08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

110. mál, þingtíðindaprentun

Jón Magnússon:

Það er langt frá því, að eg vildi beina því að háttv. flutningsm. (B. J.), að það væri af eigingjörnum hvötum, að hann flytti þetta frv. og fylgdi því svo fast fram; eg tók það þvert á móti fram, að svo mundi ekki vera. Hitt sagði eg, að þegar væri verið að koma slíku máli fram með afbrigðum, og það er eigi væri lengra áliðið þingið, þá yrði manni að detta það í hug, að eitthvað annað byggi undir, en það sem komið væri í ljós, hvað sem það svo kynni að vera.

Háttv. flutningsm. (B. J.) sagði, að meiri þörf væri á að styrkja útgáfu kenslubóka, heldur en að eyða svo miklu fé til þingtíðindanna, en eg vil benda á, að ekki stendur á þinginu að styðja útgáfu slíkra bóka, heldur miklu fremur á höfundunum. Sá styrkur, sem þingið ver í þessu augnamiði, er víst það eina fé, sem sjaldnast gengur upp.

Annars skal eg ekki lengja frekar umr. um mál þetta. En vil styðja þá till., er fram hefir komið um það, að nefnd sé sett í málið.