15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

102. mál, vegamál

Einar Jónsson:

Eg get látið mér nægja að vísa í álit minni hluta nefndarinnar. Ástæðurnar fyrir frv. eru þær, að engin sanngirni er í því, að láta Rangæinga taka þátt í viðhaldi vega í öðrum sýslum. Raunar á þetta sér stað annarsstaðar, en þó er nokkuð öðru máli að gegna um Rangæinga. — Rangárvallasýsla er hin eina sýsla, sem hefir ekki not strandferðanna. Í annan stað nota fleiri þessa vegi, en þessar 2 sýslur, bæði Skaftfellingar, útlendir ferðamenn, að eg tali nú ekki um Reykvíkinga. Aftur á móti nota engir aðrir Fagradalsbrautina, en Norðmýlingar og Sunnmýlingar.

Okkur flutningsmönnum frumv. lá ríkast á hjarta að afnema viðhaldið með öllu, en er við fundum undirtektir þingdeildarmanna, töldum við ekki þorandi að halda því til streitu. Þar á móti held eg fast við þá kröfu, að frv. verði tekið til greina með þeim breyt.till., sem eg hefi lagt til, að gerðar væru, enda vona eg, að háttv. þingdeild sýni þá sanngirni af þeim ástæðum, sem eg hefi fram flutt. Auk þess er og á það að líta, hversu lítið Rangæingar hafa fengið til vega í sýslunni, að undanteknum veginum frá Þjórsá að Rauðalæk, c. 15 kílom., mjög illa bygðum vegi, og hefir sýslan orðið að gera alla aðra vegi, sem þegar eru til, á eigin kostnað. Í samræmi við það, sem eg hefi lagt til, að létt yrði á Rangæingum, hugði eg ekki ósanngjarnt, að létt væri á Árnesingum tiltölulega.

Eg er kominn að raun um það, að langar umræður hafa heldur lítið að þýða. Vona eg því, að hver einstakur þingmaður athugi málið með sanngirni, og um leið skal eg geta þess, að verkfræðingurinn taldi sanngjarnt, að losa Rangæinga við viðhald Flóavegarins.