08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

110. mál, þingtíðindaprentun

Flutningsmaður (Björn Jónsson):

Eg vil leyfa mér að taka það fram, að frumv. þetta er ekki þess innihalds, að ekki megi prenta umr. í þetta sinn, heldur að eins að létta af lagaboðinu um að gera það. Það er allur munurinn, að þingið getur í þessu máli ályktað að gera hvort heldur sem það

vill, að láta prenta umræðukafla þingtíðindanna eða látið það vera. Það hefir alveg frjálsar og óbundnar hendur í því efni, ef frumv. þetta nær fram að ganga.

Að það vanti yfirlýstan vilja þjóðarinnar í þessu máli, er að vísu að nokkru leyti rétt, en eg verð að segja það, að ef þm. mætti ekkert annað gera, en það sem margyfirlýstur vilji þjóðarinnar væri fyrir, þá væri starfsfrelsi þingsins ónotalega heft. Vitaskuld er alveg sjálfsagt, þegar um stórmál er að ræða að leita álits þjóðarinnar, en hér er ekki um slíkt mál að tefla, enda segir stjórnarskráin, að þm. séu einungis bundnir við sannfæring sína, en ekki vilja kjósenda. Skil ekki annað en að það mætti létta af lagahaftinu þess vegna.

En eg vil leyfa mér að spyrja: Hefir fengist yfirlýstur vilji þjóðarinnar um tollhækkunina, og er þó nærri búið að samþ. það mál hér á þinginu, án þess nokkur hafi verið að spurður, — og á þá að gera þessu smámáli hærra undir höfði, en því? Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) beindi þeirri spurningu til háttv. forseta, hvort búið væri að lofa annari prentsmiðju prentun á umræðuparti þingtíðindanna. — Mér kemur ekki við að svara því; — en eg leyfi mér að mótmæla því, að það sé gert, án þess að spyrja aðrar prentsmiðjur um það, hvort þær fáist til að gera verkið fyrir minna verð. Á síðasta þingi var prentunin falin einni prentsmiðju, án þess að aðrar fengju tækifæri til þess að bjóða í hana. Eg þykist vita, að það hafi verið gert, ekki af því, að þingforsetarnir þá hafi verið hluthafar í þeirri prentsmiðju, svo sem eg hefi heyrt fullyrt, en sel ekki dýrara en eg keypti. En hitt finst mér undarlegra, ef verið er að lofa einhverju verki, áður en það er víst, hvort verkið verður unnið, og áður en nokkur vitneskja er fengin um það, hvort aðrir vilji vinna verkið fyrir minna verð. Annars skil eg ekki, hvers vegna verið er að eyða svo löngum tíma til þess að ræða jafneinfalt mál og þetta er. Sumir háttv. þm. virðast gera sér í hugarlund, að þetta sé kappsmál fyrir mér. Mér dettur auðvitað ekki í hug að mæla mig undan sérplægni og hlutdrægni frekar en aðra menn; en eg verð að biðja hv. þm. að athuga það, að þótt þetta frv. yrði felt, þá er þessi stofnun, sem prentunin er ætluð, ekki búin að fá þessa atvinnu, því það eru fleiri prentsmiðjur hér í bænum, og ef t. d. sú prentsmiðja, sem eg hefi undir höndum, skyldi hljóta þessa vinnu, þá hefir háttv. minni hluti unnið fyrir gýg.

Ástæðurnar fyrir hinum löngu ræðum háttv. minni hluta, eru eins og vant er að vera, þegar ekki er hægt að finna rök fyrir sínu máli, tómar vífilengjur og hégómi. Eg get sagt það, að mér er dálítið sárt um, að minni hlutinn nái ekki að koma því fram með ofstopa, að feld verði fyrsta sparnaðartillagan, sem komið er fram með á þessu þingi. Það er svo langt frá, að eg græði nokkurn hlut á því, þótt frumv. þetta nái fram að ganga, að eg eða mín prentsmiðja mundi þvert á móti hafa óhag af því. Því eg skal gjarnan skýra frá því, að eg ætla mér að bjóðast til að láta mína prentsmiðju taka að sér þá vinnu, ef frumv. verður felt. En það fer eg auðvitað á mis við verði frumv. samþykt og hætt við prentunina. Eg skal að eins bæta því við, að það er verið að tala um atvinnutjón, en þetta verk, sem hér er um að ræða veitir svo sem 1½ manni atvinnu þessa mánuði, sem eru á milli þinga. Auk þess ber ekki að taka upp á landssjóðs arma atvinnuhnekki einstakra stétta. Það væri þá miklu nær, að landssjóður legði lítilsháttar fúlgu í styrktarsjóð prentara, því að það er góð og þarfleg stofnun, og ætluð til þess að styrkja þá, sem verða fyrir atvinnumissi. —