14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

71. mál, eiðar og drengskaparorð

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg ætla ekki að leggja hér mikið orð í belg í þrætu háttv. 1. þm. Rvk (J. Þ.) og háttv. þm. Vestm. (.1. M.), um það, hvort eiðstafurinn sé lengri en þörf er á að hafa hann. Háttv. þm. Vestm. (J. M.) getur komið með breyt.till. við 3. umr. um að fella aftan af eiðstafnum orðin: »Guð sé mér hollur sem eg satt segi, gramur ef eg lýg«. Eg er meðmæltur því að fá eið handa þeim, er ekki heyra til neins sérstaks trúarfélags og þykir þó galli mikill á 3. gr. Hefði óskað, að sleginn væri líka varnaglinn gagnvart þeim mönnum, sem vegna trúar sinnar eigi mega eiða vinna, t. d. kvekara.

Það var aðallega eitt, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) virtist vera verst við, að eiður væri unnin á undan vætti. Þetta álít eg til stórmikilla bóta. Veit eg, að hann muni oft hafa veitt því eftirtekt, hve gálauslega menn fara máli sínu fyrir rétti; mun það mest af því, að þeir halda, að eigi muni framburður þeirra eiðfestur. Veit eg, að menn muni fremur kinnoka sér við að taka aftur það, sem þeir hafa sagt en að láta vera eða hætta við að segja það. Legg eg sérstaklega mikla áherzlu á þetta atriði, því eg hefi sem áhorfandi veitt því eftirtekt, að vitni, sem hugðu þau slyppu hjá eiði og því ef til vill haft oflítið gát á tungu sinni, fölnuðu upp, er þau áttu að staðfesta framburð sinn með eiði. Verðum vér að ganga að því vísu, að ef tekið er inn í lögin, að eiður skuli unninn á undan vætti verði það til að gera menn varkárari.

Eins og nú er komið er virðingin fyrir eiðnum harla lítil, en væri frv. þetta samþ. mundi hún aukast aftur.