23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Kristjánsson):

Mikið og margt hefir háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) látið sér um munn fara, en ekki hafði eg búist við af honum jafn skýrum manni að heyra eins margar yfirskinsástæður. Þær snerta ekkert aðalefnið. Hann byrjaði með að segja, að félagið væri svo skuldugt, að það mætti heita á hausnum. Það er nú eins og annað, sem háttv. þm. segir, ekki sem allra áreiðanlegast; en látum svo vera að það sé á heljarþröminni. Það getur margt fyrirtæki verið það, þótt það í sjálfu sér sé gott og arðvænlegt. Það getur t. d. verið af því, að það vanti meira veltufé, að fyrirtæki borgi sig ekki, sem í sjálfu sér sé arðvænlegt, en hins vegar þó viðsjárvert að reka það með mjög miklu lánsfé, að það sé með öðrum orðum hentugast að fá hlutaféð aukið. Ummæli 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sanna því ekkert nema síður sé. Í öllum atriðum voru orð og aðfinslur háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) tómur reykur og ekkert annað og sönnuðu

jafnvel stundum alt annað en hann ætlaði þeim að sanna, sönnuðu, að það væri heppilegast að taka tilboðinu. Hann gat þess, að nú væri járn fallið mjög í verði og verð skipanna því lágt. Þess vegna vill hann ráða landssjóði frá að kaupa nú!! Eg álít nú þvert á móti, að heppilegast sé að kaupa, þegar kaupvaran er í lágu verði, að minsta kosti er það almenn viðskifta- og verzlunarregla að álíta svo, og er það næsta leitt, ef kennari verzlunarskóla Íslands er henni svo ókunnugur. Já, tíminn er einmitt hagkvæmur nú til skipakaupa. Við getum ekki með neinu móti gengið út frá því, að Thoreskipin verði virt eingöngu eftir því, hvað kostað hefir að byggja þau á sínum tíma og þar frá dregið að eins árlegt slit. Virðingamennirnir verða að sjálfsögðu að taka tillit til gangverðs skipanna, taka tillit til, hvað þau mundu nú seljast fyrir? Ummæli hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), sem koma í bága við þetta, eru því tómur reykur. Að skip, sem hafi verið virt á rúmlega 120 þús. hafi 18 mánuðum seinna verið selt á 72 þús. kr. sannar ekki neitt. Tækifæriskaup geta altaf fyrirkomið. Sérstaklega er eg hissa á, að sami þm. var mjög margorður um kolaeyðslu Sterlings. Sterling eyðir þó ekki nema 10 tons á sólarhringnum, en Vesta t. d. um 20 tons, Ceres 17 tons. Og hver borgar þessa tvöföldu kolaeyðslu Vestu? Íslendingar vissulega, borga hana í minkuðum samgöngum, færri ferðum. Laura og önnur skip þess Sameinaða hér við land eru líka miklu kolafrekari en Sterling. Annars þarf eg ekki að vera að svara 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) því með sinni löngu ræðu hefir hann ekki hnekt einu einasta atriði, sem eg sagði.

Það getur vel verið, að þetta lestagjald verði lagt á, en það er auðvitað gert til þess, að þjóðin njóti góðs af, því í þessu efni er aðeins framkvæmt það, sem þjóðinni í heild sinni er fyrir beztu. Og um slíkt lestagjald yrði aldrei að ræða, nema ef útlent auðfélag ætlaði að beita landssjóð þrælatökum. Fragttaxti landssjóðsútgerðarinnar ætti auðvitað að vera jafn lágur og hann er nú að minsta kosti. Hinn háttv. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagði, að það hlyti að verða stórskaði að þessum kaupum, því samkepnin yrði svo mikil, að hún setti þetta gufuskipafélag alveg á hausinn.

Borg, sem á að verjast, má ekki leggja niður vopnin, heldur verður hún, ef einhver von er um sigur, að nota þau. Hinn háttv. þm. er sýnilega á gagnstæðri skoðun. Hann vill að sá sem sækir að borginni, (hið Sameinaða) ráði því, hvernig hún sé varin. Aðalástæðurnar forðaðist hann að nefna, og þær eru margar. Þá er eitt atriði, er komið hefir fram aftur, og það er um þann ágóða, er af skipströndum getur leitt. Eg hefi aldrei heyrt, að gróði væri að ströndum, allra sízt þegar skipin eiga að fylgja fastri ferðaáætlun, eins og Thoreskipin hafa gert. Það er næstum ávalt meira eða minna tjón samfara skipstapi. Þegar »Ingi kongur« fórst var það ekki gróði fyrir Thorefélagið, heldur fyrir Þórarinn Tulinius sjálfan, sem keypti skipið af ábyrgðarfélaginu fyrir eigin reikning, eftir því, sem eg bezt veit, og þeir hagnaðarpeningar runnu allir í hans eigin vasa. Ef háttv. þm. vill halda fram því gagnstæða, er hægt að sýna honum með skýrum rökum, hver sannleikurinn er í þessu atriði. Háttv. þm. (J. Ó.) læst ekki skilja, hvað átt er við með forréttindahlutum; það er eins og eg hefi áður sagt, að ef tap verður á útgerðinni, missast fyrst hinir almennu hlutir 300 þús. kr. og varasjóður 60

þús. kr., áður en landssjóður tapar nokkru. Ef hann er í nokkrum vafa um þetta býð eg honum að koma með brt.till. við frv., sem taki af allan vafa í þessu efni. En ef br.till. eða br.till. koma engar frá honum, verð eg að skoða allar aðfinslur hans um þetta atriði yfirskinsástæður og ekkert annað, og þær koma auðvitað af því að hann langar til að segja eitthvað og mótmæla, en hefir engin gögn í höndum til þess.

Það er alveg út í bláinn að segja, að skip sem keypt voru fyrir 300,000 séu seld aftur fyrir 800,000. Hann tekur ekkert tillit til þess að hvert skip út af fyrir sig verður matið til verðs af óhlutdrægum og hæfum mönnum, er dómkvaddir verða til þess. Hann gleymir alveg hinni björtu hlið þessa máls, og hleypur algerlega fram hjá höfuðatriðunum. Það er ósk mín, að menn vildu temja sér að eyða ekki tíma þingsins til slíks óþarfa, því með því móti er tímanum, sem er mjög dýrmætur, hörmulega illa varið.