03.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

99. mál, sala þjóðjarða

Stefán Stefánsson:

Eg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að eg væri algerlega mótfallinn frv., nema gerð væri á því mjög veruleg efnisbreyting, sem sé sú, að sá ábúandi, er keypti ábýlisjörð sína af landssjóði, væri ekki skyldur að selja hana landssjóði aftur, þótt hann hætti ábúð og erfingjar hans tækju hana ekki til ábúðar, heldur að honum væri þá heimilt að selja þeim ábúanda jörðina, er næstur honum tæki við ábúðinni. Að verða í hverju einstöku tilfelli að selja landssjóði, ef nákomnir erfingjar kaupanda ekki halda áfram óslitinni ábúð, virðist mér bæði óþörf og mjög óviðfeldin krókaleið, sem vafalaust yrði misjafnlega vel liðin, þegar til framkvæmda þeirra laga kæmi. Þetta frumv. verður því engan veginn til þess, þótt það verði að lögum, að tryggja eða auka sjálfsábúð í landinu, miklu fremur mundu slík lög hindra eða tefja fyrir aukinni sjálfsábúð.

Sú eina breyting, er mér sýnist gerleg í þessa átt, væri þá sú, að vilji viðtakandi ekki kaupa jörðina, að þá hafi landssjóður forgangsrétt að kaupunum eftir mati dómkvaddra manna.

Annars furðar mig ekkert á því, þó þeir menn, sem vitanlega eru á móti þjóðjarðasölunni, haldi fram frumv., því fyrir þá er hér góður leikur á borði.

Eg vona, að þm. líti líkt á þetta mál og eg og felli frumv.