03.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

99. mál, sala þjóðjarða

Jón Jónsson, (N.-Múl.):

Eins og sést á nefndarálitinu, sem háttv. þm. munu hafa lesið, legg eg til að frv. þetta sé felt.

Stuttlega eru þar færðar ástæður fyrir þessu, svo eg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál. Mér skilst, að aðal-tilgangurinn með frv. þessu sé sá, að draga úr þjóðjarðasölulögunum á þann hátt, að ná undir landssjóð aftur jörðum, sem seldar hafa verið. Með þjóðjarðasölulögunum geta bændur komist að svo góðum kaupskilmálum, að fáum verða kaupin ofvaxin. En þá ástæðu færa nú ýmsir móti þjóðjarðasölunni, að bændur sökkvi sér í skuldir og geti svo ekki búið myndarlega á jörðunum úr því, Þetta held eg sé ekki á rökum bygt. Og ósk bændanna er að fá jarðirnar keyptar. Með því að verða við óskum þeirra, sem frekast eru tök á, verða þeir ánægðari og spakari í sveitinni og um leið til uppbyggingar og gagns fyrir þetta land. Bóndi er bústólpi og bú er landstólpi«. Þingið verður að athuga vel gerðir sínar í landbúnaðarmálum. Það er svo mikið los nú á fólkinu, sem stundar landbúnað, vegna margvíslegra örðugleika, að varast verður að gera neitt það, er elur á óánægjunni. Eg tel víst, að þingið álíti það illa farið, ef fólkið smá-yfirgefur sveitabúskapinn.

Eg legg áherzlu á, að þetta er hin mesta hvöt fyrir ábúendurna að una hag sínum til sveita, og sýna jörðunum sóma. Eg hefi eigi heyrt aðrar mótbárur betri gegn þjóðjarðasölunni en þessa, sem þegar er nefnd. Eg ætla svo ekki að ræða frekara um þetta, en mun svara, ef mótmælt verður og þörf gerist.