11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

56. mál, byggingarsjóður

Ráðherrann (H. H.):

Eins og eg hefi tekið fram, þá er mér ekkert kappsmál, hvað þingið gerir í þessu efni; eg hefi bent á það, sem eg álít að það eigi að gera; sökin verður ekki mín ef því er ekki sint, og hin nýja stjórn verður auðvitað að sjá um sig sjálf.

Eg skil ekki, hvaðan háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) kemur sú vizka, að það eigi að byggja tóm skrauthýsi á Arnarhólstúninu. Ekki stendur það í lögunum og mér vitanlega hefir byggingarnefnd engin ákvæði sett um það. En það liggur í augum uppi, að þegar lóðin kostar 5 kr. ? al., þá hafa fáir efni á því að byggja þar smáhýsi, að eins til eigin nota, og að því leyti getur það verið rétt, sem þm. sagði. En það er þá ekki stjórninni heldur þinginu að kenna, sem hefir sett lóðaverðið svona hátt, og eg vona, að háttv. þm. skiljist það, að það er engum ákvæðum öðrum en sjálfu lóðaverðinu að kenna, ef byggja verður tóm stórhýsi.

Eg held það sé bezt fyrir þm. að sleppa þeirri ástæðu, að verið sé að spyrna á móti þessu frumv. vegna fátæklinganna í bænum; það er bersýnilega gert vegna þess að lóðaeigendur eru hræddir við, að lóðir þeirra falli í verði, ef lóð verður í boði ódýrari en þær lóðir, sem þeir hafa keypt og sitja með.

Háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) sagði, að stjórnin hefði átt að koma með frumv. þetta um lækkun á lágmarki lóðaverðsins á öðrum tíma og þegar betur léti í ári.

Eg verð að játa, að eg skil ekki þennan hugsunargang. Hvers vegna ættu lóðirnar að verða ódýrari, þegar vel lætur í ári og eftirspurnin er mikil? Þær hljóta að fylgja sama lögmáli og annað, sem á boðstólum er, og væri þess vegna allra sízt tími til þess að stinga upp á verðlækkun, þegar verðið hefir skilyrði fyrir því að verða sem hæst.

Það sem gæti legið á bak við, er það, að þeir sem eiga lóðir, séu hræddir við »konkurrance«. Frá sama sjónarmiði ætti ekki að selja þjóðjarðir, af því að það væri samkepni við aðra jarðeigendur, að minsta kosti þegar á selja þjóðjarðirnar fyrir lítið verð. Hv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) sagði, að stjórnin hefði átt að koma með þetta fyr, þegar vel lét í ári. En ástæðan til þess að stinga upp á lækkun er einmitt sú að koma þessum lóðum í samræmi við lóðarverðið yfirleitt — það væri lítil meining í því að stinga upp á því að lækka verðið — ef lóðir alment væri í hækkandi verði.