23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Framsögumaður minni hlutans (Jóhannes Jóhannesson):

Eg stend upp til þess að gefa upplýsingar og skýringar um það, að ekki er fyllilega rétt skýrt frá málinu í nefndaráliti meiri hlutans. Eins og bréfið, sem eg las upp í gær sýnir, þá hefir umboðsmaður hins Sameinaða gufuskipafélags ótakmarkað umboð til að semja fyrir hönd þess. Nefndin hefir að eins einu sinni haft tal af honum, en ekki oftar. Hann kveðst vera reiðubúinn til viðtals, þegar þess er óskað, og koma eða mæta á nefndarfundum, ef þess yrði krafist, og honum var skýrt frá, að hann yrði síðar kallaður til viðtals við nefndina, en úr því hefir ekki orðið, meiri hluti hennar eigi fengist til þess. Áður en hann kom á fund nefndarinnar, þá hafði nefndin als eigi komið sér saman um það, hverjar kröfur og breytingar — frá því sem nú er — hún ætti að koma fram með, og var því alsendis óviðbúin að semja eða tala við manninn. Það er auðvitað þingið, sem á að þekkja þarfir og óskir þjóðarinnar í samgöngumálum, sem öðrum málum, og reyna að fullnægja þeim þörfum og kröfum, ef þær eru á sanngirni bygðar. Það eða stjórnin fyrir þess hönd á því að eiga frumkvæði í samgöngumálunum og útvega tilboð um samgöngur, en als eigi skipaútgerðarfélögin, enda gera þau slíkt ekki nema alveg sérstaklega standi á fyrir þeim, og það vekur jafnvel tortrygni, að minsta kosti hjá mér, þegar slík félög að fyrra bragði fara að koma fram með tilboð, eins og það, sem nú liggur fyrir þinginu frá Thore-félaginu. Maður skyldi nærri ætla, að svo væri komið fyrir þessu félagi, að því væri nauðsynlegt, að tilboði þess yrði tekið. Öðru máli er að gegna með Sameinaða félagið. — Félagið það stendur á jafn-föstum fótum, eftir sem áður, hvort sem þingið semur við það eða ekki og lætur sér því hóflega. Það er að reisa sér hurðarás um öxl að ætla sér að knésetja það. Og úr óttanum, sem því á að standa af Thorefélags-tilboðinu geri eg lítið. Umboðsmaður þess var greiðlegur í svörum viðvíkjandi þeim spurningum er nefndin lagði fyrir hann. — Lofaði hann meðal annars, að félagið skyldi láta nýjan bát ganga með fram Suðurlandi til Austfjarða, og að Botnía skyldi koma í stað Láru eða Vestu. — Eftir ¾ klukkustundar var hann kvaddur kurteislega, og tók hann það þá fram, að hann vildi fúslega tala við nefndina og gefa upplýsingar, hve nær sem hún gerði boð eftir sér til þess. Honum var heitið því, að svo mundi gert verða, en eins og eg hef skýrt frá, þá varð ekki af því. Nefndin gat því ekki búist við því, að hann færi að koma fram með tilboð að fyrra bragði; það hefði verið, eftir því sem á undan var gengið, að trana sér fram.

Háttv. 2. þingm. Rvík. (M. Bl.) fór hörðum orðum um mann þennan og framkomu hans, en háttv. þingm. er það til vorkunnar, að hann hefir að sjálfsögðu bygt ummæli sín á áliti meiri hluta nefndarinnar í samgöngumálinu, en þar er ekki rétt skýrt frá málinu, eins og eg hef tekið fram. — Við, sem í minni hluta urðum í nefndinni áttum engan kost á að koma fram með minni hluta álit, því búið var að taka málið á dagskrá, þegar okkur var sýnt nefndarálit meiri hlutans.

Háttv. frmsm. meiri hlutans (B. Kr.) sagði, að eg hefði farið fyrir utan merg þessa máls. En slíkt eru öfgar og rammasta fjarstæða, því er það ekki aðal-atriði í þessu máli, að það sé alsendis óundirbúið? Er það ekki aðal-atriði í málinu, að oss reki enginn nauður til þess, að gína við þessu tilboði, og er það loks ekki aðal-atriði, eða er það kanske auka-atriði, að samþykt þessa frumv. getur leitt af sér stórtjón fyrir landssjóðinn? Og er það ekki satt og rétt, að það ber als ekki að samþykkja þetta frumv., fyr en þjóðin hefir áttað sig á því, í staðinn fyrir, að hér er farið fram á, að þingið fallist á þessi lög, og reynt er af öllum mætti, að hamra þetta áfram, þrátt fyrir þótt þetta hafi als ekki verið borið undir þjóðina, né leitað álits hennar og vilja í þessu efni?

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) benti á það í gær, að hefði verið snúið sér til stjórnarinnar nógu snemma með þetta mál, þá hefði verið tími til þess að rannsaka það og undirbúa, og benti á, í hverju sá undirbúningur hefði átt að vera fólginn. En sannleikurinn er, að hér hefir verið farið á bak við stjórnina með alt, og það gerir mig hikandi eða tortryggan.

Þá talaði háttv. frmsm. meiri hlutans (B. Kr.) mikið um arðsemi og gróða þessa fyrirtækis. Eg hef aldrei sagt og mun aldrei segja, að það geti als ekki borið sig, en hitt er miklu líklegra, að það geti orðið til stórtjóns, og að það sé í sjálfu sér mjög viðsjárvert og geti reynst stór-hættulegt í framtíðinni. Það var sagt í dag, að þetta væri stórt spor í sjálfstæðis-áttina. Það getur verið mikið rétt, ef forsjón og gæfa fylgja. Annars er sparnaðurinn að mínu áliti fyrsta skilyrðið til þess, og eg álít, að stærsta sporið í sjálfstæðis-áttina sé, að landið verði fjárhagslega sjálfstætt, en þá má ekki draga það inn í fjárhættu-fyrirtæki. — Mér finst, að áður en slíkt spor er stigið og hér er um að ræða, verði að vera skýr rök fyrir því, að það sé heppilegt eða að minsta kosti ekki hættulegt, en því miður vanta þau.

Háttv. framsm. staðhæfði, að þetta væri eða gæti als ekki orðið tap, heldur miklu fremur álitlegur hagnaður. Háttv. þm. Dal. (B. J.), N.-Þing. (B. Sv.), 2. þm. Húnv. (B. S.) og 2. þm. Rvk. (M. B.) gerðu sér ekki eins glæsilegar vonir í þessu efni. Eins og nú lítur út getur minni hl. ekki álitið annað, en hér sé um áhættufyrirtæki að ræða. Í höndum vorum eru heldur ekki upplýsingar um þær breytingar, sem kvað eiga að verða á frv. þessu, svo að unt sé að byggja á þeim ábyggilegar ályktanir. Óvíst er, hvort þessar 40,000 kr. fást úr ríkissjóði. Við minni hluta menn í nefndinni vildum fá hana til að fá skýlaust svar hæstv. ráðherra um það, en því var ekki sint.

Svo vildi eg mega spyrja hinn háttv. meiri hl. að því, hvernig stendur á því, að engar upplýsingar eru um farmgjöld og fargjöld Thorefélagsins fyrir árið 1908, og eru þó liðnir 4 mánuðir af árinu 1909.

Eg hefi heyrt sagt, að farmgjöld hafi verið stórum mun minni 1908 en 1907 og árin þar áður. Þetta gerir mig grunsaman og tortrygginn. Hvernig stendur á því, að Thorefélagið hefir ekki aukið hlutafé sitt, sem er að eins 250 þús. kr., en unnið að mestu leyti með lánsfé? Ef fyrirtækið er eins arðvænlegt, eins og hinn háttv. meiri hluti segir, því losar það sig þá ekki við allar skuldir? Skuldir eru þó neyðarúrræði, og allir hygnir menn vilja vera lausir við þær. Eg skil ekki annað en menn fengjust til að taka hluti í svo arðvænlegu fyrirtæki. Mér er óskiljanlegt, að félagið geti ekki aukið hluti sína, nema því að eins að landssjóður verði hluthafi. Mér virðist sem útlendir bankar mundu keppast við að lána fé og jafnvel taka hluti í félaginu, ef það er svo arðvænlegt, sem af er látið. En nú lítur ekki út fyrir, að þetta sé svo, og gerir það það að verkum, að eg fyrir mitt leyti að minsta kosti verð að telja það áhættufyrirtæki fyrir landssjóð að taka hluti í félaginu.

Það hefir verið rætt um, hverja þýðingu það hefði, ef landssjóður neyddist til að halda uppi félaginu með þvingunarlögum. Eg þarf ekki að fara nánara út í það nú; eg tók það fram í gær, hversu ískyggilegt það væri.

Háttv. framsm. meira hlutans (B. K.) lagði áherzluna á viðskifti vor við Þýzkaland og áleit, að vér fengjum þau ekki bein nema vér rækjum sjálfir samgöngurnar. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) hefir getið þess, að rannsakað hafi verið, hversu mikill flutningur fari frá Þýzkalandi til Íslands, og hafi niðurstaðan orðið sú, að flutningurinn næmi nokkurum vagnhlössum á ári. Það mun enginn álíta tiltækilegt að koma á beinum skipagöngum milli Íslands og Þýzkalands með svo litlum farmi. Það mun reynast betra að flytja flutninginn fyrst til Danmerkur í járnbrautum, eða til Leith og síðan til Íslands, meðan hann er svo lítill. Það er undarlegt, hvað nú er alt í einu orðin brýn þörf á þessu sambandi. Háttv. framsm. meiri hlutans (B. K.) hafði samið áætlun fyrir 4 skip, ef til kæmi að þetta tilboð yrði tekið, og ekki sett þar inn eina einustu þýzka höfn. Þessi þörf hlýtur því að hafa vaknað nýlega. En ef hún er svo brýn, þá þori eg að fullyrða, að vér mundum geta fengið henni fullnægt, þótt vér göngum ekki að þessu. Fyrir hæfilegt verð munum vér geta fengið þessar samgöngur, hvar sem vér viljum. Ef vér snöruðum í Sameinaða félagið ½ miljón kr., er eg viss um, að vér mundum eiga kost á mjög góðum samgöngum.

Háttv. framsm. meiri hl. (B. K.) hermdi ekki rétt stærð kælirúmsins í Botníu; það er stórt, tekur um 300 tonn, og engin líkindi til þess að það fullnægi ekki þörfum vorum fyrst um sinn. Þá var það og ranghermi hjá honum, að eigi væri hægt að hafa minni hita en + 4° í því. Sannleikurinn er að framleiða má í því svo mikinn kulda, sem frekast er þörf á.

Einhver skaut því fram áðan, að minni hlutinn sæi engan agnúa á Sameinaða félaginu, hefði tekið ástfóstri við það. Þetta er ekki rétt. Eg hefi oft sett út á það félag og mun ef til vill gera framvegis. En bæði eg og fleiri hafa og margt haft að athuga við hin félögin, ekki sízt Thorefélagið. Og því mun enginn neita, að ekkert félag heldur betur áætlanir en Sameinaða félagið. Það hefir líka verið sagt, að erfitt væri að ná rétti sínum á Sameinaða félaginu. En það er víst, að menn kvarta fult svo mikið yfir því, hve örðugt sé að ná rétti sínum á hinum félögunum, ekki sízt Thorefélaginu. Og eg álít, að ef menn telja að misfellurnar séu að samanlögðu mestar hjá Sameinaða félaginu, þá stafi það af því, að það hafi starfað lengst. Það er munur á því að hafa siglt hér 30—40 ár, eins og það félag hefir gert. eða 6—7 ár, eins og Thorefélagið.

Þegar verið er að ræða um Thorefélagið, hefir ekkert tillit verið til þess tekið, hvernig það hefir hagað ferðum sínum hingað til. Það hefir verið talað um hagnaðinn, sem félagið hefir, en ekkert tillit verið tekið til þess, að það hefir engar skyldur haft, að það hagar ferðunum, eins og það vill og telur ábatasamast, án þess nokkuð að fara að því, sem þarfir landsmanna heimta. Þess vegna er það gefið, að þegar félagið á að fara að haga ferðum sínum eftir þörfum landsmanna, verður ábatinn ekki eins góður. Þá verður félagið að senda skip sín á hafnir, sem það hefir skaða af, ef það er hagur landsmanna. Og það skulu þið sanna, að þegar landssjóður er orðinn aðalhluthafi, mun hver toga í sinn skækil og heimta, að skipin komi til sín, og mig skal ekkert undra, þótt áætlanir þær, sem þá verða gerðar, reynist landssjóði ekki gróðavænlegar.

Með því að umræður eru orðnar svo langar, finn eg ekki ástæðu til að tala frekara.