26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

108. mál, lækningaleyfi

Þorleifur Jónsson:

Það stendur svo óheppilega á, að eg hefi ekki séð þetta frumv. fyrr en nú í dag, þótt eg viti ekki, hvað valdið hefir töf á útbýtingu þess. Eg hefi því ekki haft góðan tíma til að kynna mér ákvæði þess, og það sem eg nú segi, styðst aðallega við fljótlegan yfirlestur.

Mér virðist þetta frumv. miða að því að banna öllum skottulæknum, svo kölluðum eða mönnum, sem hafa ekki tekið próf í læknisfræði, allar lækningar. Mig furðar á þessu, eftir því sem læknamálunum er nú komið. Nú liggja fyrir þinginu 6 eða 7 frumv. um ný læknishéruð. Eg get ímyndað mér, að þingið treysti sér ekki til fjárhagsins vegna að verða við öllum tilmælum, sem fram hafa komið um fjölgun læknishéraða. Hví má þá ekki lofa þeim, sem hafa áhuga og vilja á að hjálpa sjúklingum, að gera það? Eg veit, að menn hafa sagt og kunna að segja, að skottulæknar geri mönnum ekki annað en skaða; en það er hægra að segja en sanna. Eg tel óvíst, að skottulæknar hafi gert svo mikið tjón, sem héraðslæknar halda fram. Eg held að lækningar þeirra hafi oft orðið til góðs, því þótt þeir hafi ef til vill ekki kunnað mikið til lækninga, þá hefir þó almenningur haft þá trú, að bata mætti fá af lækningum þeirra, og það er ef til vill ekki hið versta.

Það er og enn athugandi, að þótt læknum hafi verið fjölgað hér til mikilla muna við það, sem áður var, þá er þó mönnum enn í afskektum sveitum með öllu ókleyft oft og einatt að vitja hinna löggiltu lækna, og væri þá illa farið að banna að vitja þeirra manna, sem reynslu hafa í þeim efnum, þótt ekki séu þeir löggiltir.

Af þessum ástæðum er eg á móti frumv. og álít, að háttv. þingd. eigi beint að fella það. Það eina nýtilega sem eg get fundið í frumv. þessu, er ákvæði í 4. gr. um það, að landlæknir skuli gefa læknum áminningar, þeim er vanrækja störf sín. Raunar held eg ekki, að ný lög þurfi um þetta efni, því að landlækni mun heimilt að áminna lækna, ef honum þurfa þykir.