26.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

9. mál, ellistyrkur

Sigurður Hjörleifsson:

Þó mál þetta hafi verið rætt og athugað áður á þingi, væri þó ekki vanþörf á því, að það væri athugað nákvæmlega líka í þetta sinn.

Nefndarálitið fer fram á tvær verulegar breytingar frá því sem gert er ráð fyrir í frumv. stjórnarinnar. Fyrst er sú breyting, að færa gjaldið til sjóðsins um ¼ niður úr því sem gert er ráð fyrir í frumv. stjórnarinnar. Og í öðru lagi á að úthluta minna úr sjóðnum en tiltekið er í frumv. Eg skal lýsa yfir því, að eg hallast fremur að ákvæðum frumv. í hvoru tveggja þessara atriða, og tel að breyting nefndarinnar bæti ekki heldur spilli. Þegar þess er gætt, hve kaupgjald er orðið hátt hér á landi, — og það fer alt af hækkandi, — og hins vegar hve lítið af því fé, sem fólk vinnur fyrir, loðir við það, þá verður það að álítast heppilegt, að gjaldið til þessa sjóðs sé svo hátt sem í frumv. segir, og því fé vel varið, sem lagt er í sjóð til styrktar ellinni. Það mun ef til vill verða sagt, að gjaldhæðin sé tilfinnanleg og muni koma hart niður á sumum, en það verður nú ekki við öllu séð.

Hvað hitt snertir, um útbýtingu úr sjóðnum, þá get eg ekki annað séð, en að sjóðurinn mundi vaxa hæfilega ef þeim ákvæðum væri fylgt, sem í frumv. standa.

Eg get heldur ekki verið samdóma um þá breyting, sem nefndin gerir ráð fyrir, að hafa sjóðinn að nokkru leyti til öryrkjastyrks. Það væri að vísu rétt og mannúðlegt að styrkja menn, sem annars yrðu að lenda á sveit fyrir sjúkdóms sakir. En eg vil halda reglunni hreinni og ekki láta nota þennan sjóð, sem ætlaður er til ellistyrks, til slíkra styrkveitinga.

Eg hefði fult eins gjarnan kosið að aldurstakmarkið hefði verið sett nokkru hærra, t. d. 65 ár eða jafnvel 70. Síðar mætti svo færa sig upp á skaftið og lækka aldurstakmarkið, þegar sjóðurinn yxi og yrði auðugri. Í þessa átt væri réttara að breytingamar gengju nú fyrst um sinn, en ekki að slaka til, eins og nefndin vill gera. Eg sé ekki hvernig þessi sjóður ætti að geta, þegar er hann fer á stað, styrkt svo og svo marga, sem farið hefir verið fram á hér.

Eg ætla mér ekki að bera fram neina breyt.till. um þetta atriði, en kasta því að eins fram til athugunar nefndarinnar og deildarinnar.