26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Bjarni Jónsson:

Mér er dálítið óskiljanlegt, hvernig augu þeirra manna eru haldin, sem ekki finna mun á frv. með breytingartill. og upphaflega frv. Og eg skil heldur ekki í því, hvernig fullvita menn geta sagt, að enginn munur sé á því, hvort gengið er inn í annað félag, eða nýtt félag stofnað. Það þarf að ætla mönnum ótrúlega mikinn forða af heimsku til þess að þeir trúi þessu, og mig undrar að fullorðnir menn skuli berja slíkt fram.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) var þó að fræða menn á þessu. Hann kvað hafa haldið langa ræðu um efnahag fél„ en eg get ekki skilið, hvað það kemur málinu við. Hér er verið að ræða um að stofna nýtt félag og bjóða Thorefélaginu forkaupsrétt á hlutunum, og þá sé eg ekki, hvað efnahagur þess félags kemur oss við. Ef vér ætluðum að ganga inn í Thorefélagið, þá þarf að þekkja efnahaginn. Mér finst þetta og því um líkt vera að snúa hlutunum við og það sýni, að háttv. þm. hefir ekki um auðugan garð að gresja, hvað ástæður og rök snertir.

Það þótti varhugavert að landssjóður ætti að kaupa skip Thorefélagsins eftir mati. Nú er ekki talað um að kaupa nein ákveðin skip í frumv. En þá skeður það óskiljanlega, að nú segja þeir, sem eru móti frumv., að það sé sama að kaupa skipin, eins og að nefna það als ekki að kaupa nokkur skip af Thorefélaginu. Hvers vegna er þetta það sama? Það gerir alt stjórnin. Í henni eru 3 menn, 2 þeirra velur þingið að sjálfsögðu úr meiri hl. og sá 3. verður vandaður og vitur minni hl. maður. Nú skyldu menn halda, að alþingi gæti kosið þessa menn svo, að ekki væri hætta á því að hlaupið væri til þess að kaupa léleg skip með uppskrúfuðu verði. Það þarf ekki mikinn forða af viti til þess að sjá, að lítið er til af rökum hjá þessum herrum, þegar þeir fara að bjóða þinginu svona löguð rök.

Þá þykir þeim það undarlegt, að Thorefélagið skuli eiga að hafa forkaupsrétt að hlutabréfunum. Hvers vegna fá þeir forkaupsrétt ? Af því félagið hefir haft svo mikil viðskifti við landsmenn í mörg ár og það er þar af leiðandi hagur fyrir landssjóðsfélagið að það kaupi hlutina. Thorefélagið hefir engan hagnað af forkaupsréttinum, og vel gæti farið svo, að þegar skip þess væru ekki keypt, að það vildi ekkert kaupa af hlutabréfunum. Ef svo færi, þá er sjálfsagt að bjóða öðrum bréfin.

Eg get því ekki kannast við það, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að hér væri um undirferlis-tilraun að ræða. (Hannes Hafstein: Eg nefndi ekki undirferli). Eg kann betur við að nefna hlutina með réttu nafni, heldur en að flæmast eins og köttur í kringum heitt soð með orð, sem þýða þetta og ekkert annað. Það var og samkv. sögusögn þm., sem átti að hafa falið þetta flagð undir fögru skinni. Þetta eru með öllu tilhæfulaus brigsl; þm. og allir vita að það hefir aldrei verið tilgangur minn og að ekkert slíkt felst í frumv. Eg verð því að vísa þessum orðum heim, svo þau geti fengið fóstur, sem þau eiga faðerni til. Mér gekk gott til breyt.till., og þetta sem nú hefi eg sagt, býr í þeim og ekkert annað.

Eg get ekki setið hér inni án þess að roðna, þegar mestur hluti umræðanna í dag snýst um eimskipafélag úti í heimi, sem ekkert kemur aðalmálinu við. (Hannes Hafstein: Thoretilboðið hefir staðið á dagskrá). Engar breyt.till. byggjast á því. (Hannes Hafstein: Thoretilboðið stendur þó á dagskránni og um það mál verða umræðurnar auðvitað að snúast). Eg er að tala um breyt.till. og sá kafli, sem eg er að svara, byggist á þeim. Forkaupsréttinn hefir Thorefélagið til þess að forðast samkepni og til þess að fá viðskifti þess í hendur nýja félaginu.

Eitt sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, hljóðaði á þann veg, að samkv. frumv. hefðum vér verið að ganga inn í Thorefélagið og semja lög fyrir það, en eftir breyt.till. ætti Thorefélagið að ganga inn í landssjóðsfélagið og semja lög fyrir það. Eg veit ekki hvaða snaga þm. hefir til þess að hengja þessa hugsun á, og svara eg henni því ekki.

Það getur satt verið, að undirbúningur málsins sé ekki nægilegur, en það hygg eg þó, ef það er lagt í vald stjórnarinnar að sjá um framkvæmdir að öðru leyti.

Háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) talaði um breyt.till, og sagði að þær væru að eins til þess að ginna þm. á það að glæpast á frumv. — sama brigslið og 1. þm. Eyf. (H. H.) lét sér um munn fara. Af því eg er svo mikið riðinn við breyt.till., þá get eg enn lýst því yfir, að það býr ekkert annað en góður tilgangur undir þeim. Eg verð því að vísa þessum ummælum heim til pabbans, og geta þess, að mér þykir það leiðinlegt og ótrúlegt, að gamlir kunningjar og skólabræður mínir, sem þekkja mig vel, skuli væna mig slíks að ástæðulausu.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) fór hörðum orðum um frumv. og byrjaði og endaði á kettinum, sem fer í kring um grautinn. Eg skal leiða hjá mér að svara honum, en lofa þessari sál að hlaupa í kring um sinn eigin hugsunargraut.