10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

98. mál, Lambhagi og Hólmur

Jón Jónsson (S.-Múl.):

Eg leyfi mér að lýsa því yfir, að eg er á sama máli og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), að heppilegast mundi vera að mál þetta kæmist ekki lengra, en væri þegar felt við þessa umr. En það var einkum ein hlið þessa máls, sem eg vildi fara nokkrum orðum um. Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) lýsti yfir því, að hans álit væri að þjóðjarðasalan væri lyftistöng undir framförum landsins. Eg hefi frá upphafi verið á móti þjóðjarðasölunni og hefi áður látið í ljósi álit mitt um það, og nenni ekki að fara að tína þær ástæður til aftur. En síðan lögin um þjóðjarðasölu gengu í gildi, hefir komið fram ein hlið málsins og hún er sú, að þjóðjarðasalan gerir það að verkum, að jarðaverðið alment helzt lægra en annars. Kjör þau, sem leiguliðum eru boðnar jarðirnar fyrir eru svo góð, að aðrir seljendur geta með engu móti við það kept, og það hlýtur að halda jarðaverðinu niðri og varna því að það geti stigið upp.

Eg skal sýna fram á þetta: Sá er vill kaupa ábýlisjörð sína af landinu, verður fyrst að borga að eins ?10af kaupverðinu, en 9/10 hlutann borgar hann síðan á 28 árum með 6%, eða með öðrum orðum, hann borgar 9/10 hluta verðsins með nokkurn veginn almennum peningavöxtum, eftir því sem hér gerist, en það er sama sem að hann fái jörðina fyrir sama sem ekki neitt. Þetta hefir þau áhrif, að erfitt verður að fá nokkurt verulegt verð fyrir jarðir bænda, og á meðan helzt þetta gamla, afarlága verðlag á jörðum. Víða, einkum á afskektum stöðum á landinu, er jarðaverðið ekki hærra en það, sem mannvirkin á jörðinni eru verð; jörðin sjálf er raunar ekki metin meira en hvert óunnið land. Þjóðjarðasalan viðheldur þessu óstandi, sem er beinn þjóðarskaði og það væri hið þarfasta verk að taka fyrir alla þjóðjarðasölu.

En því hraparlegra verður þetta, ef þjóðjarðirnar eru seldar fyrir lægra verð en jarðir bænda í sama bygðarlagi, og hér í þessu frumv. er einmitt farið fram á slíkt. Eg hefi leitað kunnugra manna álits um þetta mál. Hefi eg nýlega talað við 3 menn, sem vel eru kunnugir Mosfellssveit. Einn af þeim sagði, að ekki kæmi til mála, að selja jörðina Hólm fyrir minna verð en 8000 kr. Annar kvað 12000 kr. ekki vera of hátt verð á henni, og hinn 3. var þar í milli. Eg verð að gera aths. við það, sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði, að það væri ekki að miða við það verð, sem var fyrir 2 árum, það hafi verið svo hátt. En ætli það geti nú ekki hækkað aftur bráðlega, þar sem gull hefir nú fundist í Mosfellssveitinni (í Miðdal)? Ætli mörgum »spekúlantinum« þætti ekki æskilegt að ná tangarhaldi á þessum jörðum — því þótt gullið hafi ekki fundist þar, þá er það vitanlegt, að ef gull er á næstu grösum, þá setur »trafíkin«, sem gullnámið hlýtur að hafa í för með sér, á svipstundu upp verð allra jarðeigna í grendinni að mjög miklum mun.

Að endingu vil eg leggja áherzlu á þetta: Að selja þjóðjarðirnar fyrir óhóflega lágt verð hlýtur að hafa skaðleg áhrif á þjóðmegunina í heild sinni.