16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

104. mál, innlend vindlagerð o. fl.

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Kristjánsson):

Það er búið að tala sæmilega mikið um þetta frumv. Eins og eg tók fram áðan gerði nefndin á síðasta þingi alt sem hún áleit fært og forsvaranlegt til þess að iðnaður þessi gæti staðist. Hún fór svo langt að veita þau hlunnindi, eins konar verndartoll, er nam 35 kr. af hverjum 150 kr. og ef það ekki dugir, þá sé eg ekki, að iðnaðargrein þessi eigi að lifa. Þegar hún svarar ekki betur kostnaði á hún að deyja. Flutnm. frumv. þessa hafa heldur ekki sýnt fram á, hve mikinn styrk af landssjóði þurfi til að fyrirtækið geti borið sig. Annars er það hættuleg pólitík að vera að stofna til iðnaðar, sem fyrirsjáanlega aldrei getur borgað sig, og sízt þegar hann ekki er nytsamlegri en hér er um að ræða. Háttv. flutnm. benti á, að tolltekjur minkuðu ekki við þetta, það mundi aukast innflutningur á óunnu tóbaki að miklum mun og notkunin verða meiri. Eg tel nú efasamt, hvort það væri rétt stefna þingsins að stuðla að því, að tóbaksnautn vaxi að miklum mun í landinu. Yfirleitt er það sannleikur, sem menn verða að þola að heyra, að það er oftast betra að fá tilbúnar vörur að frá útlöndum, en að reyna að búa þær til hér í landi, því að það borgar sig ekki. Skilyrðin hér eru alt önnur en í hinum stóru iðnaðarlöndum heimsins, þar sem framleiðslan og kaupskiftin eru svo mikil. Þannig er því t. d. varið með vefnaðarvörur. Eg veit það af eigin reynslu. Eg verð t. d. að selja sama efni í álnum fyrir sama verð, og jafnt álnatal úr sama efni í tilbúinni flík. Saumalaunin kosta ekkert.

En þar sem öðru vísi hagar til, og sérstaklega þar sem vinnan gæti verið landssjóði útgjaldalaus, þar ætti viðað láta íslenzka menn sitja fyrir öðrum, eins og t. d. að afgreiða í búð. Það er óþarfi að vera að seilast eftir mönnum út fyrir pollinn til slíkra starfa og mesta furða, að þjóðin skuli una við það að sjá útlenda þjóna í annari hverri búð.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) spurði, hví ætti að leggja toll á þessa vöru, en þá ekki á ýmsar aðrar. því er auðsvarað: af því að sú vara (tóbakið), er tollstofn, og að hún eigi að vera tollskyld eigi síður en aðrar vörur, er auðsætt, þegar þess er gætt, að það er munaðarvara, og hingað til hafa tollar ekki náð til annara vara en þeirra, sem kölluð er munaðarvara. Í þessu sambandi skal eg leyfa mér að benda á þá ágætu ritgerð hr. Krabbe um, hve óráðlegt það sé að vernda vindlagerð hér á landi með einskonar verndartolli.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) fór mörgum fögrum orðum um, að áður hefðu menn unnið ull sína í föt. Ójá, sú var nú tíðin, en karlmenn höfðu ekki annað fyrir stafni dögum saman en kemba og tæja ull fyrir konur sínar, en það borgar sig ekki að fást við slíkt lengur. Frá útlöndum má fá vinnu miklu ódýrari. Við getum notið kraftanna betur með því að beita þeim á annað, sem betur borgar sig. Það er fyrir löngu úrelt skoðun, að ein þjóð eigi að fást við sem flestar atvinnugreinar, framleiða alt eða flest, sem hún þarf með. Þvert á móti. Þjóðin á að leggja stund á þær atvinnugreinar, sem bezt borga sig. Þeirri skoðun halda fram helztu þjóðmegunarfræðingar vorra tíma, að sú skifting vinnunnar og atvinnuveganna, sem komi fram við, að hver þjóð fylgi þeirri reglu, sé til mestra hagsmuna fyrir þjóðirnar, og þegar maður gáir vel að, þá hlýtur maður að viðurkenna, að sú kenning er rétt.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) var líka að tala um, að áður hefðu menn smíðað járn undir hesta sína, og búið til þá ljái, sem þeir þurftu að brúka, Nú fái þeir þetta alt frá útlöndum. Já, það borgar sig betur að fá þá þaðan. Ljáirnir, sem við fáum frá útlandinu, ensku ljáirnir, eru miklu betri en þeir íslenzku voru og ódýrari, og það er efalaust þær mestu framfarir, sem við í 1000 ár höfum tekið í búnaði, að við hættum að búa til ljái og brúka íslenzka ljái. Eins er með skeifurnar og tilbúin föt, að pundið í þeim reynist ekki dýrara en af ósmíðuðu járni og óunnri ull.