19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Júlíus Havsteen:

Eg hefi engar br.tillögur fram að bera, því eg álít að álit nefndarinnar sé svo gott, að engin ástæða sé til að gera neinar verulegar breytingar við það; þó get eg ekki komist hjá að gera tvær lítilsháttar athugasemdir, sem hvor fyrir sig ræðir um 300 kr. Eg á í fyrsta lagi við þann lið á fjárlögunum, þar sem veittar eru 3000 kr. til launa við bændaskólann á Hvanneyri. Það er tekið fram í frumv. eins og það kom frá Nd., að 300 kr. af þessum 3000 kr. eigi að vera launaviðbót handa Hirti Snorrasyni, fyrrum skólastjóra þar; en mér heyrðist á orðum háttv. framsögumanns, að það væri skoðun hans, að Hjörtur ætti þessa launaviðbót ekki skilið. En að mínu áliti er hér sannarlega öðru nær. Eg get vel borið um þetta, því Hjörtur Snorrason kom einmitt að Hvanneyrarskólanum um leið og eg varð amtmaður yfir Suður- og Vesturamtinu og tók sem slíkur við yfirstjórn skólans þar. Mér er kunnugt um að skóli þessi var þá í mesta ólagi, og að það var engum að þakka fremur en Hirti, að hann komst úr niðurlægingunni. Hann hafði gert sér vonir um að taka við bændaskólanum, en það var mest vegna þess að hann skorti fé, að hann eigi gerði það. En eg ímynda mér, að vandfundinn verði duglegri maður og ötulli en Hjörtur. Eg verð því að leyfa mér að leggja til að þessi tillaga fjárlaganefndarinnar verði feld.

Hin athugasemd mín er við 16. gr. 28, sem er um 300 kr. styrk árlega til tveggja íslenzkra stúlkna til handavinnunáms hjá »Kunstflidsforeningens Friundervisning« í Kaupmannahöfn. Eg held að hér hafi komist að einhver misskilningur hjá hinni háttv. nefnd; það er eins og henni skiljist svo, sem fé þetta sé veitt »Kunstflidsforeningen«, en svo er alls ekki. »Kunstflidsforeningen« hefir fremur kostnað en ágóða af þessari ókeypis kenslu. Styrkurinn er veittur stúlkunum til þess að gera þeim hægra fyrir að dvelja í Kaupmannahöfn, og það vita allir að 150 kr. er ekki mikið til að lifa af þar í langan tíma. Mér er kunnugt um, að styrkur þessi hefir sem oftast verið notaður, og ef hann er ekki notaður, þá er honum heldur ekki eytt úr landsjóðnum. Mér finst það því undarlegra að vilja ekki veita þessa litlu fjárupphæð nú, þar sem eg veit að hún hefir staðið á fjárlögunum um nokkurra ára tíma undanfarið og jafnan verið notuð. Hvað það snertir, hvort verulegt gagn sé að þessu námi, þá má þó að minsta kosti segja með sanni, að gott sé fyrir mann að sjá annað land en sitt eigið og kynnast því, en þess utan veit eg fyrir víst, að þarna er einmitt um óvenjulega góða kenslu og handleiðslu að ræða. Eg vil því mæla sem bezt með því, að þessi liður fái að standa á fjárlögunum eftirleiðis eins og hingað til.

Háttv. síðasti ræðumaður talaði á móti því að veita Björgvin Vigfússyni sýslumanni lán til þess að koma sér upp embættisbústað. Það hefir þó verið siður, að veita embættismönnum lán til þess, og að mínu áliti hefir þetta sérstaklega þýðingu í Rangárvallasýslu, því þar hefir lengi verið svo, að sýslumenn hafa ekki haft neitt fast embættisaðsetur, heldur hafa þeir búið hingað og þangað. En fái nú Björgvin komið upp góðri byggingu á heppilegum stað, þá má gera ráð fyrir að það verði til þess, að þar verði sýslumannssetrið eftirleiðis. Og eg get sízt skilið hversvegna háttv. 2. þm. G. K. er þessu mótfallinn, því mig minnir ekki betur, en að hann einu sinni fengi lán til þess að koma upp bústað sínum, enda er slíkt alltítt.