23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Benedikt Sveinsson:

Mér þykir skylt að gera nokkra grein fyrir skoðun minni um þetta mál, einkanlega fyrir þá sök, að eg hefi verið í samgöngumálanefndinni, sem fengið hefir ýmsar hnútur fyrir starf sitt og till. Ætla eg þá jöfnum höndum að svara ýmsum þeim árásum, sem nefndin hefir sætt.

Framsm. minni hluta nefndarinnar (Jóh. Jóh.) í þessu máli fór mörgum orðum um það, að mál þetta hefði átt að koma til þingsins undirbúið af stjórninni. Þetta hefði auðvitað verið æskilegast, enda telur hver dugandi og röggsamleg stjórn skyldu sína að undirbúa málin sem bezt, og það var því ekkert annað en skeytingarleysi hjá fráfarandi stjórn að undirbúa ekki samgöngumálin undir þing. En það nær engri átt að saka meiri hluta nefndarinnar um hirðuleysi og vanrækslu fráfarandi stjórnar. Engin bót var að því að halda sama athafnaleysinu áfram.

Framsm. minni hlutans (Jóh. Jóh.) lét sér um munn fara, að nefndina skorti ábyrgðartilfinningu, er hún kæmi fram með og mælti með öðru eins máli sem þessu. Eg held að slíkt mætti öllu heldur segja um þá, sem ekkert vilja aðhafast, heldur sitja altaf við sama heygarðshornið öðrum háðir, og ekki reyna nýjar og betri brautir, er þarfir lands og þjóðar heimta. Þá menn skortir sannarlega ábyrgðartilfinningu, sem ekki kosta kapps um að ráða bót á því herfilega fyrirkomulagi, sem verið hefir og enn er á samgöngumálum landsins.

Sami þm. var að bera í bætifláka fyrir Sameinaða félagið. Nefndin hefir átt tal við umboðsmann þess, og var lítið á svörum hans og tillögum að græða. Það verður að herða betur á, ef hann á að koma með aðgengileg og ákveðin tilboð, og treysti eg framsm. minni hlutans (Jóh. Jóh.) til að ná þeim hjá honum sem skárstum, en eins og eg hefi tekið fram, fanst nefndinni ekkert að græða á svörum hans, og taldi því ekki vert að leita hans frekara að sinni. Það er satt, að Sameinaða félagið gefur kost á að leggja til sérstakan bát, sem fari milli Hornafjarðar og Reykjavíkur, en sá böggull fylgir skammrifi, að borga þarf 20,000 kr. á ári fyrir slíkar ferðir og þykir mér þær þá verða nokkuð dýrkeyptar. Hygg eg þá hagkvæmara að fá einhvern Austfjarðabát til að annast þessar ferðir gegn hæfilegu árgjaldi.

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) og 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) bentu á, að varasjóður Thorefélagsins væri lítill, — 32 þúsund króna — og vildu á því byggja, að hagur þess væri ekki góður. En þetta er engin sönnun nema síður sé, þegar þess er gætt, að félag þetta er ungt og hefir átt hættulegan keppinaut við að etja, og auk þess alt af varið gróðafé sínu til þess að bæta skip sín og kaupa önnur ný, í stað þess að leggja féð í varasjóð. Þessi meðferð á fénu ætti því að verða fremur til að efla traust á félaginu, en hitt.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) var hræddur um, að vér hefðum varla hérlendis færum mönnum á að skipa til að framkvæma mat skipanna, og má það satt vera, en á Norðurlöndum er nóg úrval þeirra manna, er fult skyn bera á slíka hluti og treystandi er til að leysa verkið vel af hendi, enda er ástæðulaust að vantreysta landstjórninni eða landsyfirréttinum til þess að velja til þess hæfa og heiðvirða menn. Það er líka ástæðulaust að ætla, að slíkir menn mundu meta skipin eingöngu eftir því, hvað þau hafa kostað í öndverðu; þeir mundu auðvitað miða mat sitt við það verðlag, sem er á skipum alment, þegar matsgerðin fer fram,

Sumir andmælendur frumv. hafa beitt fyrir sig furðumiklum útúrsnúningum, er þeir hafa leitað höggstaðar á meiri hluta nefndarinnar, og ber slíkt ótvírætt vitni um skort réttra röksemda. Til dæmis um útúrsnúningana skal eg benda á orð háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.), sem þó er oftast sanngjarn maður. — Hann vítti framsm. meiri hlutans (B. Kr.) fyrir það, að hann hefði borið það fram, að þjófar væru í Sameinaða félaginu, er hann hefði sagt að vörum hefði verið stolið úr húsum þess í Kaupmannahöfn! Þetta er mjög skringileg röksemdaleiðsla, því að eins og allir vita, þá eru þeir ekki þjófar, sem frá er stolið, heldur hinir, sem taka þjófshendi frá öðrum. Dæmi framsm. (B. Kr.) átti að eins að sýna, að félagið hefði ekki nægilegt gát á munum þeim, sem því væri trúað fyrir að geyma gegn fullri borgun.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) talaði af miklum móði gegn málinu, og beitti meir skáldskapargáfu sinni heldur en rökvísinni, til að verja sitt mál. Hann byrjaði með því að fullyrða, að félagið væri í miklum skuldum, en kvaðst þó ekki vita, hvort það væri satt eða ósatt, og var að heyra sem

það skifti minstu. Á sama grundvelli virtist mér vera bygð allmörg önnur atriði í ræðu hins háttv. þm. Margt af því sem hann sagði mælti meira að segja með því, að rétt væri að ganga að tilboðinu, þegar hugsunin er krufin til mergjar, enda þótt hann vildi láta það sanna hið gagnstæða. Hann sagði t. d., að eimskipafélög erlendis hefðu ekkert að gera nú, og járn væri fallið mjög í verði utanlands, jafnvel að helmingi, svo að verð skipa væri mjög lágt. Það væru því óheppilegir tímar fyrir landssjóð að leggja út í skipaútgerð nú. Eg fæ nú ekki betur séð, en að það sé hentugt fyrir landssjóð að kaupa skip einmitt nú meðan þau eru í lágu verði.

Sami háttv. þm. gat þess, að 20 ára gömul skip væru hreinustu peningaþjófar og kolahítir. Þetta er alveg satt, en einmitt vegna þess hlýtur landssjóðsfélagið, sem ætlað er að hafa að mestu ný skip í förum að standa einkar vel að vígi gegn félagi eins og því Sameinaða, sem hefir að eins gömlum skipum, sannnefndum »kolahítum« á að skipa.

Sami þm. kvað það óráð að ætla að hafa löggjafarvaldið að baki sér til að íþyngja eðlilegri samkepni. Hér er heldur ekki ætlast til aðstoðar löggjafarvaldsins til að íþyngja eðlilegri samkepni, heldur að eins til að verjast óeðlilegri samkepni. — En óeðlilega og óholla samkepni kalla eg það, ef t. d. Sameinaða félagið lækkaði farmgjöld og farþegagjöld um stundarsakir, niður úr því verði, sem hægt er að flytja fyrir að skaðlausu, til þess að keppa við landssjóðsfélagið og koma því á kné og geta síðan orðið einvalda, og unnið skaðann upp margfaldlega á eftir með einokun sinni. Þesskonar »samkepni« hefir engan rétt á sér, og það væri því alveg réttmætt að beita vernd löggjafarvaldsins gegn þesskonar árásum.

Þá sagði háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), að það væri ekkert sjálfstæðisskilyrði fyrir Ísland að eiga öll skip, sem til landsins gengi. Að Ísland eigi öll skip, sem til landsins gangi, hefir heldur enginn ætlast til að svo stöddu og því síður farið fram á slíkt. Hér er einungis að ræða um það spor í áttina, að landið eignist umráð yfir svo sem einum áttunda hluta þeirra skipa, er til landsins ganga árlega, meðal annars til þess að hafa frjálsar hendur að beina viðskiftum landsmanna á nýjar brautir. Eg sé ekki betur en að slíkt sé verulegt spor í sjálfstæðisáttina, en hitt hið argasta niðurdrep og ósjálfstæði að eiga enga haffæra fleytu, enda hefir það réttilega verið talið eitt hið versta óheilla-dáðleysi þjóðarinnar, að Íslendingar hættu sjálfir að sigla til útlanda og eiga viðskifti og verzlun við aðrar þjóðir. Þaðan stafar mest fátækt og hnignan landsins. Þar með var verzlunareinokun Dana leidd í garð og af henni hefir landið hlotið gífurlegra tjón, heldur en af öllum drepsóttum, eldgosum og hafísum. Íslendingar eru fædd siglingaþjóð og þeim því hinn mesti vansi að þurfa að eiga alla flutninga undir öðrum. Það er sannarlega kominn tími til þess að hefjast handa, og reyna að fara sem frjálsir menn ferða sinna landa á milli, eins og aðrar þjóðir gera, þær sem nokkur þrifnaður fylgir.

Það er ekki gott að vita, hvað h. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) skilur við »sjálfstæði«, en eg fæ ekki betur séð en að það sé í sjálfstæðisáttina að hafa vald yfir samgöngum sínum, því að meðan vér erum annari þjóð háðir um samgöngur, þá stöndum vér illa að vígi að bjóða henni byrgin, ef í það færi.

Sami háttv. þm. mintist þess í ræðu sinni, að Thorefélagið hefði grætt á ströndum, það hefði ekki annan gróða en þá »guðsblessun«. Eg hefi nú hingað til verið á þeirri skoðun — og svo held eg sé um flesta — að strönd eða skipbrot séu fremur talin til tjóns en gagns þeim, sem fyrir verða, að minsta kosti hefi eg aldrei fyr heyrt þau nefnd »guðsblessun«. Ábyrgðarfélögin borga sjaldnast meira út en það, sem skipin eru verð, oft miklu minna, svo að á því hefir félagið ekki getað grætt, og þótt það kynni að hafa sloppið skaðlaust, að því er beina tjóninu nemur, þá er þó allur óbeini skaðinn eftir. Útgerðarfélagið getur ekki framfylgt ferðaáætlun sinni, þegar skipum þess hlekkist á, traust þess minkar hjá viðskiftamönnum þess, og menn þora síður að sigla með því eða senda með því vörur sínar. Annars er það ekkert undarlegt, þótt skip Thorefélagsins hafi strandað oftar en skip hins Sameinaða, því að Thoreskipin hafa siglt norðanlands og austan á þeim tímum árs, sem hættulegast er, um hávetur, þegar skip hins Sameinaða hafa ekki fengist upp til landsins.

Þá var háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) að gera mikið veður út úr því, að Thor Tulinius hefði átt tal við sig sama daginn, sem hann undirskrifaði umboð sitt til manns þess, er hann fól að semja við alþingi fyrir félagsins hönd og hefði þá ekki minst neitt á málið við sig, — það hefði hann þó átt að gera. En eg er hissa á, að háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) skuli vera að furða sig á þessu. Hr. Thor Tulinius vissi fullvel, að 1. þm. Eyf. (H. H.) var öflugasti talsmaður Sameinaða félagsins, og auk þess, að hann var þá að fara frá völdum, og átti þá ekki meira undir sér en hver annar þingmaður, þess vegna var engin ástæða til að skýra honum fremur frá því, en hverjum öðrum þingmanni.

Sami háttv. þm. lagði mikla áherzlu á það, að landssjóður hefði tapað á Vestuútgerðinni, en eg sé ekki að slíkt sanni neitt viðvíkjandi þessu fyrirtæki. Þótt landssjóður hafi tapað á Vestu, getur hann grætt á þessu fyrirtæki, því að hér er á margan hátt öðruvísi á komið. Þegar landssjóður færðist Vestuútgerðina í fang, þá hafði hann að eins óvönum manni á að skipa til þess að stjórna henni. Maðurinn var ekki þeim starfa vaxinn, og málið að öðru leyti vanhugsað og lítt undirbúið. Menn fóru líka þá óhappaleið að taka skip á leigu hjá sjálfum keppinautinum og það frekustu »kolahít« og »peningaþjóf«, svo að ekki var að furða, þótt útgerðin yrði dýr og skaði allmikill á henni sjálfri, en samt er eg sannfærður um, að óbeinlínis hefir það tap meir en unnist upp, því að Sameinaða félagið lækkaði þá fargjöldin og hefir verið miklu rýmilegra síðan en áður var, þótt ilt sé.

Sami háttv. þm. sagði ennfremur, að ólíklegt væri, að hið fyrirhugaða landssjóðsfélag fengi ríkissjóðsstyrkinn, þessar 40 þús. kr. árlega. Eg held nú, að úr því að styrkurinn, eftir því sem hann sagði sjálfur í ræðu sinni, stóð Thorefélaginu til boða, ef það hefði tekið að sér Íslandsferðirnar eftir samningi við þingið 1907, þá mundu Danir ekki verða svo meinlegir að neita þessu félagi (landssjóðsfélaginu) um hann. Það er alt annað mál, að þeir vilji ekki veita hann til þýzkra eða enskra félaga, og kemur ekki þessu máli við. Annars er það í meira lagi óhyggilegt að vera hér að gefa Dönum undir fótinn með það, að þeir svipti nú ráðgjafa Íslands yfirráðum þessa styrks, sem hann hefir haft rétt til að ráðstafa að undanförnu, og vér höfum að minsta kosti sanngirniskröfu til. Vér eigum að varast þau ummæli, er leitt gefa Dani til íhlutunar um það, er þeir hafa fengið oss í hendur. En það er eins og menn búist við eða óbeinlínis ætlist til þess, að þeir kippi þessum styrk burt, ef landið gerðist svo djarft að keppa við það Sameinaða.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) fór líka mörgum orðum um það, hve óhyggilegt væri að ætla sér að verjast öllum áföllum að eins með tilstyrk löggjafarvaldsins í þessu máli. Ef verjast ætti öllu hugsanlegu tapi með tollum og sköttum og öðrum álögum, þá mætti þetta nokkuð til sanns vegar færa, en til þess ætlast enginn. Hér er að eins átt við, að löggjafarvaldið sé haft að bakjarli til að hamla óeðlilegri samkepni, eins og eg tók áður fram. Það er heldur ekki nema hræðsla ein að ætla, að þetta fyrirhugaða landssjóðsfélag muni ekkert fá að gera; Sameinaða félagið muni taka frá því allan farm og farþega. Þótt margir tortryggi kaupmannastétt vora og telji hana óþjóðlega og illgjarna, svo að hún mundi heldur láta aldanskt félag flytja vörur sínar gegn hærra fargjaldi, heldur en að nota skip landsins, þá get eg als ekki ætlað henni slíkt. Þessi stétt er á framfaraskeiði, eins og aðrar stéttir landsmanna, og er als ekki svo blind, að hún fari að streitast við að hnekkja þjóðlegum nauðsynja-fyrirtækjum, enda gæti slíkt orðið henni dýrkeypt sjálfri. Eg er þess fullviss, að kaupmenn mundu nota íslenzka félagið öllu fremur en hið útlenda að öðru jöfnu. —

Í annan stað ráða kaupfélögin yfir mjög mikilli verzlun nú orðið, og þurfa á miklum flutningum að halda. Hygg eg að auðvelt væri að koma á samningum með félögum þessum og landssjóðsútgerðinni um flutninga á öllum vörum félaganna, og væri það ekki smáræði. Þetta er ekki gripið úr lausu lofti, því að sambandsfundur kaupfélaganna, sem nýlega var háður hér í bænum, gerði ályktun um það, að heppilegt væri, að félögin gerðu í sameiningu samning um alla vöruflutninga sína, eða færu jafnvel að íhuga, hvort þau gæti ekki annast hann sjálf.

Félögin eru þjóðleg og fús til samvinnu og veit eg ekki, hvað ætti að geta aftrað því, að landsútgerðin kæmist að samningum við þau, sem hvorumtveggju væri hagkvæm.

Auk þess, sem nú hefir verið talið, má geta þess, að einn helzti hluthafi félagsins er stórkaupmaður, sem hefir umráð yfir flutningum, er nema alt að 160 þús. kr. farmgjöldum árlega.

Ef hér á landi væri stóreignamenn eða auðfélög, sem gætu stofnað innlent eimskipafélag til þess að annast flutninga landsmanna, þá rynni allur arðurinn af flutningunum inn í landið og ferðunum væri hagað eins og landsmönnum væri hentast. Þann veg er háttað hjá flestum öðrum þjóðum, en hér á landi er engum slíkum auðmönnum til að dreifa og því ekki önnur úrræði til þess að losna úr dönsku fjötrunum, en að landssjóður takist á hendur útgerðina að meira eða minna leyti.

Eg fyrir mitt leyti læt mig ekki miklu skifta, þótt máli þessu væri frestað til næsta þings, en með því að óvíst er og enda allhæpið, að þá komi jafn gott tilboð því sem nú er eða annað betra, þá tel eg réttara að fresta ekki framkvæmd þess nú, því að stór nauðsyn er á að losast sem fyrst úr fjötrum

hins Sameinaða og takast á hendur fyrirtæki, sem vænleg eru til þess að rétta við hag þjóðarinnar og efla sjálfstraust hennar og framkvæmd.

Eg játa það, að breytingar við frv. eru nauðsynlegar, enda mun nefndin sjá um, að þær verði fram komnar við 2. umr.