10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

98. mál, Lambhagi og Hólmur

Sigurður Gunnarsson:

Mér þykir vel við eiga, að þingið gefi stjórninni bendingar um sölu þjóðjarða og mun það verða alhugað í nefnd væntanlegri í sambandi við þetta mál.

Eg skal víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.). — Hún hné mestöll móti sölu þjóðjarða. Hann vildi kenna því um, hve lágt væri verð jarða, að þjóðjarðir væru seldar. En er það rétt, að það haldi jörðum í verði, að landssjóður haldi áfram að eiga þær. Mér virðist skynsamlegt að álykta, að verulegar umbætur á jörðum séu happadrýgstar og eðlilegasta ráðið til að auka þær í verði. En hvort eru nú leiguliðar eða eigendur líklegri til að gera slíkar umbætur? Vafalaust eigendurnir. Auðvitað fellur sú verðhækkun jarðanna, sem stafar af umbótum þeirra, er kaupa, beint í landssjóð, en því meir óbeint. Landssjóður græðir óbeint á því, að bændur beinlínis starfi sem mest að endurbótum jarða sinna og auðgist sjálfir, og verði spakari í sveitunum. Sé þetta rétt, þá er það heilbrigð stefna að auka sjálfsábúð í landinu. En ekki kemur alt í einu. Jarðirnar stíga ekki í verði alt í einu, enda er það hættulegt að þær hækki að verði um hóf fram. Sumstaðar sprengjast jarðir upp úr öllu hófi, þar sem »speculation« er annars vegar, svo sem hér í nánd við höfuðstaðinn. Þetta var aðallega það, sem eg hefi hér um að athuga.