10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

98. mál, Lambhagi og Hólmur

Pétur Jónsson:

Eg vil leggja það til, að þetta frv. sé ekki látið fara lengra, tel það þýðingarlaust og óþarft. Eg er algerlega á móti því, að þingið sé að knýja stjórnina til að selja þær jarðir, sem hún álítur ekki rétt að selja. Vitanlegt er, að núverandi stjórn hefir verið mjög hlynt þjóðjarðasölunni, svo af þeirri ástæðu er enn síður ástæða til að herða á henni með söluna.

Sumir líta svo á, að stjórninni sé skylt að selja fyrir matsverð, svo framarlega sem sýslunefnd ekki mælir í móti því. En stjórnin á að geta af ýmsum ástæðum neitað að selja ábúanda — t. d. getur það hugsast að ábúandi sé ekki annað en leppur fyrir einhver stórgróðafélög — og að jörðin þrátt fyrir það, þótt ábúandinn sæki um kaup á henni, í rauninni komist als ekki í hans eign, og að hann verði leiguliði eftir sem áður, en meiningin með þjóðjarðasölu hlýtur að vera sú að fjölga sjálfseignarbændunum. Það er því í mörgum tilfellum ótækt að knýja stjórnina til þess að selja jarðir, þótt hún geti ekki bent á lagabókstaf fyrir því, hversvegna hún ekki vill selja. Stjórnin getur samkvæmt 12. gr. þjóðjarðasölulaganna kvatt kunnuga menn til þess að láta álit sitt í ljósi um ekki einungis verðhæðina heldur einnig, hvort selja beri. Þetta sannar, að stjórnin á að geta neitað um sölu, enda þótt sýslunefnd hafi ekki á móti sölunni. Hún getur varnað tjóni fyrir landssjóðinn, og hún getur einnig með því unnið að þeim aðaltilgangi laganna, að jörð komist í hendur reglulegs ábúanda með því að fyrirbyggja leppkaup, sem hættulegust eru sjálfsábúðinni; því sala á landssjóðseign verður eigi aftur tekin, en neitun á sölu þarf eigi að vera nema stundarfrestur. Hvað viðkemur þessum jörðum sérstaklega sem hér er um að ræða, þá er eg á máli hæstv. ráðh. með það, að það sé rétt að selja ekki þessar jarðir að svo stöddu. —