06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

110. mál, þingtíðindaprentun

Pétur Jónsson:

Mér virðist ekki rétt að gera enga athugasemd við það, sem háttv. flutnm. sagði um það atriði, að ekki væri meiri þörf í sveitunum til að hafa þingtíðindin til lesturs en t. d. rímur og slíkar skemtibækur.

Eg held að háttv. flutnm. sé ókunnugri í sveitunum, en þeir menn, sem alið hafa allan aldur sinn þar. Eg fyrir mitt leyti er kunnugur í mörgum sveitum og eg veit, að þau eintök af þingtíðindunum, sem send eru í hreppana, hafa ekki einungis verið notuð, heldur sumstaðar als eigi nægt, eg hefi t. d. oft orðið að lána mín. Eg hefi einnig keypt, bæði fyrir lestrarfélög og einstaka menn þingtíðindi, af því rifrildin af hreppaeintökunum hafa þá ekki dugað. Eg þekki það líka, að margir bændur víðsvegar um sveitir lesa ræðupart alþingistíðindanna að minsta kosti, það sem snertir stærri málin. Þeir eru því vanalega furðu kunnugir um það, sem gerst hefir — jafnvel kunnugri en eg, því eg nenni sjaldnast að endurlesa það sem gerst hefir á þinginu. Eg skal þó geta þess, að eg hefi oft orðið þess var, að menn eru ekki eins vel að sér í skjalapartinum og þeir eru í ræðupartinum. Það er því langt frá því að ræðuparturinn sé þýðingarlaus; menn kynnast málunum og fá talsverða kynningu af þingmönnunum. Einkum er slík viðkynning nauðsynleg, ef hlutfallskosningar kæmust á til alþingis og hver kjósandi yrði að greiða mörgum þingmannaefnum atkvæði.

Eg vil ekki gera málið að kappsmáli, en sé þó ekki að svo komnu máli ástæðu til að hætta við prentunina.