11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

56. mál, byggingarsjóður

Jón Þorkelsson:

Hæstv. ráðh. (H. H.) talaði um það, að það mætti alveg með sama rétti taka fyrir þjóðjarðasölu, eins og að halda verðinu á Arnarhólslóð svona hátt. Því var haldið fram hér í deildinni af háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.), að allar jarðir hefðu fallið í verði síðan þau lög gengu í gildi, sökum þess að borgunarskilmálar væru svo vægir, að ekki væri hægt að komast að betri kaupum. Er því umtalsmál, hvort þau séu svo holl eignum manna, að vert sé hér að vitna til þeirra. Annars er ekki gott að sjá, hvers vegna liggur svo mjög á að selja þennan sögulega merka stað, til þess að þar verði kanske reist ljót, lítil og kauðaleg hús eða kumbaldar og lagðar nýjar og leiðinlegar götur, því verði lóðin feld mjög í verði, verða varla bygð þar annað en lítil og ósjáleg hús. Hæstv. ráðh. (H. H.) hélt að háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) hefði á móti þessari niðurfærslu, af því það væri samkepni. Nú þetta er samkepni við einstaklinga bæjarins; því verður ekki neitað. Og hún er skaðleg úr þessari átt. Það mun, vænti eg, þykja ljótt að geta þess til, að stjórnin vildi selja þessa lóð svo ódýrt, af því einhvern skjólstæðing hennar langaði til að fá sér góða og ódýra lóð, til þess að reisa hús fyrir sjálfan sig. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) var að tala um það, hvort ekki væri hægt að setja einstökum mönnum reglur um það, hversu dýrt þeir mættu selja eigur sínar. En hvar á bygðu bóli eru dæmi til þess að heimild sé fyrir að setja skorður fyrir því, hvaða verð menn megi heimta fyrir löglega eign sína? Að minsta kosti mundi slíkt atferli hvergi þolast, þar sem samningafrelsi manna er lögmætt. Eða dettur háttv. sama þm. í hug, að það sé minna skaðræði fyrir bæinn, að selja Arnarhólslóðina lágu verði, en það var í gær fyrir landið að selja jarðirnar Lambhaga og Hólm? Það er sama skaðræðið fyrir þennan bæ, nema í enn þá stærri stíl sé. Hitt er hvortveggja, að í þessari dýrtíð, þegar ekki er hægt að selja nokkurn hlut með því verði, sem hann er verður, að það væri illa ráðið upp á meðferð á landsins fé, að lækka lóð þessa í verði, og að það er rangt gert gagnvart þessum bæ að gera verðfall á öllum fasteignum í bænum. Málið liggur svo ljóst fyrir, að eg legg til að það verði ekki sett í nefnd, heldur felt þegar í stað við þessa umr.