26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

108. mál, lækningaleyfi

Flutningsmaður (Jón Magnússon):

Eg get varla búist við því, að það gagnaði þann, sem dáið hefði fyrir vankunnáttu skottulæknis, þótt skottulæknirinn fengi einhverja sekt eftir á. Get heldur ekki skilið, hvernig háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) fer að setja þetta mál í samband við það atriði, hvort gera eigi lyfjaverzlun hér að meira eða minna leyti frjálsa. Eg tel mjög vafasamt að lyfin yrðu vandaðri eða ódýrari, þótt sú verzlun yrði gefin frjáls; hygg það mundi einungis verða einstökum mönnum til hagnaðar. Svo er reynslan annarsstaðar.

Fái mál þetta að fara í nefnd, sem eg vona að verði, verður tækifæri til að athuga það betur. Eftir því sem lærðum læknum fjölgar, ætti að vera óhættara að setja strangari reglur um meðferð annara manna á sjúklingum. Nýjustu skýrslur sýna, að skottulæknar eru talsvert fleiri en lærðir læknar.