14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

56. mál, byggingarsjóður

Magnús Blöndahl:

Háttv. samþingismaður minn (J. Þ.) hefir rökstutt mótmæli sín gegn þessu máli svo vel, að litlu þarf við að auka. Þó vil eg bæta við örfáum orðum. Mér þykir nokkuð kynlegt, að tillaga þessi til þingsályktunar skuli vera komin fram hér í deildinni, þar sem mér finst hún bæði ástæðulaus og enda jafnvel benda inn á hættulega braut, ef hún yrði samþykt í deildinni; þess utan verð eg einnig að ætla, að hún komi í bága við gildandi lög. Að tillagan sé ástæðulaus, vona eg allir játi, þegar ekki er hægt að færa henni annað betra til gildis eða stuðnings, en það, að umsækjandinn (?: héraðslæknirinn) sé þar bezt settur fyrir alla þá bæjarbúa, er þurfa að vitja hans, og það sé þess vegna og ekki annars, að tillagan sé fram komin. Mér er nú eigi kunnugt, að fram sé komin nein ósk frá bæjarbúum sjálfum, né heldur hitt, að neinar kvartanir hafi komið fram um það, að læknirinn sæti nú á óhentugum stað, enda getur slíkt tæpast komið til greina í jafn litlum bæ og Reykjavík. Að það geti orðið hættuleg braut fyrir þingið, að ganga inn á, að samþykkja tillöguna, vil eg sanna með því, að ef þessi tillaga yrði samþykt, þá getum við verið vissir um, að margar slíkar beiðnir kæmu á eftir. Við getum t. d. þannig búist við slíkri beiðni frá bæjarfógetanum o, fl., sem teldu sér afar-nauðsynlegt að búa einmitt á þessum stað, til þess að sem hægast væri fyrir bæjarbúa, að ná fundi hans í ýmsum tilfellum, og ef nú þingið væri búið að veita þetta einum borgara bæjarins, hvernig gæti það þá forsvarað, að gera þeim ekki öllum jafnhátt undir höfði. Að háttvirtum umsækjanda þyki þarna fallegur staður, og að hann kysi sér helzt, að mega búa þar, er ekki nema eðlilegt, en þá get eg fyrir mitt leyti heldur ekki vorkent honum — fremur en öðrum — að kaupa þar lóð, þegar hún fæst þar með mjög sanngjörnu verði. — Þess utan er engin minsta trygging fyrir því, þótt umsækjandinn fengi þessa ósk sína uppfylta, að hús það, er hann kynni að byggja þar, gæti orðið frambúðar læknissetur, t. d. ef þessi maður félli frá o. s. frv. Eg játa, að maður þessi er margs góðs maklegur, en svo langt vil eg þó ekki ganga til þess að þóknast honum, að eg vilji brjóta móti gildandi lögum, né veita honum neinn sérstakan einkarétt fram yfir aðra borgarbúa.

Háttv. flutningsm. (B. Kr.) gat þess, að læknirinn gæti enga lóð fengið á viðunanlegum stað, og heppilegum fyrir almenning. Slíkt er fjarstæða, því í miðbænum eru enn þá fáanlegar ágætar lóðir, og í Vonarstræti t. d. er gnægð góðra lóða, og þar er mjög fögur útsjón, og enginn mundi telja sér erfitt, að vitja hans þangað.

Það var sagt, að þær lóðir fengjust ekki fyrir hæfilegt verð, en eftir því sem eg veit bezt, þá fást þær með góðu verði.

Þess utan er lóðargjald það, sem farið er fram á í tillögunni svo afarlágt, að fjarri er öllum sanni, að það yrði beint tap fyrir landssjóðinn, og vænti eg, að háttv. flutningsm. (B. Kr.) sjái það við nánari athugun. Eða hver á þá að borga landssjóði hallann? Hafi nú maður sá, er hér á í hlut, ráð á að byggja — og um það efast eg als ekki — hefir hann einnig ráð á því, að eignast (?: kaupa) góða lóð á hentugum stað fyrir einar 5000 krónur. — Eg vil því að síðustu taka það upp aftur, að þingsályktunartillaga þessi er ástæðulaus, og getur orðið hættuleg braut að komast inn á, auk þess sem hún kemur í bága við gildandi lög. Vænti eg því, að hin háttv. deild felli hana.