19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jens Pálsson:

Eg á breytingartillögur á þingskj. 507 og vil leyfa mér að segja nokkur orð þeim til meðmæla.

Eg er vel ánægður með stefnu fjárlaganefndarinnar yfir höfuð. Hún hefir sýnt það, að hún vill vanda með hyggindum og varúð til fjárlagasmíðisins, og er eg henni fylgjandi í öllum aðalatriðum. En að eins í einu atriði get eg ekki verið henni samdóma, að því leyti nefnil. sem hún hefir fært mikið niður fjárveitingar, sem neðri deild hefir ákveðið til skálda og eins listamanns. Ein af þessum fjárveitingum þótti mér vera of lágt ákveðin í neðri deild og hefi eg leyft mér að koma fram með breyttill. því viðvíkjandi. Það er styrkurinn til Einars Jónssonar listamanns; eg vil hækka hann úr 1200 kr. upp í 2000 kr. Eg álít, að á slíkum mönnum eigum við seinast að spara.

Fjármálastarf vort lýtur alt að því, að hlúa að lífi þessarar þjóðar, að efla þroskun, hamingju og gleði þjóðlífsins. En eins og það er víst, að það ber að leggja áherzlu á allan ytri hag þjóðarinnar og hugsa vel um allar atvinnugreinir manna og alt sem aukið getur framleiðsluna bæði til lands og sjávar, eins víst er hitt, að hið innra líf þarf líka verndunar og aðhlynningar. Þaðan kemur krafturinn, sem örvar framfarirnar í hinu ytra. — Sumir líta svo á, að listir og vísindi megi lúta í lægra haldi fyrst um sinn, megi sitja á hakanum, á meðan verklegar framfarir eru svo skamt komnar sem þær enn eru. En eg lít alt öðru vísi á þetta mál. Eg álít nauðsynlegt að vísu, að styðja hið verklega og framleiðsluna í landinu. En eg álít hitt þó hið allra nauðsyníegasta, að hlúa að andlegu atgervi þjóðarinnar. Það fé, sem til þess er varið, verður að minni hyggju hið allra ávaxtaríkasta fyrir líf og þroskun hennar. Hugsanir listamannsins, klæddar í form, þroska fegurðartilfinninguna og göfga og stækka hið andlega líf fólksins. — Enn er að geta þeirrar frægðar, sem íslenzkar listir og vísindi kunna að afla þjóð vorri. Eg er þeirrar skoðunar, að þjóðin hafi listaatgervi í ríkum mæli. Íslenzku skáldin á fyrri og síðari tímum eru næg sönnun þess. Líti menn yfir alla röðina af ágætum skáldum, sem Ísland hefir átt til þessa tíma, þá munu menn sjá, að það er undravert, að jafn fámennur þjóðflokkur hefir getað framleitt slíkan fjölda góðra skálda. Eg skal nefna Bjarna, Jónas, Grím, Jón Thoroddsen, Gröndal, Matthías og Steingrím. Og af alþýðumönnunum Hjálmar og Sigurð Breiðfjörð. Eg geng fram hjá öllum þeim, sem minna eru þektir frá fyrri tímum; og tel ekki þörf að nefna öll hin góðu skáldin, sem lifa enn með oss og enn yrkja. Getur nú nokkur bent á aðra þjóð, sem hefir framleitt jafnmörg skáld og góð að tiltölu við fólksfjölda? Með þessu vil eg sanna, að listgáfan er mikil hjá þjóð vorri. Að vísu eru flest þessara skálda ljóðskáld. En nú er óðfluga að koma fram á sjónarsviðið söguskáldskapurinn og leikritaskáldskapurinn; og það sem fram er komið er ekki að eins efnilegt, heldur margt hvað gott og gildismikið. Listhæfi þjóðarinnar hefir einnig komið fram í málaralistinni, og síðast en ekki síst í myndsmíðalistinni. Þar má nefna afbragðsmanninn Albert Thorvaldsen. Það má fullyrða, að listgáfa hans var ættuð héðan, því að af íslenzku bergi var hann brotinn. Ef Einar Jónsson ætti eftir að kasta slíkum ljóma yfir þjóð sína, slíkum ljóma, sem Thorvaldsen hefir kastað yfir það land, sem hefir eignað sér hann, þá mundu niðjar vorir hugsa með gremju til okkar, að láta slíkan mann lifa við sult og seyru. Þessi maður hefir kosið sér þá lífsstöðu, sem eg tel hina göfugustu, að fórna ávexti iðju sinnar sinni þjóð. Hann helgar líf sitt listinni og list sína þjóðinni. Hverjar skyldur höfum við gagnvart slíkum manni? Við hljótum að hafa miklar skyldur gagnvart honum úr því að það er nú orðið vitanlegt og víst, að hann er listamaður. Þó að hann sé ungur, hafa verk hans þegar mikið listgildi og hafa fengið góðan dóm listfróðra manna. Og við vitum ekki, hver listaverk eiga eftir að koma frá hans hendi. Eg hefði gjarnan viljað stinga upp á 2500—3000 kr. styrk til þessa manns. En eg vildi ekki fara svo hátt, með tilliti til þeirrar stefnu, sem nefndin hefir fylgt í fjármálunum, auðvitað út frá þeirri hyggilegu skoðun, að sparlega verður að fara með landsins fé. Því hefi eg ekki farið fram á hærri styrk en 2000 kr., en eg vona, að bæði nefndin og aðrir háttv. deildarm. samþykki þann styrk með ánægju.

Viðvíkjandi skáldunum verð eg að lýsa því yfir, að eg vil halda þeim styrkveitingum óbreyttum, sem neðri deild hefir ákveðið þeim, þrátt fyrir það, að eg er að öðru leyti mjög fylgjandi sparnaðarstefnu hinnar háttv. nefndar. Mér er sárt um skáldin. Ávextir þeirra verka gróa í hvers manns brjósti, þó að þeir dyljist einatt, þegar fljótt er á litið. Þær hugsjónir, sem skáldin ala upp í brjóstum manna, eru svo mikils virði fyrir þjóðina, svo heilladrjúgar og blessunarríkar, að eg verð að telja það skyldu okkar að gera hið ítrasta til þess, að okkar góðu skáld geti notið sín sem bezt, til heilla og gleði fyrir þjóðina. — Þess vegna mun eg greiða atkv. með styrkveitingunum, eins og þær komu frá neðri deild, en móti niðurfærslum háttv. nefndar.

Þá kem eg að 2. br.tillögunni, sem mér er ant um, en sú tillaga er viðaukatill. við 18. gr., og er þar borin fram sú ósk, að síra Einari Þórðarsyni á Bakka í Borgarflrði eystra séu veittar 500 kr. af landsjóði hvort ár fjárhags tímabilsins. Svo stendur á fyrir þessum manni, að hann er veikur og ekki vanþörf á styrk, ef honum verður lífs auðið. Maðurinn er ágætismaður að allra dómi sem hann þekkja. Sveitarhöfðingi og fremdarþingmaður var hann, og öllum, sem með honum hafa verið og starfað, að góðu einu kunnur. En hin grimma veiki, berklaveikin, hefir tekið hann því heljartaki, að hann hefir orðið að láta af prestskap og öðrum störfum til þjóðþrifa, og eyða mestu af efnum sínum sér til heilsubótar. Auk þess hefir hann orðið fyrir barnamissi og öðrum þungum áföllum. Nú mun vera farið að saxast mjög á efni hans og eftirlaun hans eru lítil, svo eg held að mikil sanngirni mæli með því, að honum sé veittur þessi styrkur.

Þá kem eg að br.till. við 22. gr. 10. Mér finst sá liður eiga að falla burt með öllu. Þar hefir sýslumönnum jafnan vegnað vel, og aldrei orðið skotaskuld úr því, að koma sér niður, þó þar sé að vísu engin föst embættisbygging. En með því að veita þetta, álít eg að dyr séu opnaðar hverjum sýslumanni, lækni og öðrum embættismönnum, sem vilja reisa sér bústað þar sem þeir óska, án nokkurrar tryggingar fyrir því, að þar verði framvegis embættisbústaður. Mér er ef til vill vorkunn, þó eg sé á móti þessu, því það hefir löngum verið hlutskifti okkar presta, að reisa sjálfir bústaði okkar og skilja þá svo eftir þegar vér flytjum. Maður sá sem hér er um að ræða, Björgvin sýslumaður, er í góðri embættisstöðu og ætti því ekki að vera vorkunn, að koma sér upp embættisbústað, en eg sé ekki að það sé rétt, að koma slíkri skyldu á landsjóð.

Þá kem eg að br.till. við 22. gr., sem er um það, að lána Jóhannesi J. Reykdal í Hafnarfirði alt að 5000 kr. til að endurbyggja verksmiðju sína. Þessi verksmiðja er hin fyrsta trésmíðaverksmiðja, sem reist hefir verið hér á landi. Jóbannes fékk þá lán, sem sýslan annaðist fyrir hann, gegn því að fá verksmiðjuna að veði. Fyrst um sinn gengur alt vel og maðurinn rekur verksmiðjuna með hyggindum og dugnaði í nokkur ár. En svo kemur það fyrir, að eftir að hann hafði borgað 2°/00 af virðingarverði verksmiðjunnar í brunabótagjald í mörg ár, fær hann uppsögn á vátryggingunni. Trésmíðaverksmiðjur, sem bygðar eru úr timbri, fást ekki lengur vátrygðar utanlands, svo nú eru ekki önnur úrræði fyrir manninn, en að byggja verksmiðjuna úr steinsteypu, og það hefir hann þegar gert, en með því að slík bygging kostar mikið, þá hefir hann nú beðið mig að koma á framfæri fyrir sig beiðni um viðbótarlán, alt að 5000 kr. Eg veit að vísu ekki hvað mikið hann þarf af þessu, en eg get hugsað mér, að hann þurfl ekki alla upphæðina, því ef til vill hefir hann með útsjón og hyggindum komið húsinu upp fyrir minna, en þá er það af fénu eftir í landssjóði, sem hann ekki tekur Eg vona því að háttv. þingdm. amist ekki við lánveitingu þessari.

Háttv. 6. kgk. þm. mintist á ungmennafélögin í sambandi við stefnuskrár, þeirra, sem aðallega er fólgin í því að æfa líkama sinn og í öðru lagi í því að útbreiða skógræktun í landinu, »klæða landið«. Eg er samdóma háttv. 6. kgk. í því, að eg álít að félög þessi beri að skoða sem hreyfing, sem eigi að vinna að vakningu þjóðarinnar til þjóðrækni og hollra framfara, andlegra og líkamlegra, en eg veit líka að sumum þessara félaga að minsta kosti, er alvara í því, að vilja rækta skóg, og því til sönnunar get eg bent á, að eg hefi nýlega fengið beiðni frá ungmennafélaginu í Hafnarfirði um blett, þar sem er melland og skjól gott, til þess að rækta þar nýgræðing. Það er því auðséð, að þessari deild ungmennafélagsins er alvara; leiðtogi hennar er auðvitað Helgi Valtýsson, sem er, eins og kunnugt er, mjög áhugasamur og duglegur maður, og eg býst við að hann leiði þessa tilraun. Auðvitað var mér ljúft að stuðla að því að þeir gætu fengið landið léð. Mér þykir því vænt um að hin sparsama fjárlaganefnd efri deildar hefir ekki lækkað fjárveitinguna til ungmennafélaganna meir en hún hefir gert.