03.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

99. mál, sala þjóðjarða

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg hygg að mótbárur háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.), séu algerlega bygðar á misskilningi. Alt slíkt mat og verð á jörðum, sem selja á til ábúðar, er langt undir því verði, sem fengist fyrir þær við opinber uppboð. Vér þekkjum dæmi þess, að jörð er metin t. d. 2000 kr. af eiðsvörnum mönnum, þá er hún er föluð til kaups af landssjóði, og 2—3 árum síðar metin þriðjungi hærra — til lántöku úr banka — af sömu eiðsvörnum mönnum, án þess jörðinni hafi verið neitt til góða gert.

Oft eru jarðir, sem landssjóður hefir selt ábúanda, seldar af honum rétt á eftir fyrir helmingi meira verð.

En aðaltilgangur þjóðjarðasölunnar er sá, að tryggja sjálfsábúð í landinu, og láta gamla landseta njóta forréttar til að verða sjálfsábúendur. Og með þessu frumv. hér er verið að tryggja það, að þjóðjarðasalan nái tilgangi sínum.

Í 3. gr. er tekið fram, að jörð, sem fellur úr ábúð eiganda, megi hverfa aftur til landssjóðs, ef landssjóður krefst Þetta dregur úr mönnum að gerast kaupa-leppar, og tryggir það að jarðir, sem seldar eru, haldist þó nokkurn tíma í ábúð kaupanda eða erfingja hans um víst árabil. En hitt getur ekki landssjóði staðið á sama, að lögin séu notuð sem skálkaskjól leppa. Allir eru sammála um, að þetta sé góður tilgangur, nema háttv. þm. N.-Múl., (J. J.), en ástæður hans í þessu máli eru órökstuddar fullyrðingar einar.