05.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

70. mál, Skálholt

Framsögumaður (Eggert Pálsson):

Viðaukinn, sem háttv. Ed. hefir gert við þetta frumv., er ekki sérlega fyrirferðarmikill, en þó lítur nefndin svo á, að hann sé fremur til skemda en bóta, — að hann sé til skemda, hvort heldur litið er á það, að kaup verði gerð á nálægum tíma eða síðar.

Ef jörðin yrði seld á nálægum tíma, þá álítur nefndin að verðið, sem tiltekið er, sé fullhátt.

Eftir uppboðsauglýsingu, sem gefin var út 23. marz 1905, var eftirgjald jarðarinnar nál. kr. 360, eða sundurliðað: 270 álnir, og ef meðalalin er látin vera 50 aurar, sem láta mun nærri, þá verður sú upphæð kr. 135

Ennfremur smjör, 200 pd. á ...°/70 — 150

og auk þess í peningum ............... — 88

En það verður — 363

Ef verð jarðarinnar er ákveðið 12 þús. kr., þá yrðu 4% rentur af því kr. 480. Þetta verð — 12 þús. kr. — gæti að vísu átt sér stað, ef þar í væri falið 1800 kr., er staðnum munu hafa fylgt í konunglegum ríkisskuldabréfum; en það virðist óviðkunnanlegt, að landssjóður kaupi peninga fyrir peninga.

Það er ekki ástæða til, að landssjóður kaupi þessi ríkisskuldabréf, heldur jörðina sjálfa, og þá mundi verðið hæfilegt 9 þús. kr., því 4% vextir af því er 360 kr., eins og eftirgjald jarðarinnar er nú. því fremur sýnist það vera nóg verð fyrir jörðina, sem það mætti auðvitað fá hærri rentur, t. d. með því að kaupa bankavaxtabréf eða öðruvísi.

En ef litið er á það, að jörðin yrði seld einhvern tíma seinna meir, þá horfir nokkuð öðruvísi við. Nú er hún sennilega ekki svo útgengileg, er bæði mun stafa af því, hve fólksfrek hún er og erfið — enda enginn falað hana; en hitt er þó víst, að jörðin er í rauninni mikil og ýmsum kostum búin.

Það gæti því komið til greina síðar, að einhver girntist að fá jörðina, þó ekki væri nema vegna hinnar fornu helgi, er á henni hvílir, og væri þá óhyggilegt að hafa kaupverðið fastákveðið, svo að ekki mætti hækka það, ef tækifæri gæfist að kaupa jörðina, jafnvel þó ekki munaði nema 500— 1000 kr.

Nefndin hefir því litið svo á, að það sé ekki til bóta, að neitt fast ákvæði sé í frumv. um þetta atriði, heldur sé stjórninni algerlega falið það að gæta hér, ef til kæmi, hagsmuna landssjóðs eftir því sem við á og álítur, að henni sé til þess trúandi, og leggur nefndin því til, að feldur sé burtu viðauki sá, er háttv. Ed. hefir sett við 1. gr. frumv. Það lítur líka svo út, sem háttv. Ed. hafi ekki verið nógu kunnug málavöxtum; hún hefir ekki getað haft neitt fyrir sér í þessu, heldur gert þetta út í bláinn. — Það skyldi helzt vera, að hún hefði haft fyrir sér frumv. um sölu á þjóðjörðinni Kjarna, þar sem hún taldi 12 þús. króna verðið hæfilegt, því ekki hefir það bygst á því, að jörðin væri föl fyrir þetta verð og lægra ekki. Því sannleikurinn mun vera sá, að hún mun als ekki vera á boðstólum nú sem stendur. En það getur auðveldlega breytst þá og þegar og væri þá gott, að landsstjórnin hefði heimild til kaupanna.

Við atkv.gr. í Ed. kom það líka í ljós, að mönnum var málið ekki vel ljóst.

Nefndin hefir þannig orðið á eitt sátt um það, að þessi viðauki sé feldur burt, jafnvel þótt það kunni að kosta líf frumv. sjálfs.