16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

104. mál, innlend vindlagerð o. fl.

Jón Þorkelsson:

Eg skal ekki vera margorður um þetta mál og ekki fara út í einstök atriði, heldur minnast lítið eitt á grundvallarhugmyndina í þessu máli, á aðal»principið«. Þar get eg ekki verið samdóma vini mínum 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) Það hefir lengi verið svo hér á landi, að við höfum keypt dýrum dómum það sem hægt hefir verið að vinna og framleiða í landinu sjálfu. Lengi hefir það viðgengist hjá fólki hér að leita til útlendra verksmiðja með ull sína og láta vinna úr dúka, sem þeir sjálfir hefðu eins vel getað gera látið. Áður var hér færaspuni og snæra úr útlendum hampi, sem guð sendi og hingað barst fyrir lítið; menn smíðuðu áður járn undir hesta sína á vetrum, þegar litlar annir voru, en nú nenna menn því ekki; menn gera það ekki að minsta kosti. Þá stunduðu menn ljáasmiði. Nú er lagt stórfé til útlanda á ári fyrir ljái; eg skal þó sízt minnast á það, því að eg viðurkenni að tafsamara var við vinnu að nota íslenzku ljáina heldur en þá útlendu. Aðalmergurinn í þessu máli er sá — og sem eg legg mesta áherzlu á — að við sækjum til útlanda og gjöldum gull og önnur gæði fyrir margt, sem við sjálfir getum aflað oss og búið til heima. Innlendur iðnaður getur orðið miklu meiri en hann er nú; en sízt af öllu megum við sparka við þeim litla vísi, sem við nú höfum, en það gerum við, ef við leggjum toll á vindla, sem búnir eru til hér, og með því látum Íslendinga fara á mis við þann hagnað, sem í þeir geta haft af að búa til þá vindla, sem hér er neytt. Annars fæ eg ekki séð betur en að það að leggja toll á innlenda vindla sé spor í áttina til að banna aðflutning á vindlum. Svona byrjaði það með brennivínið. 1871 fóru menn að tolla það og sá tollur hefir altaf farið síhækkandi og nú á að reka á smiðshöggið með algerðu aðflutningsbanni. Það er heldur ekki gott að sjá, hvernig menn hugsa sér, að það sé landssjóði svo mikill hagur, að lagður sé tollur á vindla. Það er þvert á móti. Þessi tollur drepur alla innlenda vindlagerð og sviftir alveg landssjóð þeim tolli, sem hann annars gæti haft af innfluttri hrávöru (tóbaksblöðum) til vindlagerðarinnar. Hitt væri auðsærra, að það væri landssjóði hagur, að ekki væri lagður tollur á þessa innlendu vöru. Það er heldur ekkert annað í rauninni en að bannað sé innlendum mönnum að keppa við útlendinga í þessari grein.

Íslendingum er bannað að fá þennan varning hjá innlendum, en reknir til að kaupa hann tilbúinn af útlendingum. Slík toll- og fjármálastefna er naumast samboðin virðingu þingsins. Eg skal svo ekki fara fleirum orðum um þetta frv. að sinni, en með því verð eg að mæla fast, að því verði leyft að ganga til 2. umr.