10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

72. mál, sala kirkjujarða

Flutningsmaður (Stefán Stefánsson):

Eg geri ekki ráð fyrir því, að það sé nokkur nauðsyn á að fara mörgum orðum til skýringar þessu máli, þar sem það er nokkurn veginn ljóst tekið fram í frumvarpinu, að sölu-heimild stjórnarinnar til þess að selja kirkjujarðir samkv. lögum um sölu kirkjujarða frá 16. nóv. 1907, nái einnig til hjálendanna.

Frumv. er flutt eftir áskorun frá þingmálafundi, er haldinn var að Saurbæ í Eyjafirði, og var samþykt þar með öllum greiddum atkvæðum, enda styðst hún að eg hygg við skilning almennings á nefndum lögum frá síðasta þingi, og skal eg í því sambandi leyfa mér að benda á álit sýslunefndar Eyfirðinga, þar sem hún á fundi sínum síðastliðinn vetur sá ekkert því til fyrirstöðu, að prestseturs-hjáleiga í Eyjafirðinum yrði seld samkvæmt áminstum lögum. Og flestir þeir þingmenn, er sátu á þingi síðast munu hafa svo til ætlast, að í lögunum fælist þessi heimild, þótt stjórnin hafi ekki skoðað það svo, eða ekki álitið sig hafa réttinn til þess að selja slík ábýli.

Að mér er þetta kunnugt stafar af því, sem eg áður drap á, að umsókn um kaup á prestseturs-hjáleigu var beint til stjórnarráðsins úr Eyjafirði, en það synjaði um söluna, bæði af þeirri ástæðu, að lögin gæfu enga heimild til sölunnar, og enn fremur, að þá bæri að skilja svo lögin um ábúð og úttekt jarða — síðasta málslið 1. gr. — að höfuðból með hjáleigum yrði að teljast sem ein jörð.

Eg hefi nú átt tal við meiri hluta milliþinganefndarinnar, er hafði á hendi allan undirbúning til kirkjujarðasölulaganna fyrir síðasta þing, og hefir í hann ótvírætt látið í ljósi, að heimildin næði einnig til hjáleignanna.

En sem sagt: álit stjórnarráðsins byggist aðallega á því, að höfuðból með hjáleigu beri að skoða sem eina jörð, en það verð eg að álíta að eins forna og algerlega úrelta skoðun. — Alment er álitið, að hjáleigan sé sérstök jörð, þar sem hún er í jarðamatinu metin til dýrleika sérstaklega, og þess utan sérstakt ábýli.

Eg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál frekar að sinni, en óska að því verði vísað til landbúnaðarnefndarinnar.