23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Jón Ólafsson:

Það hefir lengi klingt við, að menn hafi fengið svo og svo mikla ást á Sameinaða félaginu. Hv. þm. Snæf. (S. G.) bar mér það á brýn að eg hefði tekið sérlega miklu ástfóstri við það félag.

Þetta er gersamlega rangt; eg hefi eiginlega alt af verið á móti því, og á þinginu 1905 var eg einn af þeim fáu, er vildi fremur hallast að öðru félagi, og eg er að mörgu leyti á móti því enn. Það sannar enganveginn það, að eg hafi tekið ástfóstri við þetta félag, þótt eg sé á móti því, að landssjóður hætti sér út í viðsjárvert fjárglæfra-fyrirtæki, með því að kaupa hluti í því félagi, sem hér er um að ræða. Framsm. (B. Kr.) sagði í gær, að eg hefði verið með yfirvarpsástæður. Þetta er ósatt. Eg var »dauður« við þá umr. og þess vegna hefir frsm. líklega notað tækifærið til þess að svala sér.

Eg benti á í gær, að maður gæti nú máske litið svo á, að félagið sjálft hefði ekki sem bezta trú á arðvænleik fyrirtækisins. Þetta stend eg við. Samkvæmt lögum þessum á landssjóður að gerast hluthafi að ? af öllu fénu, en hin verðbréfin á hann að geta fengið eftir ákvæðisverði.

Það kalla eg yfirvarps-ástæðu, að nokkur maður skuli leyfa sér að segja annað eins og það, að það sé samgöngubót að fækka skipum og ferðum.

Sú fækkun er auðvitað ekki gerð af því, að með því batni samgöngurnar; hitt er orsökin, að ferðaáætlunin var svo vitlaus, að vita-ómögulegt var að framkvæma hana.

Þá sagði framsm. (B. Kr.), að hann furðaði sig á, að jafn-skýr maður og eg, og þar að auki kennari við verzlunarskólann, skyldi ekki vita, hvað »forgangs-hlutabréf« væri.

Eg skal nú enn á ný fræða hinn hv. þm. um þetta og einnig þm. Dal. (B. J.), er var á sama máli. Forgangs-hlutabréf eru þau bréf, sem vextir borgast af eigendum þeirra, áður en eigendur almennu hlutabréfanna fá nokkra vexti af sínum hlutum. »Forgangs«-hlutabréfin hafa forgangsrétt að þeim ágóða, sem verða kann, ef hann nægir ekki til að borga öllum hluthöfum vexti. Þetta, og ekkert annað, þýðir orðið forgangs-hlutabréf. Það geta allir séð, sem vilja, ekki að eins í hverri viðskifta-orðabók, og hverri viðskifta-fræði, sem annars nefnir þau, heldur og í hverri orðabók almennri, og í hverri laga-orðabók. Stöku sinnum er svo ákveðið, að slík hlutabréf skuli afborga með einhverri upphæð árlega, unz þau eru innleyst, — en vel að merkja, að svo miklu leyti, sem auðið er að gera það af árlegum gróða félagsins. Annað og meira liggur aldrei í orðinu. Alt annað er vísvitandi blekking.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði að hér lægi ekki fyrir að kaupa Thorefélagið, heldur koma á fót nýju félagi. Þetta eru bein ósannindi. Þetta frumv., sem hér liggur fyrir, segir skýrum orðum, að landssjóði skuli gefin heimild til að taka lán, alt að 500,000 kr. til þess að kaupa hluti í gufuskipafélaginu »Thore«.

Annars skal eg ekki fara fleirum orðum þetta röklausa gaspur þm. Dal. (B. J,) í þessu efni.

Að lokum skal eg benda á það, að fyrir þessu þingi liggja engar ábyggilegar skýrslur um hag félagsins. Það er auðvitað barið fram af miklu kappi af formælendum málsins, að hagur félagsins sé glæsilegur. En þannig lagaðar röklausar fullyrðingar sanna ekki neitt.

Þess eru mörg dæmi, að félög, sem eru á höfðinu, sýna all-glæsilegar skýrslur. Get bent á eitt alveg nýtt nefnilega »Grundejerbanken«, sem sýndi ágætar skýrslur, og hét 9 af hundraði í ágóða, en var viku síðar gjaldþrota.

Það sjá allir menn, að varasjóður félagsins, þessar 60 þús. kr., er hvergi nærri nóg til að mæta fyrningu skipanna. Eg þykist því geta sagt með fullum rétti, að félagið hafi alt af verið að tapa. Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) tók það fram, að ekki væri að óttast samkepni frá hálfu Sameinaða félagsins, þar sem hagur þess stæði víst ekki með sem beztum blóma. Á hverju hann byggir það álit sitt, er mér engan veginn ljóst. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að varasjóður þess félags nemur miljónum, og auk þess hefir það annan sjóð til að styðja þau ferðasvið, er mestu samkepninni mæta.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) óttaðist ekki samkepnina við landssjóðsfélagið, þótt ekki af öðrum ástæðum, þá af því, að íslenzkir kaupmenn mundu skifta við það heldur en keppinaut þess, alt af tómri föðurlandsást. Ójá, ekki er nú arðsemisreikningur þessa félags bygður í lausu lofti, þegar ættjarðarástin á að verða helzti gróðagrundvöllur þess! Án þess að eg að nokkru vilji lasta íslenzka kaupmenn — þeir eru margir góðir drengir — þá er það öllum ljóst, að þeir — eins og aðrir — reka atvinnu til að græða en ekki af einskærri föðurlandsást. Þeir munu vilja skifta við þá, sem hagkvæmast er við að eiga, án tillits til þess hverrar þjóðar viðskiftanauturinn er. Þess er líka að geta, að margir af kaupmönnum hér — og það þeir stærstu, sem mest mundu flytja — eru danskir kaupmenn, sem ekki er við að búast, að mundu hafa svo mikla íslenzka ættjarðarást til að bera, að þeir vildu láta landssjóðsfélagið sitja fyrir — nema síður sé. — í þeirri samkepni, sem ekki er óeðlilegt, að rísi gegn landssjóðsfélaginu, stendur það miklu ver að vígi en keppinautar þess. Þeir geta hagað samgöngunum eins og bezt borgar sig, farið á þær hafnir að eins, þar sem mest er til eða frá að flytja og hættuminst. Aftur á móti landssjóðsfélagið; það verður að binda sig við margar hafnir, sem als ekki borgar sig að fara inn á. Það verður að líta á samgönguþörfina fyrir almenning, og koma á þær hafnir, sem þingið (oft af hreppapólitik) setur á áætlun. Það má ekki fara fram hjá þeim. Það verður oft með mörg hundruð króna kostnaði að krækja inn á höfn, til að fá þar kannske 50 aura eða 2 kr. farmgjald. Þannig hefir staðið á því að stór félög, svo sem Björgvinarfélagið, Wathne-félagið og Thorefélagið, sem hafa getað hagað ferðum og flutningi eftir eigin geðþótta, alt eftir því sem bezt borgaði sig, hafa staðið betur að vígi í samkepninni en það Sameinaða, sem hefir verið bundið við þá tilhögun, sem landssjóður eða réttara sagt þingið hefir viljað hafa og sett sem skilyrði fyrir styrknum.

Þá var talað um það, að þetta fyrirtæki ætti ekki að verða til að afla landinu ódýrari samgangna, heldur til hins að ráða vegum verzlunar og viðskifta landsmanna, að beina viðskiftalífinu inn á nýjar og heppilegri brautir, beina þeim frá Danmörku til verzlunarlandanna, einkum Þýzkalands og Englands. Eg ætla að segja, að fáir þm. hér, að minsta kosti ekki þm. Dal. (B. J.), hafi hvatt meir til þess en eg, að viðskifti vor ykjust og verzlun vor færi í vöxt við Þýzkaland og England. Eg hefi varið miklum tíma og fyrirhöfn til að ransaka, hvaðan vörur þær, sem vér kaupum, væru upprunnar, hvar þær væru framleiddar, og eg hefi til þess orðið að fara í gegnum margar vöru-skýrslur, og orðið að leita mér upplýsinga hjá kaupmönnum og öðrum, og með aðstoð fróðustu manna gert ransóknir þar að lútandi. Þegar eg hafði kynt mér þetta og komist að þeirri niðurstöðu, að viðskiftin væru mest í höndum Dana, að mestur hluti verzlunarvörunnar væri keyptur þar, benti eg á, að æskilegt væri, að íslenzkir kaupmenn sneru sér meir til Þýzkalands og Englands, því að þaðan eru flestar vörur þær, er vér kaupum, en sárlítið framleitt í Danmörku og það komst svo langt, að mér bárust málaleitanir frá 2 gufuskipafélögum þýzkum um, að sigla með vörur frá Hamborg upp til Íslands, ef nægur farmur fengist, og eg var beðinn að gangast fyrir því að fá loforð hjá íslenzkum kaupmönnum fyrir vissum farmi, en það gátu kaupmenn þá ekki. — Hins vegar er eigi auðskilið, að vér séum bundnir við að hafa Danmörku fyrir endastöð gufuskipaferða vorra, þótt við gínum ekki við þeirri flugu að kaupa dalla Thorefélagsins, enda er flutnm. sjálfur ekki svo mjög áfram um, að skipin komi á þýzkar eða enskar hafnir, því að í áætlun þeirri, sem hann hefir samið fyrir hið fyrirhugaða landssjóðsfélag, er ekki áætluð ein einasta ferð til Þýzkalands og til Bretlands ekki umfram það sem nú er. Áætlunin er ekki annað en uppsuða af hinum gömlu áætlunum Sameinaða félagsins — ekki nokkur einn nýr viðkomustaður í útlöndum! Þetta verða þá allar samgöngubæturnar, sem fást með að leggja út í þetta fjárhættufyrirtæki. Þetta eru nýju brautirnar!!! Að ganga að Thoretilboðinu verður því naumast leiðin til að losa verzlunina við Danmörk og beina henni til Þýzkalands og Englands. Ef við viljum stuðla að því, þá þurfum við ekki annað en bjóða einhverju félagi hæfilegt tillag til að taka ferðirnar að sér. Það væri ólíkt áhættuminna. Það væri óvíst fyrir landssjóðsfélagið að byggja á, að það muni njóta styrks úr ríkissjóði, ef skip þess færu að mun að sigla á enskar og þýzkar hafnir. Vér getum sannarlega ekki ætlað Dönum, að þeir fari að styrkja landssjóðsfélagið — Íslendinga — til að losa verzlunina við Danmörku. Það væri ofætlan. En vér getum gert þetta sjálfir án þeirra.

Þá var þm. Snæf. (S. G.) að bera mér á brýn, að eg í skjóli þinghelginnar talaði um efnahag Thor Tuliniusar. Það er ekki satt. Mér er vel til als Tuliniusar-fólksins, og óska og vona, að efnahagur hr. Thor E. Tuliniusar sé og verði sem beztur. En um hann hefi eg ekki eitt orð talað hér á þingi, en um efnahag Thorefélagsins hefi eg talað. Það er alt öðru máli að gegna. Úr því félagið er að bjóða þinginu reitur sínar til kaups, þá verðum við þingmenn að rannsaka efnahag þess, arðsemina af fyrirtæki þess og tilgang sölunnar. Það er blátt áfram skylda okkar og til þess verðum við þó að gera oss atriði þessi ljós.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) sagði, að eg hefði kastað því fram, að Thorefélagið væri á heljarþröminni, án þess að vita, hvort það væri rétt eða rangt, sem eg hefði sagt. Eg hefi ráðið það sumpart af skjölum frá Thorefélaginu sjálfu og tilboði þess, sumpart af viðurkenningu umboðsmanns þess, eins og meiri hluta nefndarinnar skýrir frá henni í nefndarálitinu um skuldir félagsins, og framsm. meiri hluta nefndarinn (B. Kr.) hálfviðurkendi það líka í ræðu sinni.

Þm. N.-Þing. (B. Sv.) sagði líka, að afleiðingin af því, að arður af skipaferðum sem stendur væri lítill, og járn mjög fallið í verði og skipin því svo ódýr, gæti ekki verið önnur en sú, að hentugur tími væri fyrir landssjóð að kaupa skip einmitt nú. Þetta væri rétt, ef landssjóður ætlaði að kaupa skip á frjálsum markaði, en ekki blint (?: eftir virðingarverði), eða ef landssjóður ætlaði að láta smíða skip.

Eg skal minnast á eitt dæmi, sem eg gat um í ræðu minni í gær. Fyrir nokkru var skip í Noregi virt á 140 þús. kr. af eiðsvörnum virðingarmönnum, en einni viku seinna selt fyrir einar 40 þús. krónur. Þetta bendir ljóslega á, hve gott væri að kaupa skip eftir virðingarverði. Ef við annars værum í þeim nauðum staddir, að við þyrftum að hafa skipaútgerð á hendi, þá ættum við ekki að kaupa gömul skip eftir virðingarverði, heldur ný skip á frjálsum markaði, skip, sem fullnægðu betur krötum nútímans en Thoreskipin gera.

Viðvíkjandi ríkissjóðsstyrk Dana hefir þáverandi formaður Sameinaða félagsins skýrt frá því í aðalfundarskýrslu nú í ársbyrjun, að félagið hafi fengið vilyrði fyrir að halda þeim styrk framvegis, þótt aðrir tækju að sér Íslandsferðirnar. Þetta gerir dálítið stryk í arðsemisreikning landssjóðsfélagsins, sem fylgismenn þess ekki algerlega geta gengið fram hjá.

En það sem mér þó virðist aðalatriðið í þessu máli er, að engar nauðir knýja oss til að leggja út í jafn hættumikið fyrirtæki. Vér höfum betri samgöngur nú, en nokkru sinni áður, og enda þótt vér viljum bæta þær að einhverju og fá ferðir til Þýzkalands, þá getum vér það án þess að leggja svo mikið í hættu. Eg spurði háttv. flutnm. (B. Kr.), hvernig stæði á, að Thorefélagið hefði ekki meira hlutafé. Hann svaraði því með þeirri yfirlýsingu, að Thor Tulinius, sem ætti meiri part hlutafjárins hefði ekki viljað auka það, Hann hefir eftir því ekki viljað unna öðrum þess að gerast hluthafar, en er þó með mikilli fyrirhöfn og tilkostnaði að reyna að fá landssjóð til þess. Ekki er þetta trúlegt tal. Eg held að þm. viti ekki, hvað hann er að fara með. Það er kunnugra en frá þurfi að segja — nema háttv. flutnm. (B. Kr.) — að Tulinius hefir gert tilraun til að auka hlutaféð, en ekki getað tekist það. Eg hefi líka heyrt, að hann hafi gert sér ferð til Hamborgar í sömu erindum og það hafi farið sömu leið, en ekki skal eg fullyrða, hvort það er satt.

Þá var það eitt atriði, sem 2. þm. Húnv. (B. S.) tók fram. Hann sagði, að þótt þingið samþykti Thoretilboðið, þá væri það bara heimild fyrir landstjórnina að ganga að því, og hún gæti látið vera, ef henni þá litist það óráðlegt. Í tilefni af þessu vil eg með leyfi forseta lesa upp 11 linur úr »Þjóðviljanum«, blaði einhvers helzta mannsins í ráðherraflokknum, varaforseta sameinaðs þings. Honum farast þannig orð:

»Vér getum nú eigi annað en talið það miður viðeigandi, að nýi ráðherrann geri sér sérstakt far um að fá máli þessu framgengt á þingi, þar sem sonur hans er umboðsmaður nefnds félags, að því er til tilboðsins kemur, og á hagsmuni mikla í aðra hönd, fáist málinu framgengt á þingi, auk þess er ráðherranum er sjálfum ætlað að vera formaður í stjórn hins nýja félags, sem óefað verður allhálaunuð staða«. . . .

Þegar eg athuga þetta, og hins vegar ummæli háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.), þá verður mér ósjálfrátt að detta í hug, að heimildin verði vafalaust notuð, og að föður og syni muni semjast vel; málið yrði auðvitað útkljáð í »familíu«-ráði.