23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

95. mál, breyting á Þingvallaviðauka

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Það er misskilningur, eins og margt fleira hjá háttv. þm. Mýr. (J. S.), að frumv. þetta sé »spark« til Seyðfirðinga, eins og hann orðar það. Það er þvert á móti borið fram af einskærri réttlætistilfinningu fyrir því, að Reykjavík er órétti beitt með því að hafa að eins 2 þingmenn. Þegar bærinn er borinn saman við önnur kjördæmi landsins með fáa kjósendur, svo sem Seyðisfjörð og Vestmanneyjar, getur engum skynbærum manni blandast hugur um það, að höfuðstaður landsins hefir orðið fyrir mesta misrétti, sem bæta ætti upp við fyrsta tækifæri. Nú gefst tækifærið, og ætti það því eigi að fara ónotað. Gegnum ritsímann hefi eg nýlega átt tal við góðan mann á Seyðisfirði um þetta mál, og skýrt frá því, að mál þetta væri hvorki flokksmál né kappsmál, Seyðfirðingar ættu því að geta sofið sæmilega fyrir þessu frumv. En þótt frumv. þetta nái eigi fram að ganga, vildum við, sem komið höfum með frumv. inn á þingið, með því hafa vakið athygli h. deildar á misrétti því, sem Reykjavík er beitt í þessu efni, og sem fyrst þyrfti að bæta úr.