26.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

9. mál, ellistyrkur

Lárus H. Bjarnason:

Frumvarp þetta var rætt rækilega í neðri deild 1907, og er því ekki ástæða til að vekja þær umræður upp aftur nú, það því síður, sem stjórnin og nefndin hér í deildinni hafa tekið upp að meiru eða minnu leyti ýmsar af breytingum þeim, sem neðri deild lagði áherzlu á 1907.

Sérstaklega get eg úr því sem komið er verið nefndinni þakklátur fyrir 11. breytingartillöguna, breyt.till. við 13. gr. Þar hefir nefndin hallast á sveif neðri deildar um það atriði, sem mestum ágreiningi olli 1907 milli hæstv. ráðherra og meiri hluta neðri deildar. Stjórnin hélt því fram, að styrkurinn eftir frumv. ætti eingöngu að ganga til þurfandi, ellihrumra manna, en neðri deild vildi láta hann renna jafnt til allra, er væri frá verki vegna sjúkdóms, elli eða annara ósjálfráðra orsaka.

Oss neðri deildar mönnum, sem börðust fyrir þessu, fanst sanngjarnt að allir, sem legðu fram gjald til sjóðsins, ættu að geta gjört sér von um styrk úr sjóðnum, ef þeir þyrftu á að halda, enda myndu menn þá verða ljúfari til að gjalda í sjóðinn og lögin að öllu leyti vinsælli. Hitt myndi valda tregðu, því að því miður hefðu menn ekki bréf upp á að ná 60 ára aldri, enda ekki sjáanlegt, að elli út af fyrir sig ætti að vera rétthærri til styrkþágu heldur en sjúkdómar eða aðrar ósjálfráðar ástæður. Nefndin hefir því bætt frumv. að mínu áliti, þar sem hún heimilar að veita heilsubiluðum fátæklingum styrk, þótt ekki séu 60 ára, en bundið þessa heimild of við borð, þar sem hún heimtar »sérstakar, knýjandi ástæður«. Eg vil því skjóta því til nefndarinnar, hvort ekki mætti fella orðið »knýjandi« burt úr viðaukatill. við 13. gr., þótt ekki gjöri eg það að neinu kappsmáli, því að það orð hefir líka »tog«.