26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Kristjánsson):

Það eru margir, sem fárast hafa yfir því, að Thorefélagið skuli hafa forkaupsrétt að hlutunum. En það er einungis gert vegna þess, eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) tók fram, að geta náð í þau viðskiftasambönd, sem félagið hefir fengið við það að sigla hér í kring um landið í fleiri ár og sem annarsstaðar mundi vera gefið fyrir allmikið fé. Öðru máli er að gegna með Sameinaða félagið. Þótt vér fengjum að taka 4—500 þús. kr. hluti í því, þá hefðum vér engin yfirráð yfir því fé eða siglingunum. Það mundi aldrei ganga inn á þá skilmála. Ef Thorefélagið ekki vill kaupa hlutina, þá getur komið til mála að bjóða öðrum þá, en að það Sameinaða vilji kaupa þá með sömu skilyrðum og Thorefélagið, getur víst fáum komið til hugar.