26.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

9. mál, ellistyrkur

Framsögum. (Kristinn Daníelsson):

Þetta frumvarp, sem hér liggur fyrir, er ekkert nýmæli hér á alþingi. Það er að mestu leyti bygt á þeim grundvelli, sem lagður er með lögum um alþýðustyrktarsjóði 1890 og síðar voru endurbætt 1897. Í lögunum var ákveðið, að byrja skyldi útbýting úr þessum styrktarsjóði að 10 árum liðnum frá stofnun hans, og hefir það nú verið gert síðan árið 1900. Þessi styrkur hefir að vísu verið nokkur hugnun fyrir ýms gamalmenni, en annars hefir hann ekki komið að neinu verulegu gagni enn sem komið er, og hefir ekki vakið mikla eftirtekt. Hér er öðru máli að gegna um þetta frv., því gagnsemi þess verður miklu meiri og styrktarsjóðunum verður veitt meiri eftirtekt. Lögin stefna í þá átt, að styrkja alþýðusjóðina með því að hækka gjaldið til þeirra og fjölga gjaldendum. Þetta er gjört með því að lækka aldurstakmarkið úr 20 niður að 18 ára aldri, og skylda alla til að greiða til sjóðanna. Ennfremur er það nýtt atriði í lögunum, að landsjóður leggur fram fé eftir vissu hlutfalli við gjaldendur, og síðasta og helzta breytingin, að nú eiga eftir þessu frumv. eingöngu gamalmenni rétt á að fá styrk úr sjóðunum.

Nefndin hefir orðið sammála um, að rétt sé að samþykkja frumv. Í öllum aðalatriðum, en finst einungis rétt að víkja við hinu og þessu, og skal eg að því leyti benda til nefndarálitsins.

Þegar frumv. var lagt fyrir Nd. á síðasta þingi, var eingöngu hugsað um ellistyrk af hálfu stjórnarinnar. Málið var vandlega rætt og að lokum breytt í því aðalatriði, að gjöra styrkinn að öryrkjastyrk, þannig, að láta lögin ná til heilsubilaðra manna líka, það er með öðrum, að styrkja menn á hvaða aldri sem vera vildi.

Nefndin hefir af kynnum úti um land og af samtali við menn þózt hafa orðið þess áskynja, að menn vildu halda því fyrirkomulagi, sem hefir verið, að ekkert aldurstakmark væri sett, sem þó í framkvæmdinni hefir orðið þannig, að aðallega hafa gamalmenni verið styrkt. Fyrir því hefir nefndinni þótt rétt að fara nokkurn meðalveg milli stjórnarinnar og Nd. síðasta alþingis, svo að aðallega séu gamalmenni styrkt, en megi þó, þegar sérstakar ástæður eru til, hjálpa mönnum á öðrum aldri, án þess að hún hafi fyrir það séð nauðsyn á að breyta fyrirsögninni, eins og gjört var í Nd., en vill láta hana þannig benda einnig á það sem er aðaltilgangurinn.

Nefndinni þykir athugavert að hækka tillögin til sjóðanna svo mikið, sem frv. fer fram á. Tillagið var áður 1 kr. á karlmönnum og 30 aur. á kvennmönnum, en á nú að vera 2 kr. og 1 kr. Þetta er varhugavert af því, að það kemur niður á svo mörgum nýjum gjaldendum, sem eru lítt færir að bæta við sig nýjum álögum. Eg skal taka t. d. marga þurrabúðarmenn, sem eru að basla við að klekja upp 3—4 börnum; þeir ættu þá að greiða 3 kr. Þetta er of hátt, og mundi þykja tilfinnanlegt fyrir þá, sem hafa ekki átt að borga þetta áður. En nefndin vildi nokkuð bæta úr þeirri rýrnun, sem lækkunin hefði í för með sér, með því að haga útbýtingu úr sjóðnum á annan hátt. Nefndin leggur til að ekki verði útbýtt eins miklu og frumv. fer fram á, sem sé að verja ekki nema ½ þess, sem greitt er í sjóðinn af hálfu landsmanna, til styrks í stað 2/3 í frumv. Þetta gerir að verkum, að það legst að drjúgum mun fljótar til sjóðsins, svo að hann á þann hátt áður en langt um liði yrði eins öflugur og styrkurinn eins mikill, eins og eftir stjórnarfrumv.

Eg skal benda á, að eftir frumv. yrði tillagið til sjóðsins á ári hverju að meðtöldu gjaldi landsjóðs 79,500 kr., en eftir tillögu nefndarinnar 57,750 kr. Í nefndarálitinu stendur 57,500, en það er prentvilla. Af tillögum landsmanna er eftir frumv. ætlast til að 1/3 leggist við sjóð inn, það eru kr. 17,667, en eftir tillögum nefndarinnar er ætlast til að ½ leggist við sem eru 19,875 kr. eða sem næst 2208 kr. meira, þegar ekki er tekið tillit til vaxta, sem fyrst í stað yrðu nokkuð meiri en eftir frumv. En með þessu móti mundi sjóðurinn vaxa fljótt svo að hægt væri að veita úr honum eins ríflega og ella.

Neðri deild síðasta þings ákvað hlutfallið í framlögum landsjóðs þannig, að hann legði fram 1/3 móts við gjaldendur eða helming af tillagi þeirra. Að því hefir nefndin hallast, og þegar gjaldið er 1,50 kr. fyrir karl og 75 aur. fyrir konu verður það sem næst 50 aur. fyrir hvern gjaldanda eða alls 18,000 kr. eins og í stjórnarfrumv.

Þetta er það sem eg í aðaldráttum vildi segja fyrir hönd nefndarinnar, og skal eg nú að eins stuttlega víkja að þeim breyttill., sem nefndin hefir látið fylgja áliti sínu.

Það er fyrst breyt.till. við 2. gr. Hún felur ekki annað í sér en skýring á því, hvað ber að skilja við »félausir menn«. Annars er þar engin efnisbreyting af hálfu nefndarinnar.

Í annari breyttill. fer nefndin fram á að lækka tillag gjaldenda til sjóðsins, og stingur jafnframt upp á því, að þetta ákvæði sé haft í sérstakri grein, sem svo yrði 3. gr. Með breyt.till. við 4. gr. vakti það fyrir nefndinni, að eins og hún er orðuð í frumv. leggur hún skylduna að semja skrá yfir gjaldskylda menn á presta og lögreglustjóra, í stað þess að þeir eiga að eins að gefa nauðsynlegar skýrslur nefndunum sem skrárnar eiga að semja.

Breyt.till. við stafl. a. og b. í 5. gr. miða að því, að gjöra orðalagið samhljóða því, sem stendur í hinum stafliðunum, þar er »styrktarsjóður«; en ellistyrktarsjóður nægir að standi í upphafi greinarinnar.

Um 6. breyt till. er það að segja, að hjú eiga heima hjá húsbændum sínum, sem eiga að greiða gjald fyrir þau, þótt þau hafi verið meiri eða minni part af árinu á framfæri hjá öðrum, t. d. lánuð burt til annara. Nefndin vill því að þessi orð í frumv. falli burt. Breyt. á stafl. e. stafar af því, að oft stendur svo á, að menn, sem eru í fastri þjónustu hjá kaupmönnum, halda sjálfir jafnvel stór heimili, og nefndinni þótti eðlilegast að slíkir menn greiddu tillög sín sjálfir. 8. breyt.till. er að eins til skýringar, en það felst engin efnisbreyting í henni. Því að þó fátækur húsráðandi verði ekki talinn fær um að borga neitt til sjóðsins, þá ættu samt lausamenn, sem kynnu að vera á vist með honum, að sjálfsögðu að greiða tillag sitt sjálfir.

Aðalbreyt.till. eru við 11. og 13. gr., en um þær hefi eg talað áður. Eg skal því ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni og vona að eins, að háttv. deild taki þessar breyt.till. til góðrar íhugunar.