26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

108. mál, lækningaleyfi

Björn Kristjánsson:

Hv. flutnm. (J. M.) leit svo á, að ekki væri ástæða til að tala mikið um þetta mál við fyrstu umr., en þar sem búast má við, að mál þetta verði talsvert ágreiningsmál, þá virðist ástæða til að fara um það nokkrum orðum, sem gæti orðið til bendingar fyrir væntanlega nefnd.

Skottulæknar eru nauðsynlegir vegna þess að oft er langt til lækna, og vegna þess að héraðslæknar eru oft á ferðalagi fyrir utan sitt umdæmi og það lengi, t. d. hefir héraðslæknirinn í Hornafirði dvalist hér langan tíma, án þess að nokkur væri settur í hans stað á meðan, nema ef til vill nágrannalæknir, sem býr á Djúpavogi. Líkt og þetta hefir oft komið fyrir. Með »ólærðum læknum« hér mun átt við smáskamtalæknana — homopatana —, því að um aðra er ekki hér að gera nú. Nú telja læknar smáskamtalyfin ónýt, að þau geri hvorki skaða né gagn; þá ætti engin hætta að vera, þótt þeir héldu áfram. H. þm. Vestm. (J. M.) sagði, að ekki væri tilætlunin að sporna við því, að ólærðir læknar fáist við lækningar. Eftir 1. gr. frv. er þó einmitt á valdi landlæknis að leyfa slíkt, og smáskamtalæknar ekki undanskildir. Nú er það á allra manna vitorði, að landlæknirinn er mjög andvígur smáskamtalæknum, og því lítil líkindi til, að hann mundi veita þeim leyfi.

Eg fæ ekki annað séð, en að bráðnauðsynlegt sé, að smáskamtalæknar fái að halda áfram lækningum sínum, og tel ótímabært að samþykkja þetta frumv. nú. Það getur komið til mála, þegar læknum fjölgar hér svo, að þeir séu á annari hverri þúfu, svo að segja.

Eg vil benda á það, að í útlöndum er það alsiða, að smáskamtalæknar hafi próf. En hvar er skóli hér á landi fyrir slíka menn? Hvergi nokkursstaðar. Eins og mönnum er kunnugt, er alstaðar í heiminum slagur á milli hinna lærðu lækna og homopatha, og mér finst ekki rétt, að þingið sé nokkuð að slétta sér út í þannig löguð mál. Eg er fyllilega samdóma háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) um það, að sé það trúin sem læknar, hví á þá að meina slíka lækningu?

Dæmi háttv. þm. Vestm. (J. M.), þótti mér nokkuð skrítið. Hafi það sannast, að tjón hafi hlotist af völdum smáskamtalækna, átti auðvitað að sekta þá samkvæmt þar að lútandi lögum, alt að 100 kr. Lögin heimila þeim að lækna, en geri þeir eitthvað vítavert fyrir sér á vitanlega að sekta þá. Eg þykist vita, að háttv. þm. Vestm. (J. M.), sé það ljóst, að lærða lækna hefir hent oft og hendir enn að segja skakt til um veiki. Það er enginn svo skýr, að honum geti ekki skjátlast.

Tilraun síðasta þings um að gera lög um læknataxta hefir algerlega mishepnast; þau lög eru óhæfileg alþýðu manna. Eg hefði reyndar vænst þess, að landlæknir hefði gert eitthvað til að hindra yfirgang lækna, sem eru svo gerðir að taka meira fyrir störf sín en þeim ber, og sem almenningur er enn varnarlaus fyrir, þrátt fyrir læknataxtann; þess mundi þó hafa verið full þörf. Eg lít einnig svo á, að þörf hefði verið á að koma með frumv. um, að stofna mætti hér sunnanlands aðra lyfjabúð, eða að minsta kosti að fella úr gildi kansellíbréfið 9. marz 1841, sem gerir læknum að skyldu að kaupa öll lyf sín hér á landi. Fyrir slíkar umbætur mundi eg vera landlækni þakklátur.

Skal eg svo ekki fara frekar út í þetta að svo stöddu. Vonast til að fá síðar tækifæri til að tala í þessu máli.