14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

56. mál, byggingarsjóður

Jón Þorkelsson:

Eg get ekki neitað því, að mér þykir nú taka að gerast allreimt hér á þingi.

Frá Ed. hafa þeir sent hingað draug, sem er talsvert viðsjárverður, og það engu síður fyrir það, að honum er hnýtt aftan í taglið á meinleysisflækingi, sem hefir verið hér á rölti milli deildanna og menn hafa látið sig litlu skifta. Og nú vekur h. 1. þm. G. & K. (B. K.) upp annan draug, sem nauðsyn er á að kveða niður hið allra bráðasta. Löggilding Viðeyjar var sungin til moldar hér í þessari deild snemma í f. m., hitt frumv. 11. s. m. Þá var felt frumv. um að það að veita stjórninni heimild til þess að selja lóðir á Arnarhólstúni fyrir minna en 5 kr. feralin, en stjórnin fór fram á að mega selja feralin fyrir 2,50. Ed. færði það upp í 3 kr. en Nd. feldi síðan frv., svo sem eg hefi tjáð. Málefni þetta kom til tals og ályktana á þingmálafundi hér í Reykjavík 13. febrúar í vetur og þá var það álit margra góðra manna, að ekki bæri að selja þessa lóð að svo stöddu og als ekki nema fyrir viðunanlegt verð og því hefir deildin hér verið samþykk með því að lóga frumv. um sölu lóðarinnar. En nú kemur héraðslæknirinn í Rvík og biður um að leigja sér lóð fyrir einmitt það sama verð, sem þessi deild hefir neitað að selja lóðina fyrir og fyrir minna verð en Ed. hafði séð sér fært að veita heimild til. Það virðist því ekki vera langt frá ósvinnu, sem hér er nú verið að fara fram á. Það er ekki til meira mælst en að eins þess að þingið vilji nú eta ofan í sig það, sem það hefir ályktað fyrir mánuði síðan! Til slíkra hluta þarf góða einurð.

Flutningsmaður sagði, að læknirinn gæti ekki fengið lóð á hentugum stað fyrir hæfilegt verð. En mér er spurn. Mælist læknirinn þá til að fá lóð fyrir óhæfilegt, óhæfilega lágt verð? Og hvað mundi það þá vera, sem hann vill gefa fyrir lóð? Eftir því, sem hér er farið fram á, þá er það að sér sé seld lóð eða leigð fyrir helmingi minna verð en öðrum. Er nú nokkur ástæða til að fara að ívilna þessum eina manni og verðlauna svo þá bíræfni, sem fer þess á leit, að þingið fari að gera sig ómerkt orða sinna og gerða? Við kærum okkur þess utan ekki um hentugri stað fyrir héraðslæknirinn en hann nú hefur. Hann býr á nógu hentugum stað og það hefir enginn kvartað yfir því að hann byggi óhaganlega fyrir bæjarmenn. En sé honum hugleikið að vera á öðrum stað en þeim, sem nú býr hann á, hvers vegna bauðst hann þá ekki til að kaupa lóð af þinginu á Arnarhólstúni, úr því hann endilega vill vera þar? Hitt getur ekki komið til mála að leigja lóðina, því að lögin heimila það ekki, og til þess að breyta þeim, þarf meira en þingsályktun — til þess þarf lög — og þess vegna hefði í raun réttri átt að vísa þessu máli frá í þessu formi. En ef þingið nú færi að sinna þessari rollu og þessu kvabbi, sem raunar er þinginu ósamboðið, — þá getur það átt á hættu að menn komi hver um annan þveran og heimti hið sama. Þessi heiðursmaður getur án als efa fengið nóga staði hér í bænum með sanngjörnu verði — og þó að eg játi, að góður maður eigi í hlut, þar sem hann er, þá er hann ekki þó ofgóður til þess að gefa sama verð fyrir lóðir og aðrir.

Af þessu sem eg hefi tekið fram, vona eg að háttv. deild sjái, að það er ekki einungis ástæðulaust að veita lækninum þessa bón hans, því að hún er hvorki í þörf né þágu bæjarbúa, heldur er það hreint og beint móðgun við þingið að fara fram á það, að þingið fari að gera ólöglega ákvæði, sem brjóta beint bág við gildandi lög.