16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

105. mál, hvalveiðar

Flutningsmaður (Jón Ólafsson):

— Hæstv. ráðherra (H. H.) hefir í ræðu sinni flutt töluvert af rökum gegn þessu frumv., en eg get þó enganveginn séð, að þau séu nægileg til þess að fella það, og vil eg því leyfa mér að gera fáeinar athugasemdir.

Hæstv. ráðherra tók það fram, að bannað væri að veiða hvali í landhelgi; það er rétt að hvalirnir nú eiga að heita veiddir utan við hana, en hitti hvalveiðabátur hval innan landhelginnar, rekur hann hvalinn að eins út fyrir hana og drepur hann þar, svo það eru lög sem hafa tog.

Hæstv. ráðh. sagði einnig, að þótt við friðuðum hvalina og bönnuðum hvalveiðamönnunum að veiða þá hér á landi, þá myndi afleiðingin einungis verða sú, að landssjóður misti tekjurnar og hvalveiða-mennirnir veiddu þá eftir sem áður frá fljótandi »stationum« (stöðvum á floti utan landhelgi) eða frá nálægum löndum. Eg verð að segja, að þessa ástæðu tel eg að eins grýlu. Reyndir hvalveiðamenn hafa sagt í mín eyru, að slíkt borgi sig ekki og þeir hafa að minsta kosti ekki reynt það í Noregi; stöðvar á floti svara ekki kostnaði og enginn þeirra hefir reynt að koma þeim upp. Það er heldur ekki líklegt, að það mundi borga sig að skjóta hvalina hér, og draga þá síðan til Grænlands eða Færeyja, kolaeyðslan yrði alt of mikil til þess, að það gæti svarað kostnaði og auk þess hafa veiðiskipin ekki rúm fyrir svo mikil kol, sem þarf til slíkra langferða.

Eg vil leyfa mér að leggja áherzlu á það, sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) sagði, að hvalveiðamennirnir uppræta stofninn. Það er einmitt hætta á ferðum hér, því að hvalirnir tímgast seint. Vér höfum áður upprætt skepnur hér á landi og nægir að benda á geirfuglinn; vér ættum ekki að fara eins með hvalina.

Hæstv. ráðherra spurði, hvort við getum ekki beðið, þangað til reynsla væri fengin frá Noregi; eg held að það sé ekki heppilegt, einmitt vegna þess, að frumv. þetta er friðunarfrumv., og því er ástæða til þess, að bíða ekki of lengi; auk þess mundi friðunin verða mikið öflugri, ef hún væri samtímis hér og í Noregi.

Eg vil enn fremur gera athugasemd við það sem hæstv. ráðherra sagði um það, að hvalveiðamennirnir væru orðnir Íslendingar. Allir þeir menn, sem eiga stöðvar hér á landi eru útlendingar, nema einn, sem er íslenzkur að ætt, en fyrir löngu hefir gerst útlendingur, þurkað íslenzkt duft af fótum sér, býr í Kaupmannahöfn og eyðir þar arðinum af verzlun sinni. Maðurinn er Á. Ásgeirsson Þingvallaskála-etazráð. Þegar ræða er um að vernda og friða hvali, þá eigum vér heldur að líta á þörfina og hag landsmanna í heild sinni, heldur en stundarhag útlendinga, sem að vísu hafa keypt sér hér svo kallað »borgara«bréf, sem hver getur keypt sem vill, en eru þó ekki íslenzkir þegnar. Eg veit vel, að margir hvalveiðamenn — ef til vill flestir — eru heiðursmenn, og eg þekki suma þeirra persónulega og er vel við þá, en eg vil þó líta meira á hag landsins og landsmanna heldur en þeirra hag, þótt vinir mínir væru.

Það er eins fyrir mér og hæstv. ráðh., að við höfum heyrt eitthvað um áhrif hvalafriðunarinnar á fiskiveiðarnar, en hvorugur okkar mun þar svo sannfróður, að við séum bærir um að hafa að engu álit fiskimanna vorra, er meiri hafa reynslu í þessu efni en við.