26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Hannes Hafstein:

Eg get ekki séð, að breyt.till. á þgskj. 632 bæti neitt úr skák. Meiri hlutinn hefir að eins með öllum þessum breytingartill. viðurkent áþreifanlega, að það hafi verið aumi óskapnaðurinn, frumv., sem var hér á ferðinni við 1. umr., því þeir hafa breytt frumv. svo, að ekki stendur steinn yfir steini. Væri breytingartill. kastað í burtu, þá stæði svo sem ekkert eftir af hinu upphaflega frumv.; þeir hafa með öðrum orðum ekkert nýtilegt fundið í sínu eigin frumv., þegar þeir fara að athuga það nánar, jafnvel fyrirsögnin er svo breytt, að beinast liggur við að segja, að hér sé um alveg nýtt frumv. að ræða.

En ef frumv., eins og það liggur nú fyrir, er skoðað vandlega, þá mun sjást, að efni frumv. er ekki nýtt, það er alveg það sama, einungis í nýjum ham. Hér hefir að eins verið farið í feluleik — skriðið undir bekkinn með sanna merginn málsins.

Að þetta er svo sem eg segi, sést á því, að hluthöfum Thorefélagsins er áskilinn forkaupsréttur í hlutum landssjóðsfélagsins. Þetta ákvæði gæti als ekki staðist, ef ekki væri einmitt meiningin að taka Thoretilboðinu á þennan hátt.

Með þessu ákvæði á að firra samkepnina. Flutningsmaður vildi láta í veðri vaka, að þetta væri sett til þess að firra landssjóðsútgerðina samkepni af Thorefélaginu! En ef bjóða á forgönguhluti í því skyni, hversvegna er þá gengið fram hjá því félaginu, sem margfalt meira bolmagn hefir til samkepninnar og vafalaust einnig mundi halda áfram ferðum hér? Hversvegna áskilja þeir þá ekki því Sameinaða forkaupsrétt, til þess að komast hjá samkepni þess?

Nei! Aðrir en Thorefél. eiga ekki að fá að kaupa »aktíur« í þessu svo nefnda landssjóðsfélagi. Hvers vegna? Af því efni frumv. er það sama og það var við 1. umr. Þeir hafa að eins skírt það upp og sett það í annað form. Það er bersýnilegt, ef frumvarp þetta yrði að lögum og félagið nýja ætti að taka til starfa 1910, þá er ómögulegt að vera búinn að undirbúa kaup á öðrum skipum en þessum, sem hér hafa verið höfð á boðstólum, og mundi því alt að sama brunni bera, einnig með skipastólinn.

Í staðinn fyrir að í fyrra frumv. var ákveðið, að landssjóður gerðist hluthafi í Thorefélaginu og hefði yfirráðin, þá er nú ákveðið, að Thorefélagið skuli kaupa hlutabréf í landssjóðsfélaginu og semja lög fyrir það! Eg get ekki betur séð, en þetta sé mun verra en ekki betra.

Af þessum ástæðum get eg ekkert frekara nú fylgt málinu en áður. Frv. er ekkert betra í efninu. En þó eg greiði atkv. móti þessu, eins og það er í garðinn búið, þá er ekki þar með sagt, að eg sé fráhverfur hugmyndinni um það, að landið reyni með tíð og tækifæri að taka samgöngurnar í sína eigin hönd, með innlendu félagi. Það hefir þvert á móti lengi verið hugsjón mín, sem eg hefi síðustu ár verið að íhuga og leita hófanna um.

En í félagi, sem landssjóður tæki einhvern þátt í, þyrfti fyrst og fremst að varast, að nokkru sérstöku félagi eða nokkrum sérstökum mönnum væri gefin forréttindi til þess öðrum fremur að njóta góðs af félagsstofnuninni. Það má ekki byrja á því að egna upp mótstöðu og óholla samkepni.

Málið þarf í heild sinni alt annan undirbúning en þann, sem hér er að heilsa. Það er mikið vandamál, sem vel þarf að athuga og tryggja fyrir fram, og má vera, að það lánist í framtíðinni, áður mjög langt um líður, ef gætilega er með farið og undirstaðan réttilega fundin.