08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

110. mál, þingtíðindaprentun

Flutningsmaður (Björn Jónsson):

Eg vona, að endir þessa máls verði með minna kappi en nú hefir verið um hríð. Ef útlendingar væru hér viðstaddir eða aðrir, þeir er skildu ekki hvað fram færi, mundu þeir mega ætla, að hér væri um stór velferðarmál lands og þjóðar að tefla.

Það er óþarft að bregða oss fylgismönnum þessa frumv. um kapp; vér höfum lýst því yfir, að þetta væri ekki flokksmál. Annað mál er það, að mikill hluti flokksins er því fylgjandi, og er það vottur þess, að þeir menn skilja málið rétt. En minni hlutinn hér á þingi hefir jafnan staðið sem einn maður á móti frumv., svo hefir kapp þeirra manna verið mikið, og það er ekki undarlegt, þó að málið verði kappsmál með því lagi, ef slíku fer fram dag eftir dag.

Þessi ákaflega hátíðlegu ummæli h. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), um að ekki mætti heyja þingið fyrir luktum dyrum, er brosleg næsta, þegar til þess er litið, að hér er als ekki um neitt slíkt að ræða. Allir vita, að þingið er og verður háð í heyranda hljóði, hvað sem líður þessu nýmæli. Hitt er það, að það er þjóðin sjálf, almenningur út um land, sem hirðir ekki um að kynna sér það sem talað er á þingi fremur en ef það gerðist fyrir luktum dyrum. Hún hagnýtir sér ekki betur en það þennan dýrmæta fjársjóð, þessa miklu bók, alþingistíðindin, sem þjóðinni er send á landsins kostnað, og enginn eða varla nokkur maður les í heilum sýslum. Eg veit að þingtíðindin eru töluvert lesin sumstaðar, t. d. í Þingeyjarsýslu. En hvað sannar það? Þingeyingar lesa manna mest bækur, þeir eru alætur á prentað mál, ef svo mætti að orði kveða. Þeir lesa líklegast hverja bók, sem út kemur á íslenzka tungu, spjaldanna á milli.

Um þetta atriði um atvinnutjónið, að frumv. bakaði einni stétt manna atvinnutjón, sem sé prenturunum, er það að segja, að ekki er mér um að kenna þær umræður, sem út af því hafa spunnist. Eins og kunnugt er, hefir komið fram áskorun frá þessari stétt um að halda áfram prentun alþt., annars hefði enginn á þetta minst.

Um forseta síðasta þings sagði eg það eitt, að eg hefði heyrt, að þeir væru hluthafar í þeirri prentsmiðju, sem þeir sömdu við um prentun. Og munu þeir vera óskemdir af þeim ummælum mínum, enda enn ósannað mál, hvort þeir séu hluthafar eða ekki.

Það atriði, að þjóðin viti ekkert um þingið nema hún fái þingtíðindin, er og ekki rétt. Blöðin flytja allra helztu fréttir af þinginu; þar við bætist og að þingtíðindin koma svo seint til manna, að þeir muna ekki orðið eftir málunum, eða eru fyrir löngu hættir að hugsa um þau.

Ef annars er um að ræða kappsmál, þá er munurinn á flokkunum sá, að meiri hlutinn vill spara, en minni hlutinn eyða. Það er sama um hvern hégóma, sem er, að minni hlutanum þykir sjálfsagt að eyða úr landssjóði til þess, sem síður hefir verið til áður.

Mér þætti nógu fróðlegt að heyra, án þess að eg geri nokkra rekistefnu út af því, hvað háttv. þm. Vestm. (J. M.) átti við með því að drótta því að mér, að mér hafi gengið eitthvað annað til þess að flytja þetta frumv., en þær ástæður, sem eg hefi greint. Samt sem áður liggur mér slík aðdróttun í léttu rúmi.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) fór að tala um það, að eg hefði sölsað undir mig prentun skjalapartsins. Honum má þó vera það vel kunnugt, að það eru deildaforsetarnir, sem því ráða sem öðru, er þinginu við kemur í þá eða þvílíka átt; forseti sameinaðs þings kemur þar hvergi nærri.

Sami háttv. þm. talaði um ljósfælni. Það er stórt og skáldlegt orð, en ef um nokkura ljósfælni er að ræða, þá er hún hjá virðulegum kjósendum þessa lands, því að ef þingtíðindin hafa svo mikið ljós að geyma, sem sumir þm. vilja vera láta, þá er það ljósfælni að vilja aldrei opna þá bók. Eg segi ekki, að bókina opni í hæsta lagi ?20, ?50 eða ?100 hluti kjósanda, en fáir eru þeir. Svo er og þess að gæta, að kjósendur fá þrásinnis ekki að heyra það, sem þm. hafa sagt eða vildu sagt hafa, þegar þeir töluðu, heldur það, sem þeir vildu eftir á mælt hafa, þ. e. eftir að búið er að hrinda því, sem þeir sögðu eða það, sem skrifararnir hafa náð. En óvanir menn geta ekki náð ræðum vel, sem ekki er von. Það er oft og einatt ekki heil brú í því, sem þeir skrifa fyrst. Þetta er ekki sagt þeim til hnjóðs, það er eðlilegt, að slíkar tilraunir mistakist í fyrstu.

Eg vil skjóta því til háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), þó að hann vildi raunar ekki heyra neitt um atvinnustyrk, hvort ekki væri nær að verja þessu fé, sem fer í prentun alþt. til þess að gefa út þarfari bækur, t. d. kenslubækur, sem svo mjög vanhagur um. (Jón Ólafsson: Fé er veitt til þeirra). Veit eg það, en mætti þá ekki auka það að miklum mun.

Eg endurtek það, að ef meiri hlutanum er þetta kappsmál, þá er það í því skyni að spara, en hinum í því skyni að eyða, það er ómögulegt að taka það öðru vísi; og tillagan sú, að setja nefnd í málið er af þeim toga spunnin, að minni hlutinn vill svæfa málið. Mín tilætlun er sú, að ef þetta frumv. verður samþykt, þá verði gefinn út sem áður skjalapartur, því að hann verður hvort sem er að prenta handa þingmönnum. En þar úr er mestan fróðleik að hafa, þar sem eru nefndarálit, breyt.till. o. fl. Þar með sé og prentuð gerðabók þingsins með atkvæðagreiðslum (nafnakalli m. m.). Sömuleiðis virðist mér og hlýða, að prentaðar væru umræður um sambandsmálið, enda hafa og margir æskt þess. Með þetta er eg sannfærður, að þjóðin verður harðánægð, enda hafa margir merkir menn látið þá skoðun sína uppi.

Eg mótmæli því, að nefnd verði sett í málið, og vona, að það fari nefndarlaust til 3. umr.