23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Bjarni Jónsson:

Eg hefi aldrei verið í neinum vafa um það, að hollast mundi fyrir landið, að það hefði í sinni hendi samgöngurnar við önnur lönd og eftir staðháttum okkar hljóta þær að vera á sjó. Þess vegna er nauðsynlegt að eiga skip, og ef einstaklingar hafa ekki ráð á því, þá verður þjóðfélagið sjálft að taka þær í sínar hendur.

Fyrir þessari skoðun ætla eg ekki að færa neinar sérstakar ástæður aðrar en þær, sem allir vita, sem eru eðli hlutanna og sagan. Ekkert eyland getur blómgast nema það ráði yfir sínum skipastól, má t. d. nefna England. Það á sinn eigin skipastól og er voldugasta land í heimi, en hann hefir kostað það offjár oft og einatt. því til sönnunar vil eg benda á það, að Englendingar hafa ekki æfinlega staðið þann veg að vígi, því einusinni voru það Hollendingar, sem voru einráðir yfir fiskimiðunum við strendur þeirra. Englendingar fóru þá að reyna að ná þessum yfirráðum í sínar hendur, og mynduðu stórfélög, er hvert á fætur öðru fóru á höfuðið. (Hannes Hafstein: Var það ríkissjóður, sem átti þau)? Tapið nam oft tugum miljóna, en bæði ríkið og konungurinn tóku hluti í þeim.

Þessi spurning háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) kemur heldur ekki við málinu. Vér sem erum lítil þjóð, höfum ekki ráð á ríkum einstaklingum, sem færir eru til þess að leggja fram fé til slíkra fyrirtækja, og þá verður landið að gera það. Vér viljum gjarnan hafa dæmi annara þjóða til eftirbreytni og þykir alt ónýtt, ef það vantar, en þó má ekki láta þessa skoðun ná ofmiklu valdi eða ganga of langt. Í þessu efni höfum vér þá einmitt dæmi frá frændum okkar. Á vesturströnd Noregs treystist enginn fyrir fáum árum að taka að sér samgöngurnar þar. Þá gekk ríkið í félag við einstakra manna félag, sem stofnað var þar, og skildist ekki við það fyr en félagið var stórt og traust.

Ísland hefir enga reynslu í þessum efnum. Eg tel það ekki, þótt landið fengi einu sinni ungan kaupmann, sem enga reynslu hafði í þessum efnum, til þess að standa fyrir ferðum, er 1 dallur fór. Skaðinn af þeim ferðum var skiljanlegur. Kolaeyðslan var mikil, því ekki var öðru til að dreifa en að leigja einn af kolabátum Sameinaða félagsins og fyrirtækið of smátt til þess að það gæti borið sig.

Fyrirtækið margborgaði sig þó, þegar á alt er litið, því þótt af því leiddi beint tap fyrir landssjóðinn, þá græddi landið stórfé á því. Þetta er ómótmælanlegt, því að fargjöld og farmgjöld lækkuðu þá fyrst að stórum mun og mun það fé, sem á þann hátt er sparað, nema miklu meiru, en það fé sem landssjóðurinn tapaði.

Eg skal játa það, að samkepni getur komið fyrir t. d. að Sameinaða félagið reyndi að keppa, þótt það sé ekki líklegt, að það gerði það við félag, sem landið ætti hlut í og heldur er það ekki líklegt, að það myndi hlaupa með íslenzka kaupmenn eða aðra góða menn, þeir myndu of þjóðræknir og skynsamir til þess að láta augnablikshagsmuni aftra sér frá því að styrkja innlent félag. En ef svo færi, að óeðlileg samkepni ætti sér stað, þá eru ráð til þess að styrkja útgerðina, með löggjöfinni og get ekki séð, að menn þurfi að ganga með svo skafna og hreina samvizku, að þeir álíti ekki leyfilegt að verja sig, ef á oss er ráðið. (Jón Ólafsson: Það erum vér, sem erum að fara í stríð.) Það eru ekki vér, sem erum að fara í stríð, heldur er sá að fara í stríð, sem reynir að drepa fyrirtækið og eg hygg að flestum muni það fyrir að verja sig, ef á þá er ráðið.

Líkurnar fyrir því, að þannig lagað félag yrði undir í samkepninni, eru mjög litlar, þar sem bæði löggjöfin og landsmenn standa með því og styðja það, ef á reynir.

Annað aðalatriðið í þessu máli er það að greiða fyrir eðlilegum vegum verzlunarinnar. Í því efni hefir Sameinaða félagið gert oss mjög erfitt fyrir. Það hefir látið vörur í Leith bíða fleiri mánuði og fylt skipin í Höfn, þótt það væri búið að fá tilkynningu um vörurnar í Leith. Alt sýnir, að þetta er gert með vilja og ráði til þess að halda verzluninni sem mest í höndum Dana, enda hafa þeir viðurkent það að vera múrbrjót sinn í þessum efnum, og það ætti að halda sem bezt við verzlunarsambandi milli Íslands og »móðurlandsins« og ekki gæti verið að tala um að það hefði samgöngur við Þýzkaland eða England. Svipað þessu var sagt í konungsveizlugleðinni og þetta er skoðun Dana í þessum efnum; hvort sem hægt er að sanna það lögsönnun eða ekki, þá er þetta eitt satt og rétt.

Allir hljóta að sjá það, hvað það er afaróeðlilegt, að þýzkar vörur taki krók á hala sinn til Hafnar, og að það hlýtur að gera þær miklum mun dýrari. Þó ekkert væri annað en flutningsgjaldið, þá er það stundum dýrara á vörum frá Hamborg til Hafnar en frá Höfn til Íslands. En auk flutningsgjaldsins legst á vöruna umboðslaun og margt fleira.

Verzlunin við Þýzkaland eykst ár frá ári og mjög stór hluti af þeim vörum, sem vér fáum frá Danmörku, eru þýzkar. Það er því óneitanlega eðlilegra, að reynt verði að sveigja verzlunina í það horf, að vér fengjum vörurnar beina leið frá framleiðslustaðnum, og þess vegna er eðlilegast fyrir oss að skifta aðallega við Þýzkaland og England. Að halda verzlun vorri fastri við Eyrarsund er stórtjón fyrir landið og það borgaði sig áreiðanlega að sigla með talsverðum skaða til þess að koma verzluninni þaðan og til þeirra landa, sem hún eðlilega á að vera í.

Af þessum ástæðum er eg sannfærður um, að landið á að taka samgöngurnar í sínar hendur. Og það er nauðsynlegt, að landið geri það vegna þess, að einstakir menn hér á landi eru ekki svo efnum búnir, að þeir geti það. Það er ekki til neins fyrir menn að blása sig út sem froska og gera sig stóra og segja, að það sé einstaklingurinn en ekki landið, sem eigi að hafa samgöngurnar á hendi. Þeir verða að hleypa vindinum burtu og sjá það eitt, sem er framkvæmanlegt.

Landssjóður er sá eini, sem getur í staðið straum af útgerðinni til þess að í byrja með, og það er alt annað með lítil en stór ríki, er hafa marga auðmenn. Hitt er ekki ólíklegt eða óframkvæmanlegt, að landið reyndi smátt og smátt að fá íslenzka kaupmenn og aðra Íslendinga til þess að kaupa hluti í fyrirtækinu og ætti það að standa í lögunum, að landssjóður gæti látið útgerðina af hendi til íslenzkra hluthafa, með sömu skilmálum og það rekur hana.

Það er auðvitað mikið fé, sem landssjóður þyrfti, ef hann ætti að leggja fram alt féð til þvílíks fyrirtækis, en það er í raun og veru ekkert á móti því að leyfa útlendingum að vera með, að eins ef landið tryggir sér yfirráðin og áhættan er gerð sem minst.

Þá kem eg að því frumv., sem hér liggur fyrir. Eg skal geta þess, að í því formi sem frumv. er nú í, get eg ekki verið með því. En það mætti auðveldlega laga það.

Það getur als ekki komið til mála að segja, að landið eigi að kaupa hlutabréf í hlutafélaginu »Thore«. En þótt það standi nú svona í frumv., getur það þó naumast komið til mála að hægt sé að draga þá ályktun af því, sem 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) leyfði sér að gera í gær og segja, að landið ætlaði að borga skuld fyrir Thorefélagið, en það er kalt kattargamanið. Hitt er hugsun nefndarinnar og þess, sem tilboðið hefir gert, að það sé myndað nýtt félag, þar sem landið á meiri hluta hlutabréfanna eða nálægt ? en aðrir ? og Thorefélagið biðst að eins eftir að hafa forkaupsrétt að þessum ? hlutanna og jafnframt því, að skip félagsins séu keypt samkvæmt sanngjörnu mati.

Ef þessu er þann veg fyrir komið, þá sé eg ekkert á móti því, að slíkt félag verði stofnað, og þótt landssjóður tapaði ½ milj. kr., þá mundi það samt borga sig fyrir landið.

Þetta nýja félag ætti að heita landssjóðs útgerð eða eitthvað í þá áttina, og öll ákvæði frumv. ættu að hníga í þá átt að tryggja landinu yfirráðin. Það álít eg auðvitað gott og sjálfsagt til tryggingar, að hlutir landssjóðs séu forréttindahlutir (præference Aktier). — Það hefir verið deilt um það, hvað lægi í orðinu forréttindahlutir. Eg hygg að þeir geti verið með ýmislegu sniði, t. d. eins og tekið var fram í gær af 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), að forréttindin næðu að eins til rentu hlutabréfanna, og líka á þann hátt, að forréttindin nái ekki einungis til arðsins af hlutabréfunum, heldur einnig að ekki megi snerta við fé því, sem í þau er lagt, fyr en hin hlutabréfin eru eydd, ef um tap er að ræða, og það sem er aðalatriðið í þessu máli er það, að þetta síðasta er meining nefndarinnar. Þetta get eg sannað, með því að sá maður, sem fer með umboðið fyrir félagsins hönd, hefir lýst þessu yfir. — Þessu þarf einnig að breyta í lögunum eitthvað í þá átt, að það standi 4% forréttindahlutir, sem ekki skerðist fyr en hinir eru eyddir.

Í liðnum D. þarf að breyta í þá átt að hlutafélagið Thore gefist kostur á því að hafa forkaupsrétt að hinum almennu hlutum fél., en að landið geti innleyst þá, ef það vill. Ef það félag vill ekki kaupa hlutina, þá sé öðrum gefinn kostur á þeim. Eg vonast eftir, að eg geti komið mér saman við nefndina með þessar breytingar og að hún leggi þær fram við 2. umr. Eg tel þetta sjálfsagt, af því að eg veit að hugsunin í frumv. er sú, að þetta eigi að vera nýtt félag og með nýju nafni, sem landið hafi öll yfirráð yfir.

Sumir hafa talað mikið um, að landið mundi kaupa þessi Thore-skip dýru verði, en að sjálfsögðu treysti eg svo þinginu að ganga svo frá lögum þessum og stjórninni að sjá um framkvæmdir þeirra, að landinu sé trygt, að það kaupi ekki léleg skip með uppskrúfuðu verði. Það má setja ströng skilyrði, er tryggja slíkt. Skal svo ekki orðlengja þetta meir að sinni, en vona að nefndin taki athugasemdir mínar til greina.