10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

98. mál, Lambhagi og Hólmur

Ráðherrann (H. H.):

Eftir þeim skýrslum, sem stjórninni hafa borist, hefir hún ekki álitið sér heimilt eða í öllu falli ekki rétt að selja þessar jarðir. Matsverðið hefir og verið álitið alveg óhæfilega lágt. Spekúlantar gætu stórgrætt á því á svipstundu að kaupa jarðirnar með því verði, sem hér er farið fram á, en hið opinbera mundi bíða af því hnekki. Eg vil að eins minna á vatnsveitu Reykjavíkur, sem nú fær vatn sitt í Hólmslandi. Hvað ætli það hefði kostað, ef ábúandinn á Hólmi hefði verið orðinn eigandi jarðarinnar? Eg hygg að hann hefði verið fljótur að ná upp jarðarverðinu á því einu.

Eg veit til þess, að jarðir, sem eru einstakra manna eign í sömu sveit, og ekki betri, hafa verið seldar miklu hærra verði en því, sem hér er um að ræða, og eg get ekki betur séð, en að það sé óforsvaranlegt, ef þingið vildi fara að taka fram fyrir hendur stjórnarinnar um sölu á þessum jörðum, og það með gjafverði.