16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

104. mál, innlend vindlagerð o. fl.

Framsögumaður minnihlutans (Magnús Blöndahl):

Eg hefi ekki getað orðið samferða meðnefndarmönnum mínum, eins og nefndarálitið ber með sér.

Háttv. framsm. meiri hlutans (B. K.) sagði, að þingið 1907 hefði hlynt rækilega að þessum atvinnuvegi, og gert alt sem í þess valdi stóð til þess að hann gæti þrifist. Eg veit ekki, hvernig hinn háttv. þm. fær það út úr gerðum þess þings. Fyrir mér er það svo, að þingið það hafi miklu fremur amast við þessum atvinnuvegi og reynt til þess að eyðileggja hann sem fyrst. Þessi vísir til innlends iðnaðar var talinn — eg vil ekki segja óréttmætur í alla staði — en að minsta kosti óalandi og óferjandi. Þarf ekki annað en benda á umræður síðasta þings og álit meiri hluta nefndarinnar.

Meiri hluti nefndarinnar hefir tekið orðrétt upp alllanga klausu eftir nefnd þeirri, sem sett var í málið á síðasta alþingi, og á klausa sú að sýna og sanna, hve arðvænleg þessi atvinna hafi verið vindlagerðarmönnunum, og að þeir geti fengið svo og svo mikið fyrir tóbaksúrganginn, leggina o. fl. Eg held að engum detti í hug að senda út úrganginn, því við það væri ýmislegur kostnaður, umbúðir, farmgjald o. fl., og því lítil líkindi til, að það mundi svara kostnaði. Auðvitað mætti gera ráð fyrir, ef slíkur iðnaður væri rekinn hér, að eitthvað fengist fyrir úrganginn, t. d. ef hann væri saxaður og seldur til reykingar í löngum pípum; það mundi að minni hyggju borga sig betur en að senda hann út.

Þá verður nefndinni skrjafdrjúgt um það atriði, að landssjóður tapaði svo miklu af vindlatollinum, að ekki væri gerandi að samþ. frumv. Eg vil nú spyrja, hvort atvinnnuaukningin í landinu mundi ekki vega talsvert upp á móti þeim halla, og tollur af óunnu tóbaki er að sjálfsögðu mundi aukast að verulegum mun. Eins og stendur, þá hefir landssjóður engar tekjur af þessari atvinnugrein. Eg veit vel, að mér verður svarað því, að mun meira mundi flytjast inn af vindlum, ef þeir væru ekki búnir til í landinu sjálfu. Þetta mál er óransakað og ekki hægt að staðhæfa, hvort mundi tekjudrýgra fyrir landssjóð.

Það, sem eg lagði aðal-áherzluna á við 1. umr. þessa máls hér í hv. deild, og það sem eg vil enn leggja áherzlu á er það, að vér erum skyldugir til þess að styðja að hverjum skynsömum vísi til innlends iðnaðar. Eg held að það sé heppilegri fjárhagsstefna að reyna til þess að styðja að því, að sem minst fé sé borgað út úr landinu fyrir þau verk, sem vér getum alveg eins vel unnið og útlendingar, heldur en að koma í veg fyrir, að hægt sé að vinna það hér. Ef þessi iðnaður er rekinn hér, þá verður minna fé borgað út úr landinu en ella og þeir peningar lenda þá í vösum landsmanna sjálfra; og hagur hvers einstaklings í þessu tilfelli verður þá um leið hagur als þjóðfélagsins, því að peningar einstaklingsins verða til þess að auka gjaldþol þeirra, er hlut eiga að máli, og þannig styðja þjóðareignina. Þetta stendur enn óhrakið og mun standa það framvegis, því að það er ekki viðlit að hrekja það.

Ef frumv. nær að ganga fram, þá verður tekjumissir landssjóðs langt frá eins mikill og nefndin gerir ráð fyrir, og það er vegna þess, að framleiðslan verður ódýrari og þar af leiðandi varan seld mun ódýrara, heldur en þeir geta selt hana, sem verða að greiða háan toll. Hið háa verð dregur úr kaupunum og rýrir tekjur landssjóðs. Ef vindlagerðin er innlend þá verður meira brúkað af þeim, af því veran verður ódýrari og þar af leiðandi mikið meira flutt inn af óunnu tóbaki, og eg get því ekki litið öðruvísi á, en að það sé stórt spursmál, hvort landssjóður mundi missa nokkurs í hvað tóbakstollinn snertir. Óbeinlínis er hagurinn stór fyrir landið, peningarnir verða kyrrir í landinu, því að vinna landsmanna er keypt fyrir þá.

Eg vona því, að háttv. þingd. líti svo sanngjarnlega á málið, að hún leyfi því að halda áfram og að hún sjái að ástæður þær, sem eg hefi flutt, eru á rökum bygðar.