., en niðurfærslan er samt mjög mikil frá því er upphaflega var ákveðið að selja lóðir þessar fyrir (5 kr. ? al.), og þessu kjördæmi gert mesta óhagræði og háski með niðurfærslunni.

Eg tel ómögulegt að samþ. frumv., og vonast til að það fái ekki langa æfi hér í deildinni.