23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Kristjánsson):

Fyrir samgöngumálanefndinni, sem skipuð var hér á þinginu, hafa legið tvö tilboð um samgöngur á milli landa og í kringum strendur þess. Annað tilboðið er frá Sameinaða gufuskipafélaginu, en hitt er frá gufuskipafélaginu »Thore«.

Eins og mönnum er kunnugt, hefir Sameinaða félagið ráðið hér lögum og lofum í samgöngum á sjó um mörg ár. Það hefir einhvern veginn atvikast svo, að það félag hefir alt af haft meiri hl. þings og stjórnina á sína hlið, nema þegar það slys hefir borið til, að þingið hefir ekki viljað leggja öll umráð samgangnanna í hendur þess.

Þetta félag hefir haft algert einveldi frá upphafi, svo að fyrstu árin var t. d. ekki við það komandi, að skip þess kæmu við í Skotlandi, en eftir talsvert þjark fékst það loks til

að leggja leið sína um Leirvík á Hjaltlandi og ástæðan til þess að það vildi ekki koma við í Skotlandi var eðlilega sú að fyrirbyggja, að Íslendingar færu að reka verzlun við Skota. Árið 1878 fengust þó skip hins Sameinaða til að koma til Leith, en þegar reynslan var fengin fyrir því, að viðskiftin uxu við Skotland, fann félagið upp á því að láta skipin hætta að koma þangað, en valdi sér nú aðra höfn, Granton, 1886 til 1897, þar sem kostaði ærna fé að koma vörunum frá Leith og Edinborg til skips og farþegar urðu að labba um ¾ tíma gang til þess að komast frá skipi upp í Leith og til skips.

Á þeim tíma var samgöngum á landi öðru vísi háttað en nú. Það voru ekki lítil óþægindi fyrir farþega að þurfa að fara svo langa leið til aðalborgarinnar Edinborg og Leith. Þessu harðræði urðu landsmenn að sæta í 11 ár, auðvitað öllum sem hlut áttu að máli frá Íslands hálfu til stórama. Loksins vanst það þó á, að félagið fór að koma aftur við í Leith. Allan þennan tíma var als ekki um neina samkepni að ræða. Landsmenn urðu að sæta því sem félagið setti. T. d. var farmgjald 16¾% hærra að vetrinum til en endranær — þó það yfirleitt væri minst 10% hærra en nú. Alment farmgjald var þannig 26¾% hærra en alment farmgjald nú.

Þannig var landið kúgað þangað til »Vesta« var leigð 1895 og að óánægja landsmanna var orðin svo megn, að þingið sá sér ekki annað fært en að reyna að ráða einhverja bót á samgöngunum og á alþingi það ár voru samþykt lög, er heimiluðu landsstjórninni að leigja eitt gufuskip til þess að annast ferðir á milli Íslands og útlanda. En svo stendur á hér, eins og víða hvar annarsstaðar, að skipin, sem nota á, þurfa að vera löguð fyrir þá staði, sem þau þurfa að sigla til. Þess vegna var ekki auðhlaupið að því að fá hentugt skip leigt. Loksins hepnaðist þó að fá skip, eins og þurfa þótti, til þess að samsvara nokkurnveginn kröfum landsmanna; en hvar var það fengið? Það var fengið hjá keppinaut landssjóðsútgerðarinnar, Sameinaða félaginu. Endirinn á þessari útgerð var sá, sem allir vita — að á pappírnum var stórtap — og var margt, sem stuðlaði til þess, þar á meðal að alsendis óvanur maður var fenginn til þess að standa fyrir útgerðinni, að skipshöfnin var venjulega í þjónustu hins Sameinaða o. s. frv. En þrátt fyrir það, þótt tap hafi verið á þessari útgerð á pappírnum, þá hafa þó landsmenn grætt á henni, þegar á alt er litið. Svoleiðis var, að þegar »Vesta« byrjaði ferðir sínar hingað, þá setti hið Sameinaða fragtirnar niður um 10% frá því sem verið hafði áður og vetrarfragtin skyldi vera jöfn og aðra tíma ársins. Síðan hefir þetta haldist. Það sem Íslendingar höfðu upp úr Vestuútgerðinni er bæði strandferðirnar og 10% lægri fragt á sumrum og 26¾% á vetrum, en verið hafði áður. Þrátt fyrir það þó það Sameinaða hafi lofað því að setja ekki fragtina upp úr því, sem hún var meðan Vestuútgerðin var, þá hefir það þó leyft sér að taka 10—20% hærri fragt af ýmsum vörum milli landa og hærri fragt innanlands, en stjórnin hafði leyfi til að semja um sem sé ½ millilandafragt í mesta lagi milli hafna innanlands. Þeim 10% af frögtunum milli landa hefir félagið stungið í vasa sinn af innlendu frögtunum, altaf reiknað fragtina eftir gamla fragttaxtanum, sem var fallinn úr gildi og sem var 10% hærri. Sömuleiðis hefir þetta félag venjulega skotið skolleyrunum við skaðabótakröfum, hversu réttmætar sem þær hafa verið. T. d. skal eg geta þess að síðastliðið ár var stolið eigi alllitlu af vörum úr pakkhúsi þess Sameinaða og þar á meðal talsverðu af vörum, sem eg átti. Stuldur þessi frá félaginu var all-víðtækur og hans getið í dönskum blöðum. Auðvitað voru þessar vörur í ábyrgð félagsins, en þrátt fyrir það fékk eg engar skaðabætur. Einnig má geta þess, að einatt hefir verið kvartað undan framkomu skipshafna við farþegana. Umgengnin hefir verið sæmilega kurteis við hina svo kölluðu heldri menn. En við alþýðumenn hefir alt öðru verið að skifta, það hefi eg sjálfur séð.

Það hefir því af öllu þessu, er eg nú hefi sagt, verið margra manna ósk, að vér gætum átt samgöngur vorar sjálfir, þó ekki væri nema að einhverju leyti. Þó skal eg víkja að því tilboði, sem hið Sameinaða hefir sent þinginu. Það er svo fáránlegt, að t.d. fellur engin ferð frá útlöndum kringum land frá 27. febr. þangað til 5. júní, með öðrum orðum, Norður- og Austurland er samgöngulaust af þessa félags hálfu allan þann tíma, og seinni part ársins eru samgöngurnar frá útlöndum lítið betri. Tilboð það, sem því enn liggur fyrir, er mikið verra en samgöngur undanfarinna ára.

Ennfremur hefir félagið gefið í skyn, að það mundi gefa útvegað bát, sem færi á milli Reykjavíkur og Djúpavogs, — og að eins gefið það í skyn — gegn 20 þús. kr. viðbótarstyrk á ári.

Á síðasta þingi höfðu komið fram kröfur frá almenningi um að hafa kælirúm í skipi til þess að geta flutt fisk, smjör og kjöt til útlanda. Hið Sameinaða hefir ekki sint því að neinu leyti, og stjórnin ekki séð sér fært að útvega það. Einnig hafði hið Sameinaða á síðasta þingi lofað að byggja tvö ný skip til Íslandsferða, ef stjórnin fengi að semja fyrir 8 ár í senn, en um efndirnar vita allir — þau skip eru ókomin enn. Þá skal eg geta þess, að þegar vér spurðum umboðsmann félagsins, sem nú er hér staddur, hvort hann gæti útvegað tvö skip með kælirúmum, eða gert sama tilboðið og á síðasta þingi, svaraði hann því, að félagið gæti als ekki lagt til nein ný skip, eins og stæði, þó um margra ára samning væri að ræða, en að hægt mundi vera að láta Botníu koma staðinn fyrir Vestu, þó ekki fyrstu ferðina í janúar — en úr því árið um kring. En kælirúm það, sem í Botníu er, kvað vera sérstaklega ætlað til þess að flytja í því smjör stutta leið, en als ekki lagað til þess að flytja kjöt og fisk langan veg. Í kælirúmi Botniu kvað vera lægs t2—3° hiti en til þess að hægt sé að flytja fisk og kjöt langan veg, þarf að geta verið minst 3—4° kuldi.

Það er öllum kunnugt, að ólag mikið hefir verið á gufuskipaferðunum til landsins, þannig hafa 2—4 skip stundum farið sömu dagana frá útlöndum og komið hingað í bendu, en svo oftar langir tímar, sem engar ferðir eru. Þetta verður auðvitað altaf í ólagi á meðan vér ekki ráðum að mestu leyti sjálfir yfir samgöngunum — því félögunum verður auðvitað fyrst fyrir að reyna að haga ferðum sem hagkvæmlegast fyrir þau sjálf. Það getur engum dulist, að nauðsynlegt sé að hafa kælirúm í skipunum og að umráðin yfir samgöngunum komist í vora hönd, enda hefir þess verið krafist af almenningi, eins og eg hefi áður bent á að fá bættar samgöngur og kælirúm í skipunum; þá fyrst væri hægt að flytja fisk og kjöt nýtt á markaðinn og þá mundi fara hér sem annarsstaðar, að kaupmenn mundu senda með hverri ferð eitthvað af þessum vörum. Bændur hér nærlendis mundu kaupa fé og naut af bændum úr fjarlægari sveitum og fita það og ala til slátrunar og þá mundi kjötið komast í viðunanlegt verð, er það kæmi alt af nýtt á markaðinn í smærri sendingum. Sömuleiðis er það áríðandi að reyna að tryggja það, að menn fái vörur sínar skilvíslega, er þeir senda með skipunum, og að minsta kosti skaðabætur, ef þær glatast eða skemmast, en til þess að vera öruggur um það, þarf félagið að hafa varnarþing hér.

Hitt félagið, sem sent hefir þinginu tilboð, er Thorefélagið. Það hefir áður sent þinginu samgöngutilboð, 1905 og 1907. Er óhætt að fullyrða að tilboð þess var miklu aðgengilegra en hins Sameinaða, en því var nú samt sem áður hafnað. — Nú er félagið orðið þreytt á að senda þinginu slík tilboð, en hefir nú í þess stað komið með alveg nýtt tilboð og jafnframt nýja leið, nefnilega þá, að landið taki þátt í útgerðinni með því að leggja fram ½ miljón króna. Þetta stendur í hinu prentaða tilboði, sem þm. hafa fengið. En vilji þingið ákveða, að strandbátarnir verði aðeins tveir í staðinn fyrir þrír, eins og tilboðið byggir á, þá nægir, að landssjóður leggi fram 425 þús. kr.

Ýmsir menn hafa sett upp stór augu, er þeir hafa séð tilboð þetta, og sagt að ekki gæti komið til tals að samþ. þetta tilboð, og stungið saman nefjum um það, að þetta væru hreinustu féglæfrafyrirtæki o.s. frv. Nefndin —meiri hlutinn— hefir nú íhugað málið svo rækilega að eg ímynda mér að engin hætta geti leitt af því að taka tilboðinu. Ber þá fyrst að líta á það, að Tulinius er dugnaðarmaður, sem hefir nú um mörg ár rekið skipaútveg, og 1903 gerði hann útgerð sína að hlutafélagi. Hlutaféð er 250 þúsund krónur — alt annað fé hefir verið lánsfé, og er það vottur um það, að félagið hefir mjög mikið lánstraust, en það ber aftur vott um, að félagið ber sig vel, enda sést það af ársskýrslu félagsins, þar á meðal í »Börsen« 30. apríl 1908. 1907 var hagur þess um 17% þrátt fyrir hátt kolaverð og dýra peninga.

Félag þetta hefir aldrei haft neinn styrk, svo að teljandi sé, en þrátt fyrir það hefir það vel getað borið sig og gert landinu mjög mikið gagn, þar sem það hefir auk þess að bæta samgöngurnar sett farm- og fargjöld niður til stórra muna og fæði farþega. Samkvæmt tilboðinu ætlar félagið sér að hafa 4 stærri skip í förum lík á stærð og »Sterling«, auk 2 strandferðabáta og aukaskips. Þegar gætt er að því, að til landsins kemur um 193 þús. smálestir (tonnrúm), en allar áætluðu ferðir Thorefélagsins mundu ekki nema meiru samtals en 21 þúsund smálestum á ári að rúmmáli, þá er smálestatala skipa þeirra, sem þetta félag ætlar að hafa í förum aðeins ca. ? hluti af rúmmáls tonnatali því, sem kemur árlega til landsins. Það getur því engin hætta verið á því, að félagið hafi ekki nóg að gera. Þar að auki eru mikil líkindi til að flutningar aukist. Skal eg því til sönnunar geta þess, að árið 1881 námu útfluttar vörur héðan af landi aðeins kr. 6,766,887 en 1907 nema þær 13,016,460 og aðfluttar vörur 1881 námu aðeins 5,284,892 en 1907 kr. 19,525,225 eða nærri ferfölduðust. Þetta sýnir, að hér er eitthvað að flytja, svo að öll líkindi eru til þess, að fjárhagslega ætti þetta fyrirtæki að geta borið sig.

Félagið hefir undanfarin ár haft nóg að flytja og sýnir það að félagið hefir verið vel séð hjá landsmönnum og að framkvæmdarstjóri þess er dugandi maður. Og auðvitað mundi hið litla veltufé félagsins vera fyrir löngu horfið, ef það hefði ekki borið sig. Og borið hefir það sig, þrátt fyrir það, að keppinautur Thorefélagsins hefir haft háan styrk af dönskum og íslenzkum sjóði. Þess vegna virðist áhættulaust að ráðast í þetta fyrirtæki, því mestar líkur eru til að það geti borgað sig vel, er það fyrst fær opinberan styrk frá Íslandi og að líkindum sömuleiðis frá Dönum, sem keppinautur þess hefir notið að undanförnu. Og þegar svo litið er til þess, að hér er það landssjóður, sem »spekúlerar«, en ekki privatmaður, þá hefir hann miklu meira vald, hið almáttuga löggjafarvald, sér til aðstoðar, því ef í alvöru ætti að leggjast á landssjóð fyrir þessar tiltektir hans, þá getur löggjafarvaldið hvenær sem því sýnist ástæða til gert keppinautum landssjóðsútgerðarinnar svo örðugt fyrir, að ekki sé viðlit fyrir keppinautinn að fara að etja kappi við löggjafarvaldið. Og þrælatökum hins útlenda auðvalds má hnekkja án þess að íþyngja landsmönnum á nokkurn hátt. Þetta vildi eg að eins benda á. — Það hafa komið fram ýmsar raddir um, að landssjóður ætti ekki að »spekúlera« og hefir verið sagt jafnframt, að ekki gerði ríkissjóður Dana slíkt. Þetta er eigi als kostar rétt, því Danir hafa samgöngufæri bæði á sjó og landi, sem eru ríkiseignir, t. d. gufuskip millum Korsör—Kiel, og sömuleiðis »De danske Statsbaner« með tilheyrandi ferjum, og sem þeir vilja als eigi láta vera í einstakra manna höndum. En hér á Íslandi stendur alt öðru vísi á. Í öðrum löndum vantar aldrei menn, sem vilja og geta »spekúlerað«, en hér vantar féð. Þótt nú alþ. vildi veita 60,000 eða hundrað þúsund eða hvað það nú yrði til þess konar félags, þá eru engin tök á að stofna það né líkur til að slíkt yrði gert af hálfu Íslendinga og þá verður landssjóður að gera það sjálfur, ef það á að gerast á annað borð. Menn leggja mikla áherzlu á, að þetta félag muni ekki borga sig betur á pappírnum, en t. d. Vestu-útgerðin, en eg fyrir mitt leyti legg eigi svo afarmikið upp úr því. Hinn óbeini hagur getur verið svo geysimikill, þótt tap sé á pappírnum, en eg er líka ekki í nokkrum efa um, að hagur myndi verða að þessu fyrirtæki einnig á pappírnum. Það væri þinginu um að kenna, ef svo reyndist ekki. Það er og enginn efi á því, að þetta mun eina leiðin til þess að geta stefnt viðskiftunum í þá hina réttu átt, að sækja vörurnar sem mest til framleiðslulandanna. Danmörk er ekkert annað en umskipunarland, og það hefir verið sagt um Danmörku, og það með fullum rökum, að hún framleiði eigi annað handa okkur en tóbak og brennivín. En eg vildi geta þess í þessu sambandi, að í Þýzkalandi er brennivínið samt að mun ódýrara en í Danmörku. Jafn framt því að slegið er föstu, að Danmörk er einungis umhleðsluland, hlýtur hagurinn af öllum vörum, er t. d. frá Þýzkalandi koma að lenda að miklum mun í Danmörku. Með þessu fyrirtæki getur maður útilokað einveldi yfir farmgjöldum, fyrirbygt að nokkurn tíma sé hægt að slá hring um vöruflutningana, að og frá landinu, eins og áður var á meðan hið Sameinaða var eitt um hituna. Mönnum kann að virðast, að eigi sé mikil hætta á slíku nú, sökum þess, að 3—4 félög reka sem stendur siglingar hér við land, sem mynda næga samkepni. En gæti eigi svo farið, að félög þessi mynduðu samband sín á milli og settu upp farmflutningsgjöldin til þess að þau öll gætu borgað sig, hvort sem landsmenn hefðu þörf fyrir þau öll eða eigi.

Svo má ennfremur geta þess, að til þess að stórkaupmenn geti þrifist hér á landi þurfa þeir að geta notað sama innkaupsmarkað og erlendir, danskir, stórkaupmenn, þurfa, með öðrum orðum að hafa beinar og greiðar samgöngur við framleiðslulöndin.

Konsúll Thomsen reyndi einu sinni að fá því framgengt, að skip hins Sameinaða gufuskipafélags kæmu við í Lübeck, en danska auðvaldið sagði nei. Slíkt getum vér eigi þolað, að auðvaldið danska hafi umráð yfir samgöngum vorum, en því er ver, að margir hér á landi munu því talsvert háðir; og þótt hið Sameinaða gufuskipafélag hafi átt og eigi hér enn vissa lífsábyrgð utan þings og innan, mun svo eigi verða um aldur og æfi.

Eg vil eigi fara mikið út í hina pólitísku þýðingu, sem þetta fyrirtæki gæti haft, en álít í stuttu máli sagt, að ef landið tekur samgöngurnar í sína hönd hafi það náð í lykilinn að sjálfstæði sínu. Þó myndi eg enn eigi ráða til að gera þetta, nema landið hefði mönnum á að skipa, sem færir væru um að takast forstöðu slíks fyrirtækis á hendur; en nú vill svo heppilega til, að vér höfum einn slíkan mann, dugnaðar- og framkvæmdarmanninn Þórarinn E. Tulinius. Hefðum við ráð á fleirum slíkum mönnum, myndi eg leggja til, að landið tæki þetta fyrirtæki strax að öllu leyti í sínar hendur, en af því svo er eigi verðum vér enn að bíða betri tíma, en jafnframt eru svo útbúnir samningarnir, að landið getur, hvenær sem það vill, lagt alt félagið undir sig. Eg vil geta þess, sem eg gleymdi að taka fram áðan, að hlutir landssjóðs verða 4% forgangshlutir, og ætti það eitt út af fyrir sig að vera nægileg trygging.

Svo vil eg víkja ögn meira að því, hvaða þýðingu það hefir að geta beint samgöngum og viðskiftum hvert sem vill. Þar sem Danmörk er einungis umhleðslustaður, er það jafnhliða dæmi, ef vér sækjum vörur, sem koma t. d. frá Þýzkalandi þangað, og ef kaupmaður frá Vestmannaeyjum yrði að sækja vörur, sem upphaflega kæmu frá Reykjavík til verzlunar í Hornafirði, vegna þess, að Hornafjörður hefði samgöngur við Reykjavík, en Vestmanneyjar ekki. Ef svo stæði á, yrði kaupmaðurinn í Vestmanneyjum fyrst að borga fragtina til Hornafjarðar, álag kaupmannsins þar og annan kostnað, sem af umhleðslunni stafaði. Öldungis stendur nú eins á að hafa Danmörk fyrir umhleðslustöð fyrir t. d. þýzkar vörur.

Eg hefi gert lauslega áætlun yfir þær þýzkar vörur, sem hingað flytjast. Telst mér svo til, að mestur hluti kaffi og sykurs komi hingað frá Þýzkalandi. — Sama er að segja um te, súkkulade og cacao. Þessar 5 vörutegundir námu 1906 um 1,625,000 kr. Vindlar, vindlingar og tóbaksblöð tæpum 100 þús. Af allri vefnaðarvöru, sem flytst hingað til landsins, má áætla að ? komi frá Þýzkalandi, eða árið 1906 hér um bil 1,817,000 kr. Enn fremur lampar fyrir 75 þús. kr. Leir- og glerílát fyrir 113 þús. kr. Þó má geta þess, að lítið eitt kemur af leirvöru frá Englandi, en er miklu lakari vara fyrir sama verð, og því ódýrari á Þýzkalandi. — Stundaklukkur og úr fyrir c. 70 þús. kr., skrifpappír og önnur ritföng fyrir c. 50 þúsund, enn fremur sement, farfi og glysvarningur fyrir c. 484 þús. kr., enn fremur lyf, hljóðfæri, rokkar og plettvörur fyrir c. 105 þús. og ýmislegt fyrir c. 215 þús. kr. Als munu innfluttar þýzkar vörur nema minst 5,179,546 kr. á ári, og eru þó ónefndar ýmsar vörur, sem mikið munar um, sem ódýrari eru þar eftir gæðum en í Danmörku. Þar frá dregst ? fyrir álagningu, eða 1,706,515 kr. og er þá nettó innkaupsverð um 3,473,031 kr.

Nú má gera ráð fyrir, að ágóði sá, sem danskir stórkaupmenn hafa af vörum þessum sé að minsta kosti 10% til jafnaðar og verður það af þessum 3,473,031 kr. 347,303. Þá kemur fragt til Hafnar, flutningur, húsaleiga, assurance o. s. frv., minst 3% af útsöluverðinu hér, 5,179.546 kr. eða 155,386 kr. Þetta er als um 502,689 kr., sem Ísland tapar árlega á því fyrirkomulagi, sem nú á sér stað. Og hér mun þó vera fremur farið of vægt en of hart í sakirnar, því oft verða Íslendingar þess utan að borga Dönum tollinn þar af þýzkum vörum, þegar um smærri kaup er að ræða í senn.

Menn eru sjálfsagt orðnir þreyttir, en eg verð samt að geta þess, að eg hefi heyrt því fleygt, að hið Sameinaða gufuskipafélag muni ætla að koma með einhverja »bombu« inn í þingið, ef það álíti, að það ekki hafi næga lífsábyrgð í þinginu, en hvernig hún verði er ekki gott að segja. Tilboð umboðsmanns gáfu engar sérstakar bendingar í þá átt, en hætt er við, að mundi fara eins og 1897, þegar félagið var að drepa Thore-tilboðið, að það gæfi glæsilegt tilboð, en stæði svo ekki við það á eftir.