01.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

97. mál, heiti á alsherjarstofnunum

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Mér þykir líklegt, að ekki þurfi að skýra frumv. þetta mikið; þótt það sé kanske ekki fimlega orðað, vonast eg þó eftir því, að það skiljist flestum sæmilega, hvert það horfir. Þó er eg ekki alveg viss, að allir hafi gert sér þetta ljóst. Sem merki um það, get eg þess, að eg hefi heyrt því slegið fram í alvöru eða spaugi, að eftir þessu ætti Ísland ekki lengur að heita Ísland heldur »Ísríki« eða »Ísþjóð“ og Landakot »Þjóðkot« eða »Ríkiskot«.— Í frumv. standa að eins nöfn á opinberum stofnunum eða störfum, en það er ljóst, að hvorki Ísland né Landakot er opinber stofnun eða starf, og þarf því ekki meira að ræða um þessa endileysu þeirra, sem hafa hugsað sér að gera sig fyndna með henni, en hafa þar með gert sig kunna að endemum einum.

Það sem stefnt er að hér, er að fá fullkomlega viðurkent, að minsta kosti í orði kveðnu, það sem við allir viljum að sé á borði, en það er að fá Ísland tvímælalaust viðurkent ríki. — Eg hefi þá haft þann fyrirvara í frv., að það megi og kenna stofnanirnar eða störfin við þjóð eða ríki, eftir því hvað bezt fer í samsetningunni.

Frumv. þetta hefir það til síns ágætis, að það er alveg í samræmi við það, sem nefndarmennirnir í sambandsnefndinni héldu fram í vetur, að landinu væri ætlað að vera ríki. Meiri hlutinn á þessu þingi vill að það sé nú nefnt og kallað ríki, og minni hlutinn segir, að við séum það eftir sambandslagafrumv.

Eg vonast því eftir, að frumv. þetta fái góðan byr; það stefnir að sjálfstæði landsins að minsta kosti í orði, hvernig sem okkur gengur annars kostar að koma því fram á borði.