08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

110. mál, þingtíðindaprentun

Hálfdan Guðjónsson:

Það lítur svo út, sem þetta mál sé orðið að kappsmáli, og kemur mér það mjög á óvart. — Hélt, að menn mundu alment álíta þetta frumv. meinlaust, og það er það óneitanlega; en þó er það ekki þýðingarlaust, líti maður á það frá sparnaðarhliðinni.

Það hefir verið talað um atvinnuspjöll í sambandi við það. Hverja snerta þau atvinnuspjöll? Prentara og þingskrifara; en því er búið að svara rækilega.

Einnig hefir verið sagt, að við afnám alþingistíðindanna mistust ýms mikilvæg sögudrög, en mér finst sú ástæða vera nokkuð veigalítil. — Eg get ekki skilið, að nokkur mundi sá sagnfræðingur, er entist til þess að pæla í gegn um öll alþingistíðindin. Það getur verið satt, að með þessu afnámi færi skemtun nokkurra manna forgörðum og fárra þó. En er hún ekki nokkuð dýr skemtunin sú?

Mér finst menn ekki athuga það nógu vel, að hér er einungis um heimild að ræða, að ekki þurfi að sjálfsögðu að prenta alþingistíðindin. — En ef þjóðin óskaði, að þau yrðu prentuð framvegis, eins og að undanförnu, þá yrði það auðvitað gert. — Þessir menn, sem nú beita sér á móti þessu frumv. segja, að hér sé að eins um innanþings-raddir að ræða, er andæfi prentunar-skyldunni. Þetta er ekki satt. Úr talsvert mörgum áttum hafa komið fram óskir mætra manna um það, að prentuninni yrði hætt.

En skyldu nú þessir menn geta bent á margar raddir utan þings, er vilja það, að þessu sé haldið áfram? Þá hefir því verið haldið fram, að ekki væri annarsstaðar að fá verulegan pólitískan fróðleik en í þingræðunum. Þá vil eg segja, að ekki væri síður þörf á að láta prenta það, sem gerist á nefndar-fundunum. Ein stærsta og mikilvægasta ástæðan gegn því, að ræður þessar séu prentaðar, er sú, auk kostnaðar-atriðisins, að með því er tíma þingsins mjög eytt til óþarfa.

Þess ber og að gæta, að flestar þær ræður, er nokkurt bragð er að, eru prentaðar í blöðum landsins á heppilegasta tíma, það er meðan málin eru á dagskrá hjá þingi og þjóð.

Þá er og sagt, að það sé af ljósfælni, að þessu er fylgt fram, það er að segja, að menn séu hræddir við það að láta sjá ræðurnar sínar á prenti. En er það þá af ljós-fælni, að áskoranir hafa komið fram víða utanþings um þetta efni?

Alkunn eru orðin: »Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá!«. Þegar til bókanna er litið, þá getur ekki verið um neina ávexti að ræða, nema þær séu lesnar. — Ætti að dæma gagn þingtíðindanna eftir þessu, hygg eg það mundi verða næsta lítið, því að lítið eru þau lesin og af fáum. Hagsýnn mundi varla sá bóka-útgefandi þykja, er tæki það að sér að gefa út þingræðurnar. Það væri óðs manns æði, þar sem það er víst, að sú bók yrði ekki keypt svo heitið gæti. Getur það þá verið hyggileg ráðstöfun og samvizkusamleg að lögskipa útgáfu þeirra á kostnað landssjóðs?

Einkennilegt finst mér það, að flestir menn, sem eg hefi talað við hér utan þings, hafa látið í ljósi óskir um það, að þetta frumv. verði samþykt.

Eg er á móti því, að nefnd sé sett í málið. Tel það liggja svo ljóst fyrir, að þess sé engin þörf.