12.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

106. mál, laun geðveikralæknis

Flutningsmaður (Jón Magnússon):

Eg gæti ímyndað mér, að sumum hinna háttv. þm. virðist, að verið sé að gera gabb að þingdeildinni með því að bera fram frumv. þetta, með því að hér sé verið að fara fram á að stofna nýtt embætti, og það með eftirlaunum, þrátt fyrir það, að nú sé viðkvæðið, að ekki skuli stofna ný embætti, en aftaka skuli aftur á móti öll eftirlaun.

En ekki bið eg neinnar afsökunar í þessu efni.

Hins vegar bið eg velvirðingar á því fyrir hönd stjórnarnefndar geðveikrahælisins, að þetta erindi hafði ekki borist hæstv. stjórn nógu fljótt, svo að frumv. yrði lagt fyrir þingið af stjórnarinnar hálfu.

Stafar þetta af gleymsku yfirstjórnar hælisins og svo nokkuð af hinu, að maðurinn, sem í hlut á, er ekki mikið fyrir að trana sér fram; hann hefir ekki gert sér mikið far um að ýta undir þetta.

Þó er það eftir tilmælum hans, að eg ber nú fram þetta frumv. Og mér virðist sjálfsagt, að deildin eigi að sþ. frumv. eins og það er.

Það sem farið er fram á í frumv. þessu er það, að geðveikralæknirinn sitji við sömu kjör og holdsveikralæknirinn.

Þessi tvö (læknis)embætti eru jöfn að öllu öðru en því, að hið fyrnefnda er mun örðugra.

Á geðveikrahælinu eru læknisstörfin sjálf örðugri en við holdsveikraspítalann; auk þess hefir geðveikralæknirinn á hendi gjaldkerastörf og ráðsmensku. Að vísu er ráðsmaður að nafninu til við geðveikrahælið, en laun hans eru mjög lítil og má segja, að hann sé öllu fremur vinnumaður eða þá verkstjóri.

Fyrir því er farið fram á, að laun geðveikralæknisins verði jöfn launum holdsveikralæknisins.

Launahækkunin er að eins 300 kr., því að ákveðnu launin eru nú 2400 kr. Getur það ekki skoðast há laun, þar sem læknirinn getur ekki haft nein auka-læknisstörf á hendi.

Vona eg að háttv. deild líti á þetta mál, eins og það er vert, og skal svo ekki tala frekar um það.