16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

104. mál, innlend vindlagerð o. fl.

Framsögumaður minni hlutans (Magnús Blöndahl):

Það var ekkert nýtt, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagði, og þarf eg því ekki að eyða orðum um það sérstaklega. Hann hélt því fram, að atvinnan væri óeðlileg, af því vindlarnir væru ekki búnir til úr innlendu efni, og gekk alveg framhjá því, hversu mikið er borgað út úr landinu fyrir vinnuna á innfluttum vindlum, sem eg þó ávalt hefi lagt aðaláherzluna á.

Eg skal því ekki lengja umræður að sinni, en endurtek að eins að eg vona að deildin sýni frv. þá velvild að láta það ganga til 2. umr. Ef deildinni ekki getst að sumum einstökum atriðum í frv. er tækifæri til að laga það við 2. umr.